Sniglabandið (1985-)

Sniglabandið

Saga hljómsveitarinnar Sniglabandsins er æði löng og spannar þegar þetta er ritað, hátt í fjörutíu ára nokkuð samfellda sögu þar sem léttleiki og gleði hafa löngum verið einkenni sveitarinnar en jafnframt hefur hún tekist á við alvarlegri verkefni inn á milli. Á þessum tíma hafa komið út á efnislegu formi á annan tug breiðskífna og smáskífna en einnig fjölmargar smáskífur til viðbótar á tónlistarveitum á netinu. Þá á sveitin að baki hundruði tónleika og dansleikja, útvarps- og sjónvarpsþátta auk annarra uppákoma, og virðist hvergi nærri hætt.

Sniglabandið á sér þó nokkra forsögu, Bifhjólasamtök lýðveldisins – Sniglar höfðu verið stofnaðir snemma árs 1984 og innan þess félagsskaps var fljótlega sett á laggirnar lagavalsnefnd sem hafði þann starfa að ákveða tónlistarval á samkomum samtakanna. Sú nefnd samanstóð af Skúla Gautasyni (Snigli nr. 6) og Þormari Þorkelssyni (Snigli nr. 13) en þeir félagar munu hafa fengið þá hugmynd að hagkvæmt væri að hafa hljómsveit starfandi innan Sniglanna. Áður en til þess kom kom reyndar út tveggja laga plata í nafni Sniglanna þar sem var að finna tvö lög eftir Skúla, Jólahjól og Þríhjól í flutningi hans sjálfs (með aðstoð Sigríðar Eyþórsdóttur á flautu) en hugmyndin hafði komið upp í afmæli Skúla um haustið 1984 og var hún hljóðrituð daginn eftir og mun hafa verið komin á plast örfáum vikum síðar. Eðli máli samkvæmt telst þessi plata ekki vera með Sniglabandinu en lögin tvö áttu þó síðar eftir að koma út með sveitinni í öðrum útgáfum.

Til að manna fyrirhugaða hljómsveit innan Sniglanna var auglýst eftir hljóðfæraleikurum í málgagni samtakanna Sniglafréttum og svöruðu Sigurður Kristinsson (Snigill nr. 55) og Ólafur Unnar Guðmundsson (Snigill nr. 11) kallinu, Sigurður sem trommuleikari (þótt hann væri í grunninn gítarleikari) og Ólafur sem söngvari, þá var Bjarni Bragi Kjartansson (Snigill nr. 52) skipaður bassaleikari en Skúli sem upphaflega hafði ætlað sér bassaleikinn færði sig yfir á gítar. Þá bættist í hópinn rétt fyrir fyrsta dansleikinn sem fyrirhugaður var, gítarleikarinn Ásgeir Sverrisson (hann virðist ekki hafa verið í Sniglunum). Þannig skipuð lék Sniglabandið í fyrsta sinn á Sniglaballi í félagsheimilinu í Garði en einhverjir fleiri söngvarar munu hafa stigið á svið með sveitinni þetta september kvöld 1985. Heimild hermir að Valtýr Björn Thors hafi leikið á gítar í sveitinni á upphafsmánuðum hennar en frekari upplýsingar hafa ekki fundist um það.

Þannig skipuð fór sveitin fljótlega í hljóðver þar sem lagið Margt býr í þokunni var hljóðritað með söng Skúla en Ólafur Unnar kom ekki meira við sögu sveitarinnar frekar en Ásgeir, Ólafur söng reyndar á plötunni Sniglar í söngolíu sem vikið er að síðar en sú plata var ekki Sniglabandsins. Þessi útgáfa lagsins kom reyndar ekki út á plötu fyrr en á afmælis safnplötunni Sniglabandið 1985-1995 sem kom út tíu árum síðar.

Sniglabandið 1986

Fljótlega þetta haust (1985) bættist sveitinni liðsauki, Björgvin Ploder (Snigill nr. 23) kom inn á trommur og við það færði Sigurður sig yfir á gítar, þá bættust við hljómborðsleikarinn Einar Rúnarsson (Snigill nr. 174) og svo félagi þeirra Einars og Björgvins úr Kvennaskólasveitinni Bjargvættinni Laufeyju, Stefán Hilmarsson söngvari. Sveitinni gekk ekkert allt of vel að koma sér á framfæri þessa fyrstu mánuði því margir litu leðurjakkaklædda mótorhjólamenn hornauga og tengdu þá einhverju misjöfnu en þannig var veruleikinn um miðjan níunda áratuginn, „glæpastimpillinn“ loddi við sveitina eitthvað áfram áður en þeir félagar losnuðu endanlega við hann.

Sniglabandið mun hafa komið fram á Vísnakvöldi Vísnavina á Hótel Borg í desember en mun það hafa verið í fyrsta sinn sem sveitin kom fram undir nafni og um áramótin lék sveitin svo á áramótadansleik austur á Þórshöfn á Langanesi þar sem sveitin flutti m.a. lagið Álfadans í fyrsta sinn. Þar með var sveitin farin að leika á opinberum vettvangi og á nýju ári (1986) byrjaði boltinn að rúlla þótt hægt væri í byrjun. Keyptur var bíll sem hafði áður gegnt hlutverki pylsuvagns og var honum breytt í hljómsveitarrútu, framan af ári var sveitin fremur lítið að leika en síðsumars urðu nokkrar breytingar þar á og lék sveitin t.a.m. í pásu á stóra sviði Þjóðhátíðar í Eyjum, léku svo á skemmtistaðnum Evrópu um haustið og á rokktónleikum ásamt fleiri sveitum í Laugardalshöllinni.

Um haustið 1986 sendi Sniglabandið frá sér sína fyrstu plötu, tveggja laga plötuna Fjöllin fjalla í hauga… en á henni var að finna áðurnefnt Álfadans (þjóðlagið Máninn hátt á himni skín) og frumsamið lag 750 cc blús, lögin höfðu verið hljóðrituð í Geimsteini í Keflavík en framan á umslagi plötunnar gat að líta ömmu Björgvins trommuleikara, Aðalheiði Ólafsdóttur skrýdda leðurdressi og mótorhjólahjálmi. Platan sem fór reyndar ekki hátt því lengi vel var hún ekki í almennri dreifingu, seldist ágætlega og er sjaldgæfur safngripur í dag þar sem líklega voru aðeins um 500 eintök pressuð. Hún hlaut jafnframt góðar viðtökur gagnrýnenda því hún fékk góða dóma í DV, Þjóðviljanum og Helgarpóstinum.

Sveitin hugðist keyra almennilega af stað eftir áramótin 1986-87 og jafnvel senda frá sér breiðskífu, framan af árinu 1987 spiluðu þeir eitthvað með Sverri Stormsker og kölluðu sig þá Stormsveitina en þar hófust kynni með þeim Sverri og Stefáni söngvara og um svipað leyti söng hann nokkur lög sem komu út á plötu Sverris – Örlög, og nutu þau mikilla vinsælda um sumarið og komu Stefáni á kortið. Sniglabandið hafði hins vegar nýtt tímann einnig til að hljóðrita fjögurra laga plötu í Hljóðrita sem kom út um sumarið undir titlinum Áfram veginn – með meindýr í maganum. Um þetta leyti var Sigurður gítarleikari að hætta og sæti hans tók Akureyringurinn Baldvin Ringsted, þannig skipuð fór nokkur kynningarherferð og spilamennska af stað en sveitin lék m.a. á landsmóti Snigla í Húnaveri og það átti hún eftir að gera nánast árlega næstu áratugina, einnig kom sveitin fram á Akureyri á 17. júní skemmtun en Skúli bjó þá á Akureyri og var hljómsveitin með annan fótinn þar lengi, sveitin var þarna komin á rútuna og meðlimir hennar höfðu sagt sig frá annarri vinnu til að sinna Sniglabandinu eingöngu. Lagið Gunnakaffi varð vinsælt og hjálpaði til að sýndur var hálftíma sjónvarpsþáttur með þeim félögum um sumarið, þá söng Stefán tvö af vinsælustu lögum sumarsins með Sverri Stormsker (Við erum við og Búum til betri börn) og söng þá einnig í laginu Átján rauðar rósir með Vormönnum Íslands sem naut hylli þetta sumar – það má því segja að hann hafi verið á nokkrum vígstöðvum þarna um sumarið. Sveitin var óðum að hrista af sér leðurímyndina og þótti skemmtileg á sviði og lagavalið með afbrigðum fjölbreytilegt enda reyndu þeir eins og hægt var að höfða til almennings með skemmtilegheitum og fíflaskap, sem féll í góðan jarðveg. Ekki voru þó alltaf jólin hjá hljómsveitinni og hún varð meðal sveita sem „lentu í“ Gauks-floppinu en það var útihátíð sem haldin var um verslunarmannahelgina í Þjórsárdal á vegum HSK, sveitin lék þetta sumar á stórum dansleik ásamt öðrum í Tívolíinu í Hveragerði, á 150 ára afmælishátíð Akureyrarbæjar og víðar.

Sniglabandið 1988

Áfram veginn fékk ágæta dóma í DV, Gunnakaffi naut sem fyrr segir nokkurra vinsælda og komst hæst í þriðja sæti vinsældalista Rásar 2 (á sama tíma og Stefán Hilmarsson vermdi toppsætið með lagið Við erum við), þess má svo geta að fyrsti texti Stefáns á plötu var á Áfram veginn við lagið Magnað maður magnað – það hefur ekki farið hátt af einhverjum ástæðum.

Sniglabandið tók sér smá frí um haustið og fyrir jólin 1987 birtist sveitin með lag á jólasafnplötu sem varð óvæntur stórsmellur en það varð eins konar vendipunktur í sögu sveitarinnar enda þekktu allir nafn hennar eftir það. Platan bar titilinn Jólastund eftir fyrsta laginu en það var flutt af stuðhljómsveitinni Stuðkompaníinu sem hafði sigrað Músíktilraunir vorið á undan og fylgt því eftir með góðum sveitaballarúnt um sumarið, það lag naut heilmikilla vinsælda en þó ekkert í líkingu við Sniglabandssmellinn Jólahjól sem Stefán söng auðvitað – en sjálfsagt hafa vinsældir hans um sumarið haft eitthvað um þetta að segja. Jólahjól (sem Skúli hafði sungið á tveggja laga plötunni 1984) fór strax ofarlega á vinsældalista Rásar 2 og varð á næstum árum og áratugum vinsælasta íslenska jólalagið svo mörgum þótti reyndar nóg um og á tímabili hötuðu jafnmargir það og elskuðu enda var það margspilað daglega á flestum útvarpsstöðvum næstu misserin – þ.e.a.s. í kringum jólin. Reyndar fór svo á nýrri öld að Jólahjól „hvarf“ um tíma en á síðustu árum hefur það aftur risið til vinsælda, lagið hefur yfir milljón spilanir á Spotify sem er ágætt miðað við að það fær spilun einn mánuð á ári. Þess má geta að Sniglabandið kom fram ásamt fleiri flytjendum plötunnar á útgáfutónleikum í Háskólabíói fyrir jólin en þar kom Boney M einnig fram.

Í byrjun árs 1988 var Sniglabandið í fríi í nokkrar vikur en kom aftur fram á sjónarsviðið í febrúar, Stefán stóð þá í ströngu, flutti m.a. tvö lög í undankeppni Eurovision og þegar ljóst var að hann yrði fulltrúi Íslands með framlag Sverris Stormsker, Sókrates og auk þess farinn að syngja með nýrri hljómsveit sem kenndi sig við sálartónlist og hlaut síðar nafnið Sálin hans Jóns míns, hætti hann með Sniglabandinu. Þessi nýja staða varð til þess að aðrir meðlimir sveitarinnar tóku að sér sönginn, einkum Björgvin og Skúli, í stað þess að fá nýjan söngvara í sveitina, þar með var enginn einn „frontur“ í sveitinni og þannig varð það eftirleiðis.

Sniglabandið spilaði enn ekki eins ört og sveitin ætlaði sér, smáskífurnar tvær höfðu fengið ágætar viðtökur og flestir þekktu nafn sveitarinnar en hún var þó ekki komin í fremstu röð, þeir félagar komu fram á maraþonblúshátíð á Akureyri en spiluðu svo lítið fyrr en um sumarið, á landsmóti Snigla og svo á Melgerðismelum þar sem m.a. Sálin var að spila með Stefán í fararbroddi. Síðsumars lék sveitin á stóru hestamannaballi í Reiðhöllinni í Víðidal og uppi á Skaga einnig og um svipað leyti kom þriðja smáskífa sveitarinnar út, hún bar titilinn Til hvers þarf maður konur? og hafði verið hljóðrituð af Lárusi H. Grímssyni í Stúdíó Stef, reyndar höfðu verið vandamál með pressuna á plötunni sem stöfuðu reyndar af misskilningi en platan skilaði sér að lokum til Íslands. Skífan var fjögurra laga og þar var m.a. að finna lagið Hólka polka eftir Snigilinn Gunnar Þ. Jónsson (Gunna klút) sem síðar varð vinsælla í annarri útgáfu – læv á Gauknum. Önnur lög á plötunni voru Ruggustóll, Lítrarokk og svo lagið Þríhjól sem hafði einmitt verið á tveggja laga skífunni með Jólahjóli sem Skúli hafði sent frá sér í nafni Bifhjólasamtaka lýðveldisins. Platan fékk þokkalega dóma í Pressunni en sveitin fylgdi henni ekkert eftir og spilaði lítið um haustið, hún kom þó fram á minningartónleikum um bassaleikara Fræbbblanna, Steinþór Stefánsson en hann hafði m.a. verið meðlimur í Sniglunum.

Björgvin Ploder í Sovétríkjunum

Sniglabandið var þó nokkuð á ferðinni um veturinn 1988-89 en aðallega á höfuðborgarsvæðinu og lék þá á þeim stöðum sem buðu upp á lifandi tónlist, Bíókjallaranum, Hótel Borg og Tunglinu, bjórinn kom til sögunnar í mars 1989 og þjóðlagatónlistin var þá ríkjandi á Gauki á Stöng en það átti svo eftir að breytast. Sveitin spilaði ekki mikið um sumarið, eitthvað þó í einkasamkvæmum og svo í Húnaveri um verslunarmannahelgina.

Síðsumars stóð sveitinni mikið ævintýri fyrir dyrum en Sniglabandinu bauðst þá að taka þátt í verkefni á vegum alþjóðlegra samtaka, Next stop Soviet sem gekk þá út á að fjöldi listamanna færu til Sovétríkjanna til að kynna þarlendu fólki vestræna list í alls konar mynd, þ.á.m. tónlist – þá var reyndar tiltölulega stutt í að Sovétríkin liðuðust í sundur enda var Glasnost stefna Mikhail Gorbachev þá við lýði og rýmkast hafði um ýmislegt í landinu. Landið var þó enn „lokað“ en um fimm þúsund manns frá Norðurlöndunum bauðst að fara þangað haustið 1989 í þessum erindagjörðum og þar af fimmtíu manns frá Íslandi. Sniglabandið greip tækifærið og tók þátt í ævintýrinu en ellefu manna hópur fór á vegum sveitarinnar til Sovétríkjanna í gegnum Danmörku þar sem keypt var Bens rúta, og þaðan var farið með rútuna og fimm mótorhjól til Finnlands (í gegnum Svíþjóð) og þaðan til Sovétríkjanna þar sem Sniglabandið dvaldi í um fimm vikur og spilaði líklega á um tíu tónleikum – ferðin var ekki síður merkileg fyrir það að þetta var í fyrsta sinn sem mótorhjólagengi var hleypt inn í Sovétríkin.

Sveitin hélt tónleika í Eystrasaltsríkjunum og Hvíta Rússlandi áður en haldið var til Moskvu þar sem stórir tónleikar voru haldnir en reyndar voru flestir áhorfendurnir úr hópi Next stop Soviet þar sem viðburðurinn virtist ekki vera mikið auglýstur fyrir hinn almenna Moskvubúa, tólf hundruð lögreglumenn voru hins vegar til að gæta þess að allt færi vel fram. Hópurinn kynntist þó mörgum heimamönnum á ferð sinni um landið og einn slíkur, gítarleikarinn Alexander Valentinovitch sem var sveitinni innan handar í Sovét, tók lagið með henni og kom svo til Íslands ári síðar. Sniglabandið hafði meðferðis eitthvað af kassettum (og e.t.v. vínyl og geisladiska einnig) til að dreifa eystra og einnig boli o.fl. Kvikmyndatökumaður var jafnframt með í för og hljóðmaður en auk þess þrjár stúlkur (líklega makar) sem titlaðar voru söngkonur í ferðinni. Baldvin fór ekki með sveitinni til Sovétríkjanna en Sigurður kom aftur inn í hans stað og aðrir Sniglabandsliðar í þessari minnisstæðu ferð voru Skúli, Björgvin, Einar og Bjarni Bragi. Ferð Sniglabandsins hlaut heilmikla athygli hér heima og var henni gerð heilmikil skil með ferðasögum í fjölmiðlum m.a.

USSR

Að USSR-ferðinni lokinni hætti Bjarni Bragi bassaleikari og við hans starfa tók Friðþjófur Ísfeld Sigurðsson en hann hafði verið hljóðmaður sveitarinnar í Sovét-ferðinni. Sigurður hafði tekið við gítarnum um tíma sem fyrr segir en nýr gítarleikari kom inn í Sniglabandið þegar heim var komið, það var Þorgils Björgvinsson en hann hafði þá um tíma leikið með Nýdanskri og fleiri sveitum.

Sniglabandið tók því fremur rólega eftir ævintýraferðina til Sovétríkjanna og nýir menn spiluðu sig rólega inn í bandið, reyndar lék sveitin fremur lítið fyrr en síðsumars og um haustið 1990 en þá fór hún á fullt í spilamennsku á höfuðborgarsvæðinu. Sveitin lék þá mest á stöðum eins og Tveim vinum og Fimmunni í Hafnarstræti þar sem þeir félagar hófu að spila óskalög fyrir áhorfendur við miklar vinsældir, og um svipað leyti hófst Gauks-tímabilið hjá þeim en sveitin fór oft á kostum í spilamennsku og fíflagangi á Gauki á Stöng þar sem heilu leikþættirnir voru settir á svið og haft var á orði að frekar væri um að ræða kabarettsýningar en tónleika. Stundum gleymdist að spila tónlist og svo fór jafnvel að nánast ekkert var spilað en spjall við gesti í troðfullu húsinu varð að ógleymanlegri skemmtun. Sveitin fór mikinn á Gauknum um tveggja ára skeið, 1990-92 og meðlimir hennar voru allir ófeimnir við að gera sig að fífli, allir sungu þeir jafnframt og náðu einnig góðri tengingu innbyrðis ekki síður en við fólkið í salnum.

Sumarið 1990 gaf tímaritið Samúel út svokallaða flexi-plötu með Sniglabandinu, þunna plasthimnu með eitt lag á en það var lagið Himpi gimpi gella (Honkey tonk woman), platan fylgdi tölublaði Samúels og restinni af upplaginu var síðar dreift með tímaritinu Vikunni nokkru síðar.

Um haustið 1990 hófu þeir samhliða spilamennskunni að vinna að næstu plötu en þá hafði verið ákveðið að um breiðskífu yrði að ræða, fram að þessu höfðu einvörðungu smáskífur komið út á vínylformi sem á þessum tíma var að víkja fyrir geisladisknum og plöturnar höfðu aukinheldur ekki verið beinlínis aðgengilegar í plötuverslunum heldur seldar mestmegnis í gegnum sjálfa hljómsveitina eða Sniglasamtökin. Þá voru einnig farin að birtast lesendabréf í dagblöðunum þar sem beinlínis var kvartað yfir að ekki væri hægt að nálgast tónlist sveitarinnar.

Sniglabandið 1993

Á nýju ári (1991) spilaði Sniglabandið heilmikið bæði á höfuðborgarsvæðinu og reyndar einnig í nágrannabyggðalögunum en um sumarið kom svo platan út sem unnið hafði verið að, hún hét rativfláhgosnieðitálikkeðivmuteG? sem endursegja mætti sem Getum við ekki látið eins og hálfvitar? Platan var ellefu laga og hafði mestmegnis að geyma upptökur af Gauki á Stöng frá því í febrúar þar sem sveitin fór á kostum í þekktum slögurum eins og Halló Akureyri, Ryksugulaginu og Paradísarfugli Megasar, en einnig erlendum slögurum eins og Wild thing – man og áðurnefndu Himpi gimpi gellu (önnur útgáfa en var á flexi-plötunni), sem var íslenskun á Rolling stones laginu Honkey tonk woman – reyndar hafði útgáfu plötunnar tafist töluvert vegna þess að sveitin stóð í stappi við lögfræðinga umboðsskrifstofu Rolling stones sem tók ekki í mál að sögusvið lagsins yrði heimfært yfir á Reykjavík (Brabra og Glæsibæ), að lokum varð sátt um að sögusviðið yrði New York og Memphis. Þá er einnig að finna á plötunni blöndu af jólalaginu Rudolph the red nosed reindeer og Rúdolf með hljómsveitinni Þey, auk frumsömdu laganna Tvöfaldur brennivín í kók og Hólka polka. Platan sem var fyrsta breiðskífa sveitarinnar og um leið fyrsti geisladiskurinn (og kassettan), fékk góða dóma í Degi og þokkalega bæði í Morgunblaðinu og Æskunni, umslag hennar var myndskreytt af Einari hljómborðsleikara og gáfu þeir hana sjálfir út undir útgáfumerkinu Slím/Slime records eins og allar þeirra plötur þaðan í frá.

Sniglabandið fylgdi útgáfu plötunnar eftir með mikilli spilamennsku um sumarið og haustið, og segja má að þar með hafi hafist fyrra blómaskeið sveitarinnar sem stóð næstu árin, sveitin spilaði mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu og nágrannabyggðalögum en einnig á landsmóti Sniglanna (eins og svo oft á næstu árum) sem haldið var á Skógum, þá lék sveitin um verslunarmannahelgina á AA hátíð í Húsafelli en hún átti eftir að spila á mörgum slíkum hátíðum síðar um verslunarmannahelgar, bæði þar og annars staðar. Það mun hafa verið á einhverri slíkri hátíð í Húsafelli sem sveitin flutti Hægðatregðublús sem Einar söng sitjandi á klósetti (sem þeir ferðuðust með sér vítt og breitt um landið) og lét vaða í postulínið svo rótararnir þurftu að sjá um að þrífa eftir hann – segir sagan.

Eftir áramótin 1991-92 fór Sniglabandið í nokkurra vikna pásu enda hafði sveitin farið mikinn árið á undan, frííð var þó ekki meira en það að þeir Þorgils, Einar og Björgvin (auk Sigurðar fyrrum gítarleikara sveitarinnar) starfæktu hljómsveitina Stútunga saman en þegar sú sveit hætti störfum í mars 1992 byrjaði Sniglabandið aftur, þá voru í sveitinni þeir Skúli, Björgvin, Einar, Friðþjófur og Þorgils. Fljótlega hófu þeir að vinna nýja plötu og þegar leið á vorið varð sveitin meira áberandi í spilamennskunni, í þetta sinn lá áherslan á landsbyggðinni (m.a. sveitaböllum) en höfuðborgarsvæðið hafði verið aðal vettvangur sveitarinnar fram til þessa. Sveitin lék þannig um sumarið á stöðum eins og Lyngbrekku í Borgarfirði, Vagninum á Flateyri og Suðureyri við Súgandafjörð en einnig lék sveitin töluvert á Akureyri sem fyrr er nefnt. Sveitin hafði svo sína föstu punkta í dagskránni, landsmót Snigla og AA-mótið um verslunarmannahelgina.

Sniglabandið á sviði 1994

Síðsumars bættist Sniglabandinu liðsauki, þar var á ferð hljómborðsleikarinn Pálmi J. Sigurhjartarson sem lék fyrst með sveitinni um verslunarmannahelgina og þar með hún orðin sextett. Pálma fylgdi ekki aðeins meiri fylling í hljóðfæraleiknum heldur var hann einnig lagahöfundur og á næstu árum urðu þær áherslubreytingar á sveitinni að hún einbeitti sér í auknum mæli að frumsömdu efni og þar kom hann sterkur inn – Pálma fylgdi reyndar einnig félagi hans úr hljómsveitinni Íslandsvinum – Kári Waage sem reyndist Sniglabandinu öflugur textahöfundur í framhaldinu þótt ekki væri hann meðlimur sveitarinnnar.

Sniglabandið var í samstarfi við þá Magnús og Jóhann þarna undir lok sumars og lék með þeim félögum á útgáfutónleikum dúósins og á nokkrum tónleikum á Púlsinum en einnig kom söngkonan Ruth Reginalds fram með sveitinni um haustið. Sniglabandið var vel virkt fram að áramótum 1992-93 en þá gaf sveitin út að þeir færu í góða pásu eftir áramótin til að vinna næstu plötu. Pásan var þó ekki löng því sveitin var komin af stað á tónleikasviðið strax í byrjun febrúar 1993, spilaði reyndar ekki mikið og mest á heimavelli – Gauknum.

Þeir félagar höfðu hljóðritað tíu lög í upptökutörninni og að þessu sinni var einvörðungu um frumsamið efni að ræða og því heilmikla áherslubreytingu en með því hafði sveitin tekið skref í átt að hefðbundnu poppi, þarna reyndi nokkuð á að lagasmíðarnar stæðu undir sér þegar grínið væri ekki í aðal hlutverki en vinsældir Sniglabandsins höfðu að miklu leyti fengist með gríninu, platan var jafnframt tímamótaplata hjá sveitinni að því leyti að þetta var fyrsta hljóðvers breiðskífa hennar. Sveitin gat reyndar ekki leyft sér að sleppa léttleikanum alveg og sumir textanna voru í léttari kantinum.

Platan (og kassettan) kom út um snemmsumars undir titlinum Þetta stóra svarta og hófst á framlagi Lögreglukórs Reykjavíkur sem söng lagið Brennivín er bull, í kjölfarið fylgdu níu önnur lög sem mörg hver áttu eftir að ná töluverðum vinsældum. Það hjálpaði án nokkurs vafa að Sniglabandið hélt í tónleikaferð á sama tíma og platan kom út, og lék á tuttugu tónleikum á tuttugu og tveimur dögum á landsbyggðinni. Í beinu framhaldi af því hófst sumartúr sveitarinnar svo hún fór mikinn næstu mánuðina, spilaði allar helgar.

Fyrsta lagið til að ná vinsældum var Á nálum og í kjölfarið fylgdu Í góðu skapi (sem fjallaði um Sovét-túrinn 1989), Geðræn sveifla, Gooott!!! og svo stórsmellurinn Éttu úldinn hund eftir Pálma (og Kára Waage), sem var gamalt lag úr ranni borgfisku sveitarinnar Chaplin og hafði verið leikið á tónleikum og dansleikjum þeirrar sveitar um fimmtán árum fyrr – það hafði þó ekki komið út á plötu fyrr en þarna og er nú löngu orðið sígilt í meðferð Sniglabandsins. Þetta stóra svarta þótti skarta margs konar stílum og fékk góða dóma í Degi og Vikunni og þokkalega einnig í Pressunni og DV.

Um þetta leyti kom lag út með sveitinni sem ekki hefur komið út annars staðar og var eins konar afgangsupptaka af Gauknum frá því í febrúar, þetta var lag sem bar heitið Hugleiðing um atvinnuástand og var afbökun og grínútgáfa af lagi Lúdós og Stefáns frá 1976, Gullið á Raufarhöfn – það var á safnplötunni Landvættarokk og var reyndar þar töluvert á skjön við önnur lög og flytjendur sem öll voru hljóðversupptökur frá landsbyggðarhljómsveitum.

Heimild hermir að Sniglabandið hafi farið til Danmerkur til að leika fyrir mótorhjólafólk þar í landi síðla sumars 1993 samhliða giggum hér heima, og hafi þetta allt ekki þótt nóg eitt og sér þá bættist við spilamennska á útvarpsstöðinni Aðalstöðinni síðla árs þar sem sveitin lék óskalög fyrir hlustendur við miklar vinsældir – það ævintýri hófst þegar Sniglabandið mætti í viðtal með hljóðfæri sín í útvarpsþáttinn Górilluna sem þeir Davíð Þór Jónsson og Jakob Bjarnar Grétarsson stjórnuðu en þá var hlustandi tekinn inn sem bað um óskalag, þetta fyrirkomulag átti eftir að vinda upp á sig síðar.

Sniglabandið og Borgardætur

Þegar allt er talið spilaði Sniglabandið líkast til á annað hundrað sinnum opinberlega þetta árið, auk þess að hljóðrita plötu – og Skúli var búsettur fyrir norðan. Þá komu flestir meðlimir sveitarinnar að upptökum sem Sniglarnir, Bifhjólasamtök lýðveldisins stóðu fyrir á skemmtistaðnum Bóhem um þennan vetur en tilefnið var tíu ára afmæli samtakanna og kom afraksturinn út á plötu árið 1994 undir titlinum Sniglar í söngolíu, í 1000 tölusettum eintökum. Á þeirri plötu söng Ómar Ragnarsson eitt lag en Sniglabandið kom jafnframt við sögu á jólaplötunni Ómar finnur Gáttaþef sem Ómar sendi frá sér fyrir jólin 1993, þar flutti sveitin eitt lag undir nafninu Björgvin Ploder og hjólasveinarnir.

Á nýju ári 1994 tók Sniglabandið því fremur rólega framan af og spilaði líklega ekki á sviði fyrr en um miðjan febrúar, sveitin hélt áfram að leika óskalög á Aðalstöðinni en allur gangur var á hvort Skúli kom fram með þeim – þegar sveitin spilaði án hans á skemmtistöðum borgarinnar kölluðu þeir sig Hress en Skúli kom svo meira inn þegar leið að vori og landsbyggðin kallaði á spilamennsku. Þess má geta að síðla vetrar lék sveitin fyrir eldri borgara á Grund en en þangað hafði þá líklega engin popphljómsveit stigið fæti síðan Hljómar gerðu það 1965, sú uppákoma mæltist vel fyrir en ekki liggur fyrir hvort sveitin lækkaði vel í græjunum til að styggja ekki gamla fólkið eða hvort hún hækkaði í græjunum svo gamla fólkið gæti heyrt í þeim.

Sniglabandið spilaði mikið þetta sumar, þeir félagar lentu reyndar í bassaleikaravandræðum (sem loddi við þá næstu árin) því Friðþjófur hætti í sveitinni og sinnti Skúli líklega bassaleikarahlutverkinu að hluta til sem og Þorgils en einnig léku á bassa með sveitinni Jón S. Ingólfsson, Þórður Högnason og líklega einnig Haraldur Þorsteinsson eitthvað þetta sumar.

Sumarsins 1994 verður líklega helst minnst fyrir samstarf Sniglabandsins og Borgardætra en Borgardætur höfðu slegið í gegn árið á undan með söng í anda Andrews systra og gefið út plötu fyrir jólin sem naut mikilla vinsælda. Þegar leið hópanna lá saman snemma sumars á Gauki á Stöng kom upp sú hugmynd að þeir myndu túra saman um sumarið og úr varð að Sniglabandið og Borgardætur sendu frá sér lagið Aprikósusalsa (og Sveifla og galsi, með Sniglabandinu einu) sem kom út á safnplötunni Já takk, um sumarið. Lagið varð feikivinsælt og fólk streymdi á tónleika og dansleiki þessa fulltrúa ólíkra tónlistarstefna sem sveitin og söngtríóið stóðu óneitanlega fyrir en allt small saman í fullsetinni og þröngri hljómsveitarrútunni (sem á þessum tíma bar nafnið Laugan) og reyndar svo að úr varð samband og síðar hjónaband Einars hljómborðsleikara og Andreu Gylfadóttur. Þetta sumar hafði sveitin jafnframt fært sig af Aðalstöðinni yfir á Rás 2 og sinnti þar óskalagaþörf hlustenda á milli þess sem þeir sprelluðu fyrir landslýðinn og þar með fékk öll þjóðin að njóta sveitarinnar í útvarpinu en ekki einvörðungu þeir sem náðu útsendingum sendanna á suðvesturhorninu. Um verslunarmannahelgina lék sveitin (og Borgardætur) aldrei þessu vant ekki á bindindishátíð heldur í Valaskjálf á Egilsstöðum og Sævangi við Hólmavík og að þeirri helgi lokinni fór Sniglabandið í stutt frí.

Sniglabandið árið 1997

Sveitin færði sig meira inn á skemmtistaði borgarinnar um haustið og fór á kostum sem endranær með áhorfendum, meðal þess sem þeir buðu þá upp á var dúettinn The Toys sem var auðvitað afbökun á The Boys, ungum Íslendingum sem höfðu gert það gott í Noregi en The Toys voru tveir Samar sem komu til Íslands til að láta skíra sig. Ekki voru þó allir sáttir við þetta grín, einhverjum þótti ekki við hæfi að gera grín að ungum drengjum en menn höfðu svosem amast einnig við hljómsveitarnöfnin KFUM & the andskotans (með Einar og Sigurð Kristinsson innanborðs) og BP og þegiðu Ingibjörg (með Friðþjóf, Einar og Björgvin), sem báðar voru eins konar hliðarverkefni Sniglabandsins, og fyrst þær sveitir eru nefndar er við hæfi að nefna fleiri hliðarhljómsveitir og grínafsprengi Sniglabandsins – áður hafa verið nefndar Stútungar og Hress en til viðbótar má nefna Júdó & Stefán (1993), Panik og Einar (1993), Sjarmör (Einar, Þorgils og Pálmi – 1993-94), Blóðmör (Þorgils og Einar – 1993) og Rjúpan (Skúli og Diddi – 1996-97). Þá var Þorgils einnig í Hljómsveit Jóns Leifssonar sem sprellaði oft á Gauknum en sú sveit tengist Sniglabandinu ekki.

Eftir frí að loknum jólum og áramótum fór Sniglabandið aftur á stjá í febrúar 1995 en þó ekki með neinum látum, sveitin sem þá var án Skúla sem vildi einbeita sér að leiklistarferli sínum, vann þá að næstu plötu og kom sterkari inn á ballmarkaðinn um vorið um leið og þeir félagar sendu frá sér lagið Hí á þig í útvarpsspilun. Lagið mun hafa verið samið til heiðurs Stuðmönnum og minnir reyndar óneitanlega að uppbyggingu og flestu leyti á Leysum vind með þeirri sveit. Hí á þig varð töluvert vinælt og í júlí kom platan út, ellefu laga breiðskífa undir nafninu Gull á móti sól en hún var um margt lík plötunni á undan, Þetta stóra svarta. Friðþjófur lék á bassa á plötunni en kom ekki við sögu á balltúrnum um sumarið heldur gekk Jakob Smári Magnússon (SSSól o.m.fl.) til liðs við sveitina og lék með henni, þá komu við sögu nokkrir gestir á plötunni, þær Andrea og Berglind Björk úr Borgardætrum, KK (Kristján Kristjánsson) og dúettinn Pomp & Prakt sem samanstóð af þeim Kára Waage og Alberti Ásgeirssyni, þá léku jafnframt nokkrir aukahljóðfæraleikarar á henni. Sniglabandið var ekki alveg eins áberandi þetta sumar á böllunum og árið á undan þótt hún væri þarna með vinsælustu sveitum landsins en samhliða ballspilamennsku var hún aftur með óskalagaþátt sinn um sumarið, hann bar þá nafnið Í góðu skapi. Gull á móti sól fékk ágæta dóma í DV og fleiri lög urðu vinsæl af plötunni s.s. Balsam stúlkan, Fljúgandi og Þú getur ekkert.

Eftir verslunamannahelgina (þar sem Sniglabandið lék á dansleikjum í Sævangi á Ströndum) lék sveitin áfram á dansleikjum og einnig á afmælishátíð DV í Perlunni en ekki gengu hlutirnir alltaf smurt fyrir sig því síðsumar lentu þeir félagar í því að vera tvíbókaðir og urðu því að aflýsa dansleik í Vestmannaeyjum við nokkra óánægju Eyjamanna, það risti þó ekki dýpra en svo að ári síðar spiluðu þeir á þjóðhátíð.

Sniglabandið

Um haustið hélt Sniglabandið svo veglega afmælistónleika í Borgarleikhúsinu en sveitin fagnaði þá tíu ára afmæli, í tilefni af því komu nokkrir fyrri meðlimir bandsins við sögu og má þar nefna Stefán Hilmarsson, Bjarna Braga og Skúla. Í tilefni af afmælinu sendi sveitin jafnframt frá sér tvöfalda safnplötu, Sniglabandið 1985-1995 – á henni er m.a. að finna nokkur lög frá upphafsárum sveitarinnar, sem ekki höfðu áður komið út á geisladiskum og höfðu því verið ófáanleg um árabil en að mestu leyti var um hefðbundna safnútgáfu að ræða en með einu nýju lagi, Læknirinn og ég.

Árið 1996 byrjaði eins og mörg áranna á undan með því að Sniglabandið lét lítið fara fyrir sér fyrstu vikurnar en að öðru leyti var árið tiltölulega hefðbundið, kannski bar helst til tíðinda að sjálfur Ragnar Bjarnason tók lagið með bandinu á dansleik í Úthlíð í Biskupstungunum.

Sveitin sendi frá sér plötu um sumarið sem var meira í anda fyrri platna hennar en plöturnar tvær sem komu út 1993 og 1995, þ.e. meiri léttleiki og grín. Hún var tekin upp af Tómasi M. Tómarssyni í Stöðinni og á henni var að heyra nýja útgáfu af laginu Eyjólfur sem Guðmundur Jónsson óperusöngvari hafði gert vinsælt undir lok sjöunda áratugarins en hlaut reyndar nafnið Eyjólfur hressist í meðförum Sniglabandsins, og var þá sem titillag samnefnt plötunni. Einnig var að finna á plötunni grínsketsa undir nafninu Partýstofa Íslands, samansafn leikinna brandara úr safni sveitarinnar. Fremur lítið fór fyrir þessari plötu en hún tók þó svolítinn kipp í sölu eftir verslunarmannahelgina því á henni var þjóðhátíðarlag Sniglabandsins, Saman á ný en sveitin átti þann heiður að semja lag fyrir Þjóðhátíð Vestmannaeyinga og hafði hún verið aðal hljómsveitin á „litla pallinum“ í Eyjum um verslunarmannahelgina. Vestmanneyingar voru þá greinilega búnir að taka sveitina í sátt eftir tvíbókunarklúðrið og ekki síst eftir að sveitin lék töluvert lengur en umsaminn spilatími kvað á um. Eiður Arnarsson (Todmobile, Stjórnin o.fl.) lék á bassa með sveitinni þetta sumar og kom jafnframt við sögu á plötunni.

Um haustið og veturinn fór fremur lítið fyrir Sniglabandinu, sveitin birtist í febrúar 1997 og spilaði þá eitthvað með enn einn bassaleikarann, Tómas M. Tómasson Stuðmann en svo lagðist hún aftur í híði áður en keyrt var í hefðbundna sveitaballakeyrslu um sumarið með Tómas innbyrðis, þar sem þeir léku m.a. á landsmóti Snigla og í Valaskjálf um verslunarmannahelgina með venjubundnum hætti. Þess má geta að Sniglabandið var þarna um sumarið komin með eigin heimasíðu og var þannig meðal þeirra fyrstu sem nýtti sér þann miðil.

Um haustið tók sveitin að sér verkefni tengt leikhúsinu en þá léku þeir félagar undir í sýningum á söngleiknum Prinsessunni (e. Stefán Sigurðsson) sem sett var á svið á Hótel Íslandi og gekk í nokkur skipti en á eftir sýningu var blásið til dansleiks þar sem sveitin lék einnig, Pálmi var tónlistarstjóri í þeirri sýningu. Ráðgert var að plata með þrettán lögum úr henni kæmi út á plötu – blöndu þekktra laga ásamt tveimur frumsömdum lögum Pálma, svo virðist sem platan hafi verið tilbúin til útgáfu en af einhverjum ástæðum kom hún aldrei út. Einar hljómborðsleikari var jafnframt meðal leikenda í sýningunni og þess má geta að þar var einnig ungur söngvari, Kristófer Jensson sem síðar átti eftir að syngja með hljómsveitum eins og Light on the highways o.fl.

Seint um haustið 1997 kom enn ein afurðin frá sveitinni, platan Ágúst kemur klukkan tvö en þar var um eins konar konsept plötu að ræða, um ævintýri og örlög íslenskrar hljómsveitar yfir helgi og í bæklingi plötunnar var að finna frásögn um hvert laga hennar. Flest lög plötunnar voru eftir Pálma og textirnir eftir Kára Waage. Sveitin fylgdi plötunni lítt sem ekkert eftir og var í góðu fríi yfir jól og áramót eins og áður.

Fyrir framan rútuna

Nú tók við nokkurra ára skeið þar sem minna fór fyrir Sniglabandinu og á stundum leið nokkur tími milli þess sem eitthvað heyrðist frá sveitinni. Árið 1998 kom hún fram á sjónarsviðið í febrúar eins og venjulega en í framhaldinu spiluðu þeir lítið og svo ekkert um sumarið. Síðsumars var hljómsveitarrútan (Laugan) auglýst til sölu og þar með var ljóst að sveitin væri annað hvort hætt störfum eða í langri pásu. Bandið kom þó saman til að skemmta landsmönnum í óskalagaþætti sínum sem settur var á dagskrá í desember til að fagna fimmtán ára afmæli Rásar 2, sveitin spilaði reyndar ekki meira um það leyti en hliðarsveitin BP og þegiðu Ingibjörg var þeim mun virkari á þeim tíma.

Haustið 2000 stigu þeir Sniglabandsliðar á svið Gauks á Stöng eftir langt hlé og svo aftur í upphafi árs 2001 en þá voru í sveitinni þeir Skúli söngvari og gítarleikari, Friðþjófur bassaleikari, Einar hljómborðsleikari, Björgvin trymbill og söngvari og Þorgils gítarleikari en sá síðast taldi hafði þá verið við nám í Danmörku sem skýrir að einhverju leyti hvers vegna sveitin hafði ekki verið starfandi. Þegar sveitin spilaði næst (í mars) var hún sögð vera blanda af Sniglabandinu, Stuðmönnum og Borgardætrum – ekki liggur þó fyrir hverjir skipuðu hana þá en líklega var um að ræða sömu sveit og kallaðist um það leyti Snillingarnir, hana skipuðu Pálmi, Einar og Rúnar úr Sniglabandinu, Þórður og Tómas úr Stuðmönnum og Berglind Björk úr Borgardætrum.

Enn leið nokkur tími án þess að nokkuð spyrðist til Sniglabandsins og næst virðist hún hafa leikið á Síldarævintýrinu á Siglufirði um verslunarmannahelgina 2002 og nokkrum vikum síðar um haustið lék hún á tveimur dansleikjum á Kaffi Reykjavík – tekið skal fram að sveitin gæti hafa leikið á fleiri samkomum um þær mundir en hún var þarna skipuð þeim Pálma, Björgvini, Þorgils, Friðþjófi og Einari auk þess sem Berglind Björk Jónasdóttur (úr Borgardætrum) söng með þeim. Í framhaldinu kom sveitin eitthvað fram í óskalagaþáttum sínum á Rás 2 um veturinn. Enn minnti Sniglabandið á sig stöku sinnum en óreglulega og virðist einna helst hafa komið fram á stærri samkomum – þannig spilaði hún á Esso mótinu á Akureyri og Töðugjaldahátíðinni á Hellu sumarið 2003 auk þess að leika á Rás 2 en einnig hélt sveitin ásamt fleirum styrktartónleika fyrir hljómsveitarrútuna Lauguna á Nasa við Austurvöll um haustið en það benti eindregið til þess að sveitin hefði í hyggju að blása til sóknar aftur en Gleðisveit Ingólfs hafði þá haft Lauguna um tíma.

Sniglabandið 2004

Eitthvað var Sniglabandið að reyna að rífa sig í gang en hér má auðvitað ekki gleyma að landslagið hafði heilmikið breyst síðan fyrir aldamót, sveitaböllin voru nú orðin örfá og dansleikir meira og minna komnir inn á pöbbana þar sem hljómsveitirnar börðust um bestu bitana, sveitin lék þó á hestamannadansleik í Vík um sumarið 2004 og fáeinum öðrum böllum en voru einnig á Rás 2 það sumarið sem hentaði sveitinni vel. Þá höfðu þeir félagar þróað óskalagahugmyndina nokkuð t.d. með því að gefa síðasta viðmælanda hvers þáttar færi á að koma með hugmynd að lagi sem sveitin myndi semja og flytja í næsta þætti á eftir, þarna var Sniglabandið orðið „fullskipað“ á nýjan leik sem sextett með þá Þorgils, Skúla, Björgvin, Pálma, Einar og Friðþjóf. Sveitin lék eitthvað á dansleikjum sumrin 2004, 05 og 06 en var þó mest áberandi í útvarpinu, sveitin sendi sumarið 2005 frá sér eitt nýtt lag, Eydís á safnplötunni Svona er sumarið 2005 og naut það nokkurra vinsælda og með því minnti Sniglabandið svolítið á sig.

Segja má að Sniglabandið sé að nokkru leyti spunasveit og eins og nefnt er hér framar voru tónleikar sveitarinnar á Gauknum og víðar líkastir kabarettsýningum, þá höfðu þeir einnig tekið þátt í Prinsessu-sýningunni á Hótel Íslandi og sumarið 2006 sáu þeir um tónlistina í leikritinu Viltu finna milljón? sem fært var á fjalirnar í Borgarleikhúsinu. Útvarpsþættirnir báru einnig keim af spunaleik og tónleikar sveitarinnar hér eftir mætti alveg líkja við leiksýningar, þannig að skilin milli tónleika og leikhúss voru ekki alltaf skörp hjá henni.

Sumarið 2004 hafði verið gefið út að plata með úrvali efnis úr útvarpsþáttunum væri í bígerð en hún kom svo reyndar ekki út fyrr en tveimur árum síðar (2006) undir titlinum RÚVtops, og var þá tvöföld. Fyrri platan innihélt fyrrnefnd lög úr þáttunum sem samin voru sérstaklega eftir hugmyndum þeirra sem hringdu inn en seinni platan hafði að geyma brot af því besta úr þáttunum. Hún hlaut fremur slaka dóma gagnrýnenda Morgunblaðsins og Fréttablaðsins (einkum síðari platan) enda erfitt að fanga stemminguna úr beinni útsendingu í útvarpi og skila henni af sér á geisladisk, en platan sem seldist ágætlega er óneitanlega góð heimild um þættina. Plötunni var fylgt eftir með útgáfutónleikum í Borgarleikhúsinu sem um leið var eins konar leiksýning. Þetta sama ár (2006) sendi sveitin frá sér nýtt lag, Kæri Jón sem varð nokkuð vinsælt en það var samið á methraða fáeinum mínútum fyrir Kastljósþátt í Sjónvarpinu – og flutt í þættinum.

Við tökur í Danmörku

Sniglabandið hélt áfram að vinna með svipuðum hætti, samhliða útvarpsþáttum sínum hófu þeir að vinna ný frumsamin lög úr þáttunum sumarið 2006 til útgáfu og þau komu svo út um haustið 2007 undir plötutitlinum Vestur en platan hafði þá verið hljóðrituð í Danmörku um sumarið. Hugmyndin var sú að plöturnar yrðu jafnvel fjórar með vísan í höfuðáttirnar fjórar en af því varð þó ekki. Lagið Selfoss er hafði notið mikilla vinsælda um sumarið en í því má finna margs konar skírskotanir til Selfoss í nútíð og fortíð, og um haustið sló lagið um Britney í gegn en það fjallaði um söngkonuna Britney Spears. Upphaflega höfðu þeir sungið það sjálfir í upptökunum í Danmörku en fannst það passa illa við lagið svo þeir fengu stúlkurnar í Nylon flokknum til að syngja það aftur sem varð til þess að lagið varð feikivinsælt og komst í þriðju viku á topp Lagalistans sem byggður var á upplýsingum frá Rás 2, Bylgjunni, FM957, X-inu og Tónlist.is – lagið varð síðan í áttunda sæti yfir mest spiluðu lögin á Rás 2 árið 2007 þótt það kæmi ekki út fyrr en um haustið. Vestur fékk ágæta dóma í Fréttablaðinu og þokkalega í Morgunblaðinu.

Útgáfu plötunnar Vestur var fylgt eftir með tónleikum í Borgarleikhúsinu eins og árið á undan en Sniglabandið hafði jafnframt verið tiltölulega dugleg að spila sumarið á undan, var t.d. hluti af tónlistardagskrá Reykjavíkur-borgar á 17. júní og lék á Gauki á Stöng, Græna hattinum á Akureyri um verslunarmannahelgina og svo á Ljósanótt í Keflavík síðsumars og aftur á Græna hattinum ásamt stórskotaliði blásara og söngvara. Þáttur þeirra á Rás 2 var auðvitað einnig á dagskránni um sumarið og var sendur út frá Thorvaldsens með áhorfendum. Ráðgert hafði verið að dvd-diskur kæmi út samhliða Vestur, sem hefði að geyma upptöku frá útgáfutónleikunum í Borgarleikhúsinu (2006) en af því varð ekki að sinni, tónleikarnir voru hins vegar sýndir í Ríkissjónvarpinu 2008 (en komu að lokum út á dvd árið 2010).

Árið 2008 var með svipuðu sniði og árin á undan nema nú hafði útvarpsþátturinn verið lagður til hliðar. Sveitin lék á fáeinum dansleikjum og tónleikum en voru mestmegnis að spila í einkasamkvæmum eins og árshátíðum og slíku. Um sumarið kom út lag með Sniglabandinu (Plógstúlkan) á safnplötunni Pottþétt 47 og fyrir jólin sendu þeir félagar frá sér jólalagið Jól, meiri jól sem varð nokkuð vinælt en í því var leitað í söngstíl Gylfa Ægissonar.

Það sama má segja um árið 2009 að hafi verið svipað, stöku dansleikir og jafnvel aðeins meira en það, en sveitin lék þá t.d. á sveitaballi í Hlégarði, mest spiluðu þeir þó í þéttbýlinu. Um sumarið sendi Sniglabandið lag í Sjómannalaga-keppni Rásar 2 með söngvarann Skapta Ólafsson í fararbroddi en lagið, Sófasjómaðurinn bar sigur úr býtum í keppninni. Um haustið réðist sveitin í gerð jólaplötu eftir velgengni jólalagsins árið á undan og kom sú plata út fyrir jólin undir yfirskriftinni Jól, meiri jól eftir fyrrgreindu lagi en á henni var jafnframt að finna framhald af því – Jól, meiri jól (annar hluti). Á plötunni voru ellefu jólalög og meðal þeirra var að finna endurhljóðblandaða útgáfu af Jólahjóli sem Stefán Hilmarsson hafði sungið með þeim rúmlega tuttugu árum fyrr. Sexmenningarnir komu allir við gerð plötunnar og höfðu sér til fulltingis nokkra gesti.

Árið 2010 var tímamótaár í sögu sveitarinnar en hún fagnaði þá 25 ára afmæli sem haldið var upp á með tónleikum í Borgarleikhúsinu þar sem fjöldi gesta komu við sögu s.s. Gospelkór Reykjavíkur, Lögreglukór Reykjavíkur og fleiri en einnig voru minni afmælistónleikar haldnir á Græna hattinum á Akureyri. Af því tilefni kom einnig út um haustið þrefaldur safnpakki með bandinu, Sniglabandið 25: 1985-2010 en um var að ræða tvöfaldan geisladisk plús dvd disk sem innihélt upptökur frá afmælistónleikunum í Borgarleikhúsinu en einnig frá tónleikunum 2006 auk efnis úr fórum Ríkissjónvarpsins frá ýmsum tímum. Safnplöturnar tvær höfðu að geyma annars vegar hefðbundið safn laga frá ýmsum tímum en einnig upptökur úr Borgarleikhúsinu og úr útvarpsþáttunum margumtöluðu. Sveitin spilaði talsvert á tónleikum og dansleikjum á 25 ára afmælisárinu s.s. á Menningarnótt í Reykjavík og víðar.

Sniglabandið í Hörpu 2015

Nokkuð dró úr spilamennsku hjá Sniglabandinu næstu árin eftir afmælisárið 2010, sveitin var þó aldrei það lengi í pásu að menn afskrifuðu hana og hún minnti reglulega á sig annars vegar á dansleikum á stöðum eins og Spot í Kópavogi og slíkum stöðum sem mestmegnis höfðu tekið við keflinu af sveitaböllunum og minni pöbbunum, og hins vegar þegar þeir tóku stærri verkefni að sér eins og á Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páska, Gærunni á Sauðárkróki, Edrú-hátíð SÁÁ á Laugalandi og Mýrarboltanum á Ísafirði um verslunarmannahelgar, goslokahátíð í Eyjum og landsmót hestamanna á Hellu – þá má ekki gleyma landsmóti Snigla. Þá lék sveitin á tónleikum í Gamla bíói, Borgarleikhúsinu og Hofi á Akureyri – þá jafnvel ásamt öðrum t.d. Vocal Project kórnum, Magnúsi Þór Sigmundssyni o.fl. Eitthvað var sveitin einnig áfram með þætti á Rás 2 en í miklu minni mæli en áður.

Árið 2015 var enn og aftur komið að afmælisári, Sniglabandið fagnaði þá þrjátíu ára afmæli og að þessu sinni voru tónleikar haldnir í Hörpu. Plata kom líka út á því ári en hún hafði m.a. verið hljóðrituð á Núpi í Dýrafirði þar sem sveitin dvaldist um tíma við upptökur – Platan sem hlaut titilinn Íslenskar sálarrannsóknir hafði að geyma íslensk lög frá ýmsum tímum sem allir þekkja en í gjörbreyttum útsetningum Sniglabandsins sem hikaði ekki við að gera hvaðeina sem þeim hugkvæmdist með góðfúslegu leyfi höfundanna auðvitað, þessar nýju útgáfur laganna voru engan veginn í samræmi við fyrri grínútgáfur ábreiðulaga sveitarinnar heldur gáfu þeir sér góðan tíma við lögin og sneru þeim fram og aftur áður en þeir urðu ánægðir. Á Íslenskum sálarrannsóknum má finna útgáfur af lögum eins og Betri bílar (sem Rúnar Júl hafði gert ódauðlegt) en það lag var nú sungið af Þú og ég, Ég er kominn heim (Er völlur grær) sungið af Bergi Þór Ingólfssyni, Todmobile lagið Stúlkan sungið af Stefáni Jónssyni úr Lúdó & Stefáni og fleiri lög sem ýmist voru sungin af gestasöngvurum eða þeim sjálfum. Eyjalagið Glóðir (Villtir strengir) naut nokkura vinsælda sem og lagið Ég er að tala um þig (áður sungið af Björgvini Halldórssyni).

Á allra síðustu árum hefur Sniglabandið mestmegnis tekið að sér vel valin verkefni í stærri kantinum s.s. spilamennsku á bæjarhátiðum eins og Heima-hátíðinni í Hafnarfirði, fjölskylduhátíðinni Gaman saman í Kjós, Reykhóladögum og Blús milli fjalls og fjöru (á Patreksfirði) í stað smærri staða, sveitin hefur þó stöku sinnum poppað upp á stöðum eins og Græna hattinum. Þá hefur sveitin leikið á fáeinum tónleikum síðustu árin, m.a. í Bæjarbíói í Hafnarfirði árið 2018 (sem tileinkaðir voru The Band) og í Gamla bíói þegar sveitin fagnaði 35 ára afmæli árið 2020 en þeir voru í talsvert minni sniðum en reikna hefði mátt með vegna Covid-heimsfaraldursins. Á meðan þeim faraldi stóð tók sveitin eitthvað upp á því að skemmta í gegnum samfélagsmiðla á borð við Zoom.

Síðasta áratuginn hafa nokkrar smáskífur verið gefnar út af Sniglabandinu, sveitin hefur þá nýtt sér tónlistarveitur í því skyni og frá árinu 2010 hefur um tugur slíkra smáskífna litið dagsins ljós, sem ekki hafa komið út á efnislegu formi.

Tónlist Sniglabandsins hefur því komið út á fjölda breið- og smáskífna í gegnum tíðina en jafnframt hafa lög sveitarinnar komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina, lang fyrirferðamest í því samhengi er auðvitað slagarinn um Jólahjólið en það lag hefur líklega komið út á hátt í tuttugu safnplötum.

Efni á plötum