Karlakór Reykdæla (1931-75)

Karlakór Reykdæla

Karlakór Reykdæla

Reykjadalur í Suður-Þingeyjasýslu er langt frá því að vera þéttbýlasti hreppur landsins en þar starfaði þó karlakór í áratugi.

Karlakór Reykdæla var stofnaður fyrir tilstuðlan Jóns Sigfússonar frá Halldórsstöðum í Reykjadal árið 1931. Sjálfur stjórnaði Jón kórnum í upphafi en síðan tók Páll H. Jónsson kennari á Laugum við því starfi og gegndi því allt til 1961, utan þess að Áskell Jónsson kom að stjórn hans um stuttan tíma 1940 og Þóroddur Jónasson héraðslæknir á Breiðumýri einnig, en hann tók síðan við kórnum haustið 1961.

Þóroddur stjórnaði Karlakór Reykdæla þar til 1968 þegar tékkneska tímabilið hófst með komu Jaroslav Lauda sem þá kenndi við tónlistarskólann á Húsavík. Lauda gegndi stöðu stjórnanda kórsins til ársins 1971 þegar annar Tékki, Ladislav Vojta tók við starfinu en hann var með kórinn þar til hann hætti störfum um miðjan áttunda áratuginn. Eftir það var ekki starfandi karlakór í Reykjadalnum.

Kórinn hafði gengið til liðs við Heklu, Samband norðlenskra karlakóra árið 1934, og 1965 gaf sambandið út safnplötuna Raddir að norðan, sem hafði að geyma söng kóranna, þar á meðal Karlakór Reykdæla sem flutti þar tvö lög undir stjórn Þórodds.