Bergmál [2] (1986-87 / 1991-95)

Bergmál

Danshljómsveitin Bergmál starfaði á Egilsstöðum um árabil og gerði reyndar víðreisn um landið um tíma.

Skipta má sögu Bergmáls í tvö tímaskeið. Sveitin var stofnuð haustið 1986 og starfaði fyrst í um eitt ár eða fram á sumarið 1987, meðlimir hennar í upphafi voru Friðjón Jóhannsson bassaleikari (Mánatríó, Panic o.fl.), Sigurður Jakobsson trommuleikari (Fásinna, Nefndin o.fl.), Eyþór Hannesson hljómborðsleikari (Völundur, Slagbrandur o.fl.) og Bjarni H. Kristjánsson gítarleikari (Aþena, Fásinna o.fl.).

Bergmál lagðist í nokkurra ára dvala sumarið 1987, angi af sveitinni starfaði reyndar um tíma undir nafninu Tríó Eyþórs, en hún tók aftur til starfa vorið 1991 og var þá starfandi í um fjögur ár við góðan orðstír og nokkrar vinsældir. Þeir Friðjón, Eyþór og Sigurður voru enn meðal meðlima en sæti Bjarna tók gítarleikarinn Gréta Sigurjónsdóttir sem þá hafði gert garðinn frægan með Dúkkulísunum. Hún staldraði ekki lengi við en í hennar stað komu tveir gítarleikarar, Árni Óðinsson (Lucifer, Stemming o.fl.) og Björn Hallgrímsson (Austurland að Glettingi, Lóla o.fl.). Þá tók Valgeir Skúlason (Straumrof, Stemming o.fl.) fljótlega við trommuleiknum af Sigurði.

Um haustið 1993 fækkaði aftur í Bergmáli, þá hættu báðir gítarleikararnir og tók Stefán Víðisson við gítarleiknum en hann hafði þá starfað með hljómsveitinni Lífveru. Þannig starfaði sveitin uns hún hætti störfum 1995.

Bergmál naut nokkurra vinsælda sem danshljómsveit án þess nokkru sinni að hafa sent frá sér útgefið efni, sveitin lék mikið austanlands en orðspor hennar barst víða og hún lék oftsinnis á Akureyri og reyndar á höfuðborgarsvæðinu einnig.

Þremur árum síðar stofnaði Friðjón sveit í eigin nafni, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar, sem skipuð var kjarnanum úr Bergmáli.