Karlakór Vestmannaeyja [4] (1941-62)

Karlakór Vestmannaeyja 1942

Karlakór Vestmannaeyja 1942

Sá Karlakór Vestmannaeyja sem starfaði hvað lengst og áorkaði hvað mestu, var starfræktur á um rúmlega tuttugu ára skeiði um miðja síðustu öld. Það sem þó einkenndi starf hans öðru fremur voru tíð kórstjóraskipti en sjö stjórnendur komu við sögu hans, þar af einn þeirra þrívegis.

Það var Ragnar Halldórsson tollþjónn í Vestmannaeyjum sem var aðalhvatamaður fyrir því að Karlakór Vestmannaeyja var stofnaður haustið 1941.

Kórinn var fremur fámennur í upphafi en fjölgaði í honum síðan eftir því sem á leið og oftast voru um þrjátíu manns í honum, kórinn þurfti þó oft að glíma við áhugaleysi bæjarbúa í Eyjunum og ekki síður á köflum sjálfra kórmeðlima. Aðrar krísur svo sem húsnæðisleysi til æfinga settu einnig svip sinn á starfsemina. Meðlimir kórsins héldu þó alltaf ótrauðir áfram með æfingum og reglulegu tónleikahaldi.

Helgi Þorláksson kennari varð fyrstur til að stjórna Karlakór Vestmannaeyja og hafði með kórinn að gera þar til haustið 1944 þegar hann flutti á brott úr Eyjunum. Um tíma var enginn stjórnandi en þegar kirkjuorganistinn Ragnar G. Jónsson tók við keflinu 1945 var framtíðinni bjargað í bili en það var ekki í eina skiptið sem Ragnar hljóp undir bagga.

Ragnar stýrði kórnum næstu tvö árin við góðan orðstír reyndar eins og Helgi hafði einnig gert áður, en þegar hann hætti störfum um haustið 1948 lá starfsemin niðri í nokkra mánuði.

Þá kom til sögunnar Pálmar Þ. Eyjólfsson en hann kom til Eyja eftir áramótin 1948-49 og stjórnaði kórnum fram á vor, og svo aftur ári síðar (1950). Þess á milli stjórnaði enginn kórnum.

Karlakór Vestmannaeyja 1947

Karlakór Vestmannaeyja 1947

Ljóst var að þannig gat þetta ekki gengið og haustið 1950 tók Guðmundur Gilsson organisti við stjórninni og var með kórinn um veturinn 1950-51, engir tónleikar voru haldnir þennan vetur en þess í stað voru nokkur lög tekin upp með kórnum á stálþráð, og leikin í Ríkisútvarpinu.

Það var mikil heppni fyrir Karlakór Vestmannaeyja þegar Ragnar G. Jónsson kom aftur til starfa og stjórnaði kórnum aftur frá og með haustinu 1951. Hann var með kórinn næstu tvö árin en að þeim loknum var farið að sjá fyrir endann á starfinu enda var þá verulegs áhugaleysis farið að gæta hjá kórmeðlimum og Vestmannaeyingum almennt.

Næstu árin var kórstarfið því með nokkrum hnökrum, Guðjón Pálsson organisti stjórnaði kórnum í nokkra mánuði veturinn 1954-55, Leifur Þórarinsson tónskáld einnig um tíma veturinn 1957-58 og einnig Ragnar G. Jónsson sem nú kom að kórnum í þriðja sinnið í upphafi árs 1959. Mikil nýliðun var í kórnum á þessum árum.

Karlakór starfaði til ársins 1962 og þá virðist karlakórssöng í Vestmannaeyjum að mestu hafa verið hætt. Tilraun var þó gerð haustið 1966 að endurvekja kórinn en þá var kominn til Vestmannaeyja Martin Hunger (Marteinn H. Friðriksson) og stjórnaði kórnum þó um skamman tíma væri.

Síðan hefur ekki karlakór starfað í Vestmannaeyjum þar til í upphafi árs 2015 að nýr Karlakór Vestmannaeyja var stofnaður.