Afmælisbörn 22. júní 2022

Guðrún Gunnarsdóttir

Sex afmælisbörn úr tónlistargeiranum koma við sögu í dag:

Eva Mjöll Ingólfsdóttir fiðluleikari á stórafmæli í dag en hún er sextug. Hún er af miklum tónlistarættum, nam fiðluleik hér heima á Íslandi áður en hún hélt til Belgíu, Sviss og Hollands til framhaldsnáms, hún menntaði sig einnig í Bandaríkjunum í tónsmíðum og hljómsveitastjórnun. Tvær plötur hafa komið út með fiðluleika Evu, 1995 og 1998 en einnig hefur hún leikið á plötum Pólýfónkórsins t.a.m. Eva bjó um tíma í Japan en hefur búið í Bandaríkjunum að mestu hin síðustu ár.

Guðrún (Ólöf) Gunnarsdóttir söng- og útvarpskona er fimmtíu og níu ára. Guðrún hóf sinn söngferil með MK kvartettnum á menntakólaárunum fyrir og um miðjan níunda áratug síðustu aldar, og stuttu síðar með hljómsveitinni Svefngölsum sem gaf út plötu 1986. Fljótlega fór að bera á henni við ýmis söngverkefni og undankeppni Eurovision, síðar Landslagskeppnin og Sæluvikukeppnin urðu hennar vettvangur sem og gestasöngur á plötum annarra s.s. Geirmundar Valtýssonar o.fl. Guðrún hefur gefið út nokkrar sólóplötur og nokkrar einnig með Friðriki Ómari Hjörleifssyni, sungið með Snörunum og á fjölmörgum plötum annarra listamanna.

Gunnlaugur Hjörtur Gunnlaugsson gítarleikari og framkvæmdastjóri er fjörutíu og sjö ára gamall á þessum degi. Hjörtur hefur leikið með fjölmörgum hljómsveitum bæði þekktum og óþekktum og má meðal annarra nefna sveitir eins og Spoon, Mír, Low/Mid/High.

Egill Sæbjörnsson mynd- og tónlistarmaður er fjörutíu og níu ára í dag. Hann hefur gefið út nokkrar plötur en platan Tonk of the lawn frá árinu 2000 vakti mesta athygli, hún innihélt lagið I love you so sem varð nokkuð vinsælt. Egill hefur einnig komið fram undir aukasjálfunum Eagle og Muddy fog, og var í hljómsveitinni Síld, ást og ávextir á sínum uppvaxtarárum.

Breski tónlistarmaðurinn Bobby Harrison sem hér starfaði um árabil hefði átt afmæli í dag en hann lést fyrr á þessu ári. Bobby Harrison (fæddur 1939) gaf út nokkrar plötur meðan hann bjó hér og starfrækti nokkrar hljómsveitir, flestar í blúskantinum – þar má nefna sveitir eins og Pöbb-bandið Rockola, Black cat bone, ASIA og B.H. blues band en hann stóð einnig fyrir tónleikahaldi þar sem þekkt erlend bönd komu við sögu.

Að síðustu má nefna Lárus Ingólfsson revíusöngvara og leikara (1905-81). Á tónlistarsviðinu var hann fyrst og síðast gaman- og vísnasöngvari, og vinsæll sem slíkur en hann var einnig menntaður leikmynda- og búningahönnuður. Þótt Lárus hafi fyrst og fremst verið leikari má heyra rödd hans á nokkrum plötum, bæði sem hafa að geyma leikrit og lög úr leikritum, mestmegni barnaleikritum eins og Dýrin í Hálsaskógi, Kardimommubænum o.þ.h.

Vissir þú að organistinn Steingrímur Þórhallsson var fyrsti hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Reggae on ice?