Skarphéðinn Þorkelsson (1912-50)

Skarphéðinn Þorkelsson

Skarphéðinn Þorkelsson var læknir og tónskáld en eftir hann liggur eitt útgefið nótnahefti.

Skarphéðinn fæddist 1912 og ólst upp hjá fósturforeldrum í Reykjavík. Eftir nám í læknisfræði var hann um skamma hríð héraðslæknir vestur í Ísafjarðardjúpi en síðan austur á Höfn í Hornafirði þar sem hann bjó og starfaði til æviloka.

Skarphéðinn mun hafa verið töluvert músikalskur og samdi nokkuð af tónlist og reyndar ljóð einnig, hann lék eitthvað á hljóðfæri og söng jafnframt með Karlakór Hornafjarðar en kórinn mun einmitt hafa haft frumkvæði að því að gefa út nótnahefti með fimmtán kórlögum eftir hann – það mun þó vera aðeins lítið brot af því sem hann samdi. Að minnsta kosti tvö laga hans hafa komið út á plötum og nokkrir kórar hafa einnig haft lög eftir hann á söngskrá sinni.

Skarphéðinn lést árið 1950 en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvers vegna hann lést svo ungur.