Spilaborgin [1] (1993-94)

Spilaborgin

Hljómsveitin Spilaborgin lék töluvert á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins árin 1993 og 94 og hafði á boðstólum blöndu af djassi og blús en einnig frumsamið efni.

Sveitin kom fram á sjónarsviðið haustið 1993 og voru meðlimir hennar í upphafi þau Ásdís Guðmundsdóttir söngkona, George Grosman gítarleikari, Pétur Kolbeinsson bassaleikari og Guðjón B. Hilmarsson trommuleikari en flest þeirra höfðu áður verið í hljómsveitinni Kandís. Þannig skipuð lék Spilaborgin heilmikið um veturinn og var hálfgerð húshljómsveit í Turnhúsinu en um vorið 1994 bættist slagverksleikarinn Kristín Þorsteinsdóttir (Stína bongó) í hópinn. Um sumarið fór sveitin í stutta pásu og birtist að henni lokinni með breytta liðsskipan, George, Pétur og Guðjón voru þá horfnir á braut en í þeirra stað voru komnir Agnar Sveinsson gítarleikari, Atli Freyr Ólafsson og Ólafur K. Karlsson trommuleikari, Kristín og Ásdís voru þá enn í sveitinni.

Spilaborgin starfaði fram á haustið 1994 en virðist þá hafa hætt störfum.