Karlakór Ólafsfjarðar (1934-76)

Karlakór Ólafsfjarðar

Karlakór Ólafsfjarðar

Karlakór starfaði lengi vel á Ólafsfirði, og var eins og víðast annars staðar stór hluti af menningarlífi bæjarins.

Það voru Albert Þorvaldsson, Theódór Árnason og fleiri sem fóru fyrir því að karlakór var stofnaður á Ólafsfirði í desember 1934 en Theódór var þá tiltölulega nýkominn til starfa sem læknir í bænum. Hann varð fyrsti stjórnandi kórsins sem í upphafi var í raun aðeins lítill söngflokkur, og kallaðist Kátir piltar.

Litli söngflokkurinn stækkaði þó brátt en nafni hans var þó ekki breytt fyrr en 1957, en að jafnaði voru á milli þrjátíu og fjörutíu söngmenn í kórnum.

Theódór stýrði kórnum til 1937 þegar hann flutti frá Ólafsfirði og næstu árin voru þeir Jón Júlíus Þorsteinsson kennari og organisti, Sigursveinn D. Kristinsson og Sigursteinn Magnússon stjórnendur Kátra pilta.

Guðmundur Kristján Jóhannsson tók við keflinu 1954 og stjórnaði til 1960 og það var í hans tíð sem kórinn hlaut loksins nafn kórs, Karlakór Ólafsfjarðar.

Magnús Magnússon varð næstur í röðinni, var stjórnandi kórsins þar til Frank Herlufsen skólastjóri tónlistarskóla bæjarins tók við haustið 1973, en kórinn hafði einmitt komið að stofnun tónlistarskólans 1965.

Karlakór Ólafsfjarðar virðist hafa starfað til 1976 og var Frank stjórnandi hans þar til.

Engar heimildir er að finna um starfsemi Karlakórs Ólafsfjarðar eftir þetta utan þess að 1989 er hann lítillega nefndur í fjölmiðlum. Ekki virðist kórinn hafa starfað þá nema í stuttan tíma.