Reggae on ice (1992-99)

Reggae on ice 1995a

Reggae on ice 1995

Þótt Reggae on ice muni seint skipa sér meðal stærstu hljómsveita íslenskrar poppsögu er þó tvennt sem hennar verður minnst fyrir, annars vegar að vera fyrsta hljómsveitin á Íslandi til að sérhæfa sig í reggí-tónlist, hins vegar fyrir að ala upp af sér tónlistarmennina Matthías Matthíasson og Stefán Örn Gunnlaugsson.

Réttast er að tala um tvær hljómsveitir þegar Reggae on ice er annars vegar, sveitin var upphaflega stofnuð í desember 1992 og hafði þá að geyma allt aðra skipan en síðar varð. Viktor Steinarsson gítarleikari, Steingrímur Þórhallsson hljómborðsleikari, Matthías Matthíasson söngvari og gítarleikari, Hafþór Gestsson slagverksleikari, Ágúst Bergur Kárason bassa- og trompetleikari og Hannes Pétursson trommuleikari voru fulltrúar Íslands í sveitinni en auk þeirra voru í henni þrír erlendir meðlimir, söngvarinn Desmond Sylvester James sem kallaður var Rockers (frá eyjunni Dominicu (Commonwealth of Dominica)) sem átti reyndar frumkvæðið að stofnun sveitarinnar, og svo tveir aðrir sem litlar upplýsingar er að finna um en komu fram með henni í upphafi – annar þeirra gæti hafa borið nafnið Cle og hafa verið frá Dominicu eins og Rockers en hinn mun hafa verið Bandaríkjamaður.

Þessi fyrsta skipan sveitarinnar sem taldi níu manns kom fyrst fram opinberlega í janúar 1993 og vakti nokkra athygli, ekki síður fyrir fjölþjóðlega skipan hennar heldur en reggítenginguna en sveitin varð sú fyrsta hérlendis til að sérhæfa sig í þessari tegund tónlistar eins og fyrr segir.

Rochers starfaði ekki lengi með sveitinni þar sem atvinnuleyfi hans hérlendis rann út. Svo virðist sem Reggae on ice hafi þó starfað, að mestu í óbreyttri mynd þar til um haustið 1993 þegar hún hætti störfum. Og þar með lýkur sögu Reggae on ice hinnar fyrri.

Reggae on ice 1996

Reggae on ice í lit 1996

Ári síðar, haustið 1994, tók sveitin aftur til starfa með mjög breytta liðsskipan. Þá hafði fækkað mjög í henni en af fyrri meðlimum voru einungis þeir Matthías söngvari, Viktor gítarleikari og Hannes trymbill eftir. Aðrir liðar voru Stefán Örn Gunnlaugsson hljómborðsleikari sem átti eftir að verða þeirra helsti lagasmiður og Ingimundur Óskarsson bassaleikari, sem komu í stað Steingríms og Ágústs Bergs. Heimildir greina einnig frá því að Gunnar Reynir Þorsteinsson hafi verið trommari sveitarinnar á einhverjum tímapunkti, ekki liggur þó fyrir hvenær.

Reggae on ice fór fljótlega eftir áramótin 1994-95 af krafti í fulla spilamennsku á pöbbum bæjarins til að spila sig saman og um vorið sendi sveitin frá sér gamla Utangarðsmanna smellinn Kyrrlátt kvöld við fjörðinn á safnplötunni Ís með dýfu. Lagið sló í gegn og í kjölfarið fór hljómsveitin fyrst á flug á ballmarkaðnum en hún átti eftir að spila næstu misserin allt upp í fimm kvöld vikunnar. Nú var ekki lengur keyrt á reggíi eingöngu heldur almennu sveitaballapoppi í bland.

Næsta vor kom Kyrrlátt kvöld við fjörðinn út á annarri safnplötu (Ávextir) og um það leyti leit fyrri breiðskífa sveitarinnar einnig dagsins ljós. Platan sem þeir félagar gáfu sjálfir út hlaut titilinn Í berjamó og hafði að geyma tólf lög sem skiptust nokkuð jafnt að efni í þekkt erlend reggílög, gamla íslenska slagara og frumsamið efni, að mestu eftir Stefán hljómborðsleikara. Helst var það gamli slagarinn Hvers vegna varst‘ ekki kyrr sem hélt heiðri plötunnar á lofti og fylgdu henni eftir með mikilli spilamennsku og var sveitin nú orðin vel þekkt fyrir bragðið.

Í berjamó fékk varla nema sæmilega dóma í Morgunblaðinu en mun betri í Degi.

Reggae on ice 1997

Reggae on ice

Hvergi var slegið af og veturinn 1996-97 hélt Reggae on ice sínu striki á ballmarkaðnum samhliða því að taka upp sína aðra plötu. Hún kom út sumarið 1996 og hét einfaldlega Reggae on ice en er venjulega kölluð R.

Á nýju plötunni var skipting laga orðin með afgerandi hætti, níu frumsamin lög auk tveggja erlendra sýndu svo ekki varð um villst að Reggae on ice ætlaði ekki að keyra á gömlum slögurum þetta sumarið, að minnsta kosti ekki á plötunni, sem þeir gáfu sjálfir út eins og hina fyrri.

Gagnrýnendur voru fremur jákvæðir í garð plötunnar og hlaut hún þokkalega dóma í DV og ágæta í Degi-Tímanum og Morgunblaðinu. Eins og gera mátti ráð fyrir var keyrt sem fyrr á sveitaballamenningunni um sumarið og haustið en eftir áramótin 1997-98 var komin einhver þreyta í mannskapinn og fór sveitin í kærkomna pásu en þá hafði hún spilað nánast sleitulaust í þrjú ár.

Eftir þriggja mánaða hlé frá spilamennsku birtist Reggae on ice á nýjan leik vorið 1998 og í farteskinu voru tvö ný lög sem komu út á safnplötunni Bandalög 8, sem var sú síðasta í þeirri safnplöturöð. Engin var platan í þetta skiptið en sem fyrr voru sveitaböllin í fyrirrúmi, heldur var þó farið að draga úr vinsældum sveitarinnar og um haustið dró nokkuð úr afköstum hennar á ballmarkaðnum.

Í desember fór sveitin í pásu og um það leyti byrjaði Matthías að syngja með nýrri hljómsveit, Poppvélinni. Reggae on ice var þó ekki hætt og kom nokkrum sinnum fram opinberlega vorið 1999 en svo var það líka búið.

Og þannig lauk sögu fyrstu reggísveitar íslenskrar tónlistarsögu.

Efni á plötum