Slagbrandur [2] (1978-82)

Slagbrandur

Hljómsveitin Slagbrandur var framarlega í dansleikjaspilamennsku á Austfjörðum í kringum 1980 og sendi m.a.s. frá sér tvær hljómplötur meðan hún starfaði.

Slagbrandur var stofnuð á Egilsstöðum árið 1978 og kom fyrst fram á dansleik í Valaskjálfi í heimabænum haustið 1979 en sá staður varð eins konar heimavöllur sveitarinnar. Það var píanóleikarinn Árni Ísleifsson sem hafði flutt austur á Egilsstaði til að sinna tónlistarkennslu, sem hafði stofnað sveitina en aðrir stofnmeðlimir hennar voru Bjarni Helgason trommuleikari, Friðjón Ingi Jóhannsson bassaleikari og Magnús Einarsson harmonikku- og hljómborðsleikari. Stefán Jóhannsson gítarleikari kom í stað Magnúsar og Sigurður Friðrik Lúðvíksson átti síðar eftir að leysa Stefán gítarleikara af hólmi. Allir meðlimir sveitarinnar skiptust á að syngja nema Árni. Einnig komu Alda Jónsdóttir söngkona og Eyþór Hannesson hljómborðsleikari við sögu sveitarinnar.

Sumarið 1981 samdi Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) við Slagbrand um að leika á þremur dansleikjum á Sumarhátíð UÍA í tengslum við 40 ára afmæli sambandsins og af sama tilefni afhenti það sveitinni tvö lög til að flytja á dansleikjunum, Afmælissöng UÍA og Baráttusöng UÍA – lögin voru eftir Inga T. Lárusson og ljóðin eftir Sigurð Ó. Pálsson. Þeim Slagverks-liðum datt þá í hug að gefa lögin út á lítilli plötu, fóru til Sigurðar Rúnars Jónssonar í Stúdíó Stemmu og kom platan svo út um haustið, nokkru eftir hátíðina. Hún var seld hjá ungmennafélögunum fyrir austan og fór reyndar einnig í almenna sölu.

Slagbrandur lék mikið á dansleikjum fyrir austan 1981 og 82 og vorið 1982 fór sveitin svo til Reykjavíkur og lék á dansleikjum þar og notaði tækifærið til að hljóðrita fimm lög í Grettisgati undir stjórn Júlísar Agnarssonar. Sveitinni gafst reyndar aldrei færi á að fylgja plötunni eftir því að hún hafði hætt störfum þegar platan, Grimmt og blítt kom loks út vorið 1983. Það var Árni Ísleifs (höfundur allra laganna fimm) sem gaf plötuna út undir útgáfumerkinu Brandur en tveir gestir komu við sögu á henni, trompetleikarinn Viðar Alfreðsson og saxófónleikarinn Þorleifur Gíslason. Eitt laganna kom svo út á safnplötunni Í laufskjóli greina, sem kom út árið 1997 í tilefni af hálfrar aldar afmæli Egilsstaðakaupstaðar.

Efni á plötum