Skólakór Húsmæðraskólans á Laugum (1931-74)

Skólakórar voru starfræktir við Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu en upplýsingar um þá eru af skornum skammti.

Húsmæðraskólinn að Laugum starfaði á árunum 1929-85 (síðustu árin undir nafninu Hússtjórnarskólinn á Laugum) og störfuðu kórar við skólann að minnsta kosti annað slagið undir stjórn söngkennara. Þannig mun hafa verið starfandi kór við skólann veturinn 1931-32 sem og skólaárið 1953-54 en þá um vorið söng hann við hátíðarhöld skólans í tilefni af 25 ára afmæli hans – líklega undir stjórn Páls H. Jónssonar en Páll kenndi söng við skólann um árabil, jafnvel frá 1933 til 61 en á þeim árum gegndi hann stöðu söngkennara við Héraðsskólann á Laugum.

Þá var einnig skólakór starfandi við skólann árið 1967 og í umfjöllun tengdri honum er sagt að hann hafi þá sungið á árlegum tónleikum ásamt kór Héraðsskólans á Laugum, sem bendir til að hann hafi þá verið starfandi um nokkurn tíma. Engar upplýsingar er að finna um stjórnanda kórsins á þeim tíma en fyrir liggur að Friðrik Jónsson kenndi söng við skólann árið 1974 og væntanlega hefur hann stjórnað kór á sama tíma, hann var eins og Páll forveri hans söngkennari einnig við héraðsskólann (á árunum 1961-76).

Engar upplýsingar liggja fyrir kórsöng í Húsmæðraskólanum á Laugum í Reykjadal eftir miðjan áttunda áratuginn og er óskað eftir upplýsingum um hann sem og upplýsingum inn í þær eyður sem þarf að fylla í umfjöllunina hér að ofan.