Sveitó [1] (1966-69)

Sveitó 1967

Bítlahljómsveitin Sveitó var starfrækt á Blönduósi síðari hluta sjöunda áratugar liðinnar aldar og lék þá nokkuð á dansleikjum í heimasveitinni.

Sveitó var stofnuð haustið 1966 og lét að sér kveða fljótlega á Blönduósi, lék þá t.a.m. á dansleikjum tengdum Húnavöku en einnig almennum dansleikjum. Meðlimir sveitarinnar voru þeir Baldur Valgeirsson söngvari, Gunnar Sigurðsson trommuleikari (sem titlaður var hljómsveitarstjóri), Sigurgeir Sverrisson orgel- og harmonikkuleikari, Skarphéðinn H. Einarsson gítarleikari, Jón Karl Einarsson bassaleikari og Þorlákur Þorvaldsson gítarleikari. Ekki eru heimildir um mannabreytingar í henni.

Sveitó starfaði til ársins 1969 að minnsta kosti en birtist aftur a.m.k. tvívegis löngu síðar, árið 1999 á rokksýningunni Briljantín og bítlahár sem sett var á svið af leikfélaginu á Blönduósi, og hins vegar árið 2009 – þá voru meðlimir hennar þeir Jón Karl, Skarphéðinn, Þorlákur og Baldur sem höfðu verið í eldri útgáfunni en í stað Gunnars og Sigurgeirs voru þeir Sigurður Baldursson trommuleikari og Skarphéðinn Ragnarsson (sem gæti þá hafa leikið á hljómborð).