Dalselsbræður (um 1930-45)

Dalselsbræður - Leifur og Valdimar

Dalselsbræður, Leifur og Valdimar Auðunssynir

Dalselsbræður voru kenndir við bæinn Dalsel í Vestur-Eyjafjallahreppi í Rangárþingi, en þeir léku á skemmtunum einkum á heimaslóðum á sínum tíma.

Dalselsbræður, eins og þeir voru kallaðir, voru bræðurnir Leifur (1907-78) og Valdimar (1914-90) Auðunssynir sem báðir léku á harmonikkur, reyndar lék þriðji bróðirinn stundum með þeim á trommur og systir þeirra einnig á harmonikku en systkinahópurinn var stór. Kristján Úlfarsson mun ennfremur hafa leikið með þeim bræðrum einstöku sinnum en ekki er ljóst hvort þeir gengu þá undir einhverju öðru nafni. Yfirleitt voru þeir þó tveir bræðurnir, léku fyrir dansi og nutu mikilla vinsælda.

Leifur mun auk þess hafa leikið á píanó og var söngmaður góður, en Valdimar var einnig dægurlagahöfundur og samdi m.a. lög fyrir danslagakeppni SKT, þar sem hann vann til verðlauna.

Erfitt er að segja til um nákvæmlega um upphaf og endi harmonikkuballa þeirra bræðra en Valdimar mun hafa verið um fermingu þegar hann byrjaði að leika á slíkum böllum.