Rjúpan (1996-97)

Rjúpan2

Rjúpan

Rjúpan var fremur skammlíft tríó ættað frá Akureyri, og skipað þekktum tónlistarmönnum. Sveitin starfaði líklega í tæplega ár en náði að gefa út eina plötu.

Skúli Gautason söngvari og gítarleikari (Sniglabandið o.fl.), Friðþjófur Sigurðsson söngvari og bassaleikari (Sniglabandið) og Karl O. Olgeirsson söngvari og harmonikkuleikari (Milljónamæringarnir, Svartur pipar o.fl.) skipuðu tríóið sem var stofnuð snemma vors 1996 upp úr frumsýningarpartíi tengdu Leikfélagi Akureyrar þar sem þeir störfuðu saman.

Tríóið lék strax mikið opinberlega um vorið og sumarið og vakti athygli fyrir skemmtilega sviðsframkomu en tónlist Rjúpunnar gekk nokkuð út á grín.

Svo fór að plata var tekin upp á tvennum tónleikum sveitarinnar í heimabænum um vorið, og gefin út um haustið. Kristján Edelstein annaðist upptökuþáttinn á plötunni sem hlaut nafnið Konungur háuloftanna.

Litlar sögur fara um viðtökur Konungs háuloftanna nema að gagnrýnandi DV var ekki hrifinn, fannst grínið koma illa til skila. Hvort sem því var um að kenna eða að sveitinni hafði aldrei verið ætlaður langur líftími skal ekki segja en í kjölfarið fór minna fyrir henni og eftir áramót 1996-97 virðist sveitin hafa spilað mjög lítið svo sennilegt er að hún hafði lognast útaf á vormánuðum 1997.

Meðlimir sveitarinnar hafa hins vegar víða skotið upp kollinum í tónlistarlífinu að Rjúpuævintýrinu loknu.

Efni á plötum