Kandís [1] (1992-93)

Kandís

Kandís

Hljómsveitin Kandís var fremur skammlíf soulhljómsveit sem kom með nokkrum látum inn á sjónarsviðið en hvarf þaðan jafnharðan aftur.

Kandís var stofnuð haustið 1992 af Kanadamanninum George Grosman en honum hafði boðist að vera með tvö lög á safnplötunni Lagasafnið 2 sem þá var væntanleg fyrir jólin, sveitin var stofnuð í þeim tilgangi.

Annað lagið var unnið í nafni hans sjálfs en hitt lagið, Another saturday night (sem Sam Cooke hafði gert vinsælt mörgum áratugum fyrr) kom út á plötunni undir Kandísarnafninu. Lagið var í eins konar reggístíl og varð strax vinsælt og í kjölfarið spilaði Kandís víða en var iðulega auglýst sem soulsveit sem léki lög í anda The Commitments myndarinnar sem þá hafði notið hylli nokkru fyrr.

Auk Grosmans sem söng og lék á gítar voru í sveitinni Pétur Kolbeinsson bassaleikari, Karl Ö. Karlsson trommuleikari, Örlygur Guðmundsson hljómborðsleikari og söngkonurnar Anna Karen Kristinsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir.

Hljómsveitin lék eitthvað fram eftir vori 1993 og hafði þá Dan Cassidy fiðluleikari tekið sæti Örlygs sem hafði hætt nokkru fyrr.

Kandís hætti störfum um vorið og upp úr henni voru nokkrar nýjar sveitir stofnaðar, Langbrók og Manhattan, sem reru á svipuð mið á ballmarkað höfuðborgarsvæðisins. Kandís átti þó eftir að koma með kombakk ári síðar (vorið 1994) en þá voru í sveitinni auk söngkvennanna og Grosmans, þeir Stefán Henrýsson hljómborðsleikari, Þórir Jóhannsson bassaleikari [?] og James Olson trommuleikari.