Líkt og við marga af gagnfræðaskólum landsins voru á sínum tíma starfandi skólahljómsveitir við Gagnfræðaskóla Austurbæjar (sem einnig var kallaður Ingimarsskóli eftir fyrsta skólastjóranum) en skólinn starfaði undir því nafni til ársins 1974 en hann hafði verið stofnaður 1918 og gekk fyrst undir nöfnunum Ungmennaskóli Íslands og Gagnfræðaskóli Reykjavíkur áður en Austurbæjarnafnið kom til sögunnar.
Elstu heimildir um hljómsveit við skólann eru frá 1947 eða 48 en þá starfaði skólahljómsveit þar undir stjórn Sverris Garðarssonar (sem síðar átti eftir að starfa við tónlist og félagsmál tónlistarmanna), hann lék sjálfur á trommur en aðrir meðlimir sveitarinnar voru Birgir Ísleifur Gunnarsson (síðar m.a. borgarstjóri og ráðherra) píanóleikari [?] og Matthías Karelsson harmonikkuleikari [?], síðar bættust í hópinn Andrés Ingólfsson klarinettuleikari, Sigurður H. Guðmundsson harmonikkuleikari og Hörður Magnússon [?].
Veturinn 1949-50 var við Austurbæjarskóla starfandi hljómsveit þeirra Ragnars Bjarnason trommuleikara (síðar söngvara), Sigurðar H. Guðmundssonar, Karls Lilliendahl gítarleikara, Agnars Einarssonar [?] og Andrésar Ingólfssonar sem lék á árshátíð og öðrum skemmtunum innan skólans, hluti þeirrar sveitar átti síðar eftir að starfa undir nafninu RDS-tríóið.
Næst liggja fyrir upplýsingar um hljómsveit sem starfaði við skólann á síðari hluta sjötta áratugarins, líklega í kringum 1956-58 – í þeirri sveit var meðal annarra harmonikkuleikarinn Júlíus Sigurðsson en ekki er vitað hverjir aðrir skipuðu sveitina þá, um svipað leyti eða litlu síðar var þar starfandi sveit skipuð þeim Magnús Eiríkssyni gítarleikara, Leif Breiðfjörð píanóleikara, Gunnari Breiðfjörð slagverksleikara og Ragnari [?] gítarleikara. Þá var skólahljómsveit starfandi við skólann á fyrri hluta sjöunda áratugarins (líklega þó nær 1965 en 1960) sem hafði að geyma Björgvin Gíslason gítarleikara en upplýsingar um aðra er ekki að finna.
Vafalaust hafa oftar en ekki verið skólahljómsveitir við skólann og er hér með auglýst eftir upplýsingum um þær.














































