Kamarorghestar (1974-88)

Kamarorghestar1

Kamarorghestar

Hljómsveitin eða öllu heldur fjöllistahópurinn Kamarorghestar komu með skemmtilegum hætti inn í ládautt íslenskt tónlistarlíf um 1980 með kabarettpönki sínu þótt sumir pönkarar þess tíma hefðu helst vilja afgreiða þau sem uppgjafahipppa á sínum tíma.

Uppruna Kamarorghesta má rekja til kommúnunnar Skunksins sem staðsett var á jörðinni Gljúfurárholti í Ölfusi (rétt austan við Hveragerði) en þar hafði hópur af hippum búið frá 1973.

Hluti af hópnum fékkst við tónlistarsköpun með óhefðbundnum og heimasmíðuðum hljóðfærum, þar á meðal einhvers konar trommu- eða ásláttarsetti en slíkt hljóðfæri fylgdi sveitinni lengi vel. Í þessum hópi voru Benóný Ægisson, Örn Karlsson, einhver sem kallaður var Löddi (gæti verið Þórir Laustsen) og annar sem gekk undir nafninu Búi en var að líkindum Brynjólfur Stefánsson. Árni Pétur Guðjónsson, Birthe Kårsholm og Margrét Árnadóttir voru einnig hluti af kommúnunni en ekki liggur fyrir hvort þau voru öll í hljómsveitarhluta hennar, fólk kom og fór og því er erfitt að setja niður nákvæmlega hverjir voru hluti af hópnum.

Sveitin kallaði sig á þessum tíma Hin kvalráða meginuppistaða kamarorghesta Jónasar Vest og kom fram opinberlega í nokkur skipti. Ekki var hin tilraunakennda tónlist við allra hæfi og á tónleikum í Menntaskólanum við Hamrahlíð gekk kór skólans út af tónleikunum með Þorgerði Ingólfsdóttur í broddi fylkingar, það var um helmingur áhorfenda.

Kamarorghestar 1979

Kamarorghestar 1979

Þegar hluti hópsins ákvað að fara til leiklistarnáms í Kaupmannahöfn haustið 1976 fjaraði smám saman undan kommúnunni. Benóný, sem hafði verið eins konar drifkraftur í hópnum fór einnig til Danaveldis í tónlistarnám og náms í hljóðupptökufræðum og þar starfaði hópurinn síðan, ýmist í námi eða jafnvel á bísanum eins og það var kallað, starfsemin var að mestu leiklistartengd svo að tónlistarpartur Kamarorghesta lá að mestu niðri um tíma.

Fyrir jólin 1978 komu Benóný og Björgúlfur Egilsson (einn af stofnendum Melchior) sem einnig var í Kaupmannahöfn, heim til Íslands og settu upp óperuna eða söngleikinn Skeifu Ingibjargar [Jóns forseta] í Félagsstofnun stúdenta með tónlistarhópi sem þeir kölluðu Kamarorghestar Jónasar Vest, en í þeirri útgáfu sveitarinnar voru Brynólfur Stefánsson bassaleikari, Sigurður Hannesson trommuleikari, Einar Vilberg gítarleikari, auk Björgúlfs og Benónýs sem léku á gítar, hljómborð, slagverk og saxófón, aðrir léku og sungu í verkinu s.s. Tolli Morthens, Mikael Stolberg, Örn Karlsson, Gísli Víkingsson, Hólmfríður Jónsdóttir, Erla Sigurðardóttir og Freyr Njarðarson.

Kamarorghestar 1981

Sveitin í Danmörku 1981

Í Kaupmannahöfn var líflegt félagslíf Íslendinga á þessum árum og var hluti hópsins við tónlistarsköpun (sem þarna var mun stærri en verið hafði í Skunknum), þar störfuðu t.d. þjóðlagasveitin Bláklukkur og „pönkbandið“ Sódó ódó en einnig var hljómsveit sett saman í tengslum við söngleik sem leikfélag Íslendinga í Kaupmannahöfn setti á svið þannig að tónlistarlífið stóð þarna í blóma.

Hluti af þessum hópi stóð síðan að stofnun Kaupmannarhafnar-útgáfu Kamarorghesta í lok ársins 1979 sem er e.t.v. það sem kalla mætti hina einu sönnu Kamarorghesta. Það voru fyrrnefndir Benóný sem lék á hljómborð, slagverk og saxófón og Björgúlfur (Böggi) á bassa, Kristján Pétur Sigurðsson söngvari og Kristján Þór Sigurðsson (Stjáni stjarna) gítarleikari. Skömmu síðar bættist Lísa Pálsdóttir leikkona (og síðar útvarpskona) í hópinn en hún söng í sveitinni ásamt Kristjáni Pétri. Ýmsir trommuleikarar komu við sögu hópsins, Steingrímur Guðmundsson og síðan Ólafur Sigurðsson voru meðal þeirra. Aagot Vigdís Óskarsdóttir (oft kennd við Diabolus in musica) og Sigurður Einarsson voru einnig um tíma í Kamarorghestum.

Kamarorghestarnir fóru nú mikinn á samkomum Íslendinga í borginni við Eyrarsundið, einkum í Jónshúsi þar sem helstu viðburðir fóru fram, þar stóð hópurinn fyrir margs konar uppákomum þar sem leik- og tónlist kom við sögu en segja má að um eins konar fjöllistahóp hafi verið að ræða þar sem Kamarorghestarnir voru tónlistarhlutinn. Sjálfir skilgreindu þeir Kamarorghestar tónlist sína sem frírokk en e.t.v. hefði verið hægt að kalla þetta einfaldlega pönk, sveitin endaði prógram sitt stundum á pönkútgáfu af Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið) en það hafði verið á efnisskrá Sódó ódó.

Kamarorghestar

Kamarorghestar í lit

Í fyrstu samdi Benóný megnið af efninu en smám saman fóru aðrir meðlimir Kamarorghesta að láta meira að sér kveða í lagasmíðum, einhver ágreiningur varð til þess að Benóný hætti í sveitinni í byrjun árs 1981 og hélt heim til Íslands. Þar stofnaði hann sína eigin sveit, sem hét því kunnuglega nafni Orghestar.

Sveitunum tveimur var margsinnis ruglað saman í kjölfarið, einkum þegar hinir upprunalegu Kamarorghestar tóku upp á því að koma til Íslands til tónleikahalds eins og gerðist sumarið 1982 en um það leyti var sveitin að leggja lokahönd á breiðskífu sem hún hafði unnið að í nokkra mánuði.

Þá voru í sveitinni Björgúlfur, Kristján þór, Kristján Pétur, Lísa, Ólafur Sigurðsson trommuleikari, Þorbjörn Erlingsson (Tobbi) söngvari, gítar- og flautuleikari, og Gísli Víkingsson hljómborðsleikari, sem þá hafði líklega tekið stöðu Benónýs.

Platan kom út um haustið og hlaut titilinn Bísar í banastuði. Platan fékk prýðilegar viðtökur gagnrýnenda og fékk fína dóma í Tímanum (tveir dómar birtust í blaðinu) og Helgarpóstinum, Bísarnir fengu einnig þokkalega dóma í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar. Í blaðadómum var sveitinni jafnvel líkt við “Stuðmenn sálugu” eins og það var orðað.

Aðeins voru um þúsund eintök af plötunni pressuð en mistök í Hookfarm hljóðverinu úti í Danmörku þar sem platan var tekin upp, urðu til þess að tekið var yfir hljóðupptökurnar og því var ekki hægt að pressa annað upplag.

Textar Kamarorghestanna voru sumir hverjir vafasamir að mati yfirmanna Ríkisútvarpsins, sem sá ekki aðra kosti í stöðunni en að banna tvö lög plötunnar (Bittí rassgatið á þér og Samviskubit) en í síðarnefnda laginu var til að mynda talað um að „fá sér á snípinn“. Slík bönn Ríkisútvarpsins hafa ætíð reynst hin besta auglýsing fyrir viðkomandi plötur. Annars vöktu textar Kamarorghesta víða athygli í fjölmiðlum og voru heilmikið í umræðunni en um þetta leyti voru „gúanótextar“ Bubba Morthens einnig fyrirferðamiklir í allri fjölmiðlaumfjöllun.

Þar sem Kamarorghestar voru einkum starfandi í Danmörku fór ekki mikið fyrir fréttum af sveitinni hér heima, eitthvað var hún þó við tónleikahald eftir útgáfu plötunnar og starfaði áfram, sveitin kom til dæmis við sögu á plötu Harðar Torfason, Tabu sem tekin var upp 1983 og kom út ári síðar.

Kamarorghestar 1984

Kamarorghestar í heimsókn á Íslandi 1984

Sumarið 1984 komu Kamarorghestar aftur til Íslands til tónleikahalds og fóru þá hringinn í kringum landið, þá voru fimm í sveitinni, Kristján Þór, Björgúlfur, Þorbjörn, Ólafur og Lísa.

Í kjölfarið bárust fáar fréttir af sveitinni aðrar en þær að hópurinn hefði eitthvað dreifst, svo virtist því sem Kamarorghestarnir væru hættir störfum, svo var þó ekki heldur starfaði sveitin á þessum árum með hléum.

Fjögur ár liðu og þá birtist hljómsveitin skyndilega á landinu (sumarið 1988) og kynnti plötu sem þá var væntanleg með haustinu. Hún kom út í desember á vegum útgáfufyrirtækisins Grammsins og hafði Hilmar Örn Hilmarsson veg og vanda af hljóðheimi hennar og upptökustjórn en platan var tekin upp hérlendis.

Platan bar heitið Kamarorghestar ríða á vaðið og sem fyrr fékk sveitin mikið lof í blaðadómum. Hún fékk góða dóma í Pressunni, Þjóðviljanum og DV en þvert á gagnrýnina seldist platan lítið sem ekki neitt í jólaplötuflóðinu, hluti af skýringunni má vera hversu seint upplagið barst hingað til lands en nokkuð var liðið á desember þegar hún skilaði sér í búðir og því hafi platan hreinlega drukknað í flóðinu.

Hljómsveitina skipuðu nú Björgúlfur, Kristján Þór, Lísa, Ólafur og Kristján Pétur, sem aftur var genginn til liðs við Kamarorghestana en einnig var í henni Ágúst Karlsson gítarleikari. Jósep Gíslason hljómborðsleikari kom einnig við sögu sveitarinnar um þetta leyti þótt ekki léki hann á plötunni en hann lék með sveitinni í kjölfar útgáfunnar þegar henni var fylgt eftir.

Platan reyndist svanasöngur Kamarorghesta sem þá hafði starfað í rétt tæplega hálfan annan áratug með hléum, fólk ýmist elskaði þessa flippuðu sveit sem alltaf mætti uppáklædd og máluð á svið eða leit þessa uppgjafahippa í síðasta reykjarmekkinum vanþóknunaraugnaráði.

Meðlimir sveitarinnar fóru í sína hverja áttina en voru lítið áberandi í íslensku tónlistarlífi, Lísa Pálsdóttir starfaði síðar við dagskrárgerð í útvarpi og Benóný gaf löngu síðar út sólóplötu en einhverjir Kamarorghestanna poppuðu upp í hinum og þessum sveitum.

Lagið Samviskubit kom síðar út á safnplötunni Stelpurokk (1997) en plötur Kamarorghesta hafa aldrei verið gefnar út á geislaplötuformi.

Efni á plötum