Skólalúðrasveit Austur-Húnavatnssýslu (1987-2014)

Skólalúðrasveit Austur-Húnavatnssýslu

Lúðrasveit var lengi starfrækt við Tónlistarskóla Austur Húnavatnssýslu en ekki liggur fyrir hvort hún sé þar starfandi ennþá, hún var lengst af undir stjórn Skarphéðins Húnfjörð Einarssonar.

Tónlistaskólinn sem hefur þrjár starfsstöðvar, á Blönduósi, Skagaströnd og Húnavöllum, var stofnaður haustið 1971 en engar upplýsingar er að finna um hvenær skólalúðrasveit var stofnuð við hann – elstu heimildir um slíka sveit eru frá árinu 1987.

Það var svo haustið 1989 sem Skarphéðinn H. Einarsson kom til starfa við skólann og tók við skólalúðrasveitinni og upp frá því óx hún og dafnaði og við tók eins konar blómaskeið hennar. Meðlimir sveitarinnar komu líklega mestmegnis frá Blönduósi og gekk hún því oft undir heitinu Skólalúðrasveit Blönduóss en þegar meðlimum annars staðar úr sýslunni fjölgaði virðist sem Húnvetningatengingin verði ofan á.

Sveitin lék víða um land, tók þátt í landsmótum skólalúðrasveita og fór að minnsta kosti tvívegis út fyrir landsteinana til að spila, 1992 til Svíþjóðar og 2003 til Svíþjóðar og Danmerkur en síðarnefnda árið var starfrækt sameiginlega skólalúðrasveit Austur og Vestur Húnavatnssýslna og hafði þá verið um nokkurra ára skeið – sú sveit gekk yfirleitt undir nafninu Skólalúðrasveit Húnvetninga eða Skólalúðrasveit Húnavatnssýslna. Því samstarfi lauk líklega 2004 og eftir það virðist sveitin einvörðungu hafa starfað í austursýslunni.

Til stóð að sveitin myndi gefa út plötu með tónleikaupptökum frá skólaárinu 2004-05 og má fastlega gera ráð fyrir að sú útgáfa hafi litið dagsins ljós, engar upplýsingar er hins vegar að finna um þá plötu.

Skólalúðrasveit Austur-Húnavatnssýslu starfaði áfram að minnsta kosti til ársins 2014 en þá hafði mjög fækkað í henni og stóð hún höllum fæti, ekki liggur fyrir hvort hún er enn starfandi en upplýsingar þ.a.l. má gjarnan senda Glatkistunni sem og aðrar ábendingar um sveitina.

Efni á plötum