Stálfélagið (1991-98)

Stálfélagið

Hljómsveitin Stálfélagið var með háværustu hljómsveitum hérlendis en sveitin lék þungarokk og var þekkt fyrir að hækka vel í græjunum, sveitin starfaði á tíunda áratug síðustu aldar.

Stálfélagið var stofnað árið 1991 og kom fram á sjónarsviðið snemma árs 1991 þegar sveitin kom fram í fyrsta sinn fram opinberlega. Fljótlega fór að bera nokkuð á henni fyrir öfluga rokkkeyrslu og lék sveitin framan af erlent cover efni en var síðar meir með frumsamið efni á prógramminu, heimavöllur hennar varð Grjótið við Tryggvagötu en þar varð sveitin eins konar húshljómsveit og t.d. þegar Iron Maiden kom hingað til lands vorið 1992 lék sveitin í partíi sem haldið var henni til heiðurs í Grjótinu. Dyraverðir Grjótsins þóttu það harðir í rokkinu að þeir hikuðu ekki við að klippa bindin af gestunum sem ætluðu með þau inn.

Meðlimir Stálfélagsins voru þeir Sigurjón Skæringsson söngvari, Jón „Richter“ Guðjónsson bassaleikari, Guðlaugur Falk gítarleikari og Sigurður Reynisson trommuleikari, og léku þeir reyndar víðar um höfuðborgarsvæðið heldur en í Grjótinu og eitthvað fóru þeir út á landsbyggðina líka.

Stálfélagið 1994

Sveitin starfaði í nokkrum törnum, nokkra mánuði í senn og t.d. liðu allt upp í þrjú ár á milli slíkra tarna, þannig starfaði sveitin ekkert á milli 1994 og 97 en styttri pásur voru algengari – í einni slíkri fóru þeir félagar til Bandaríkjanna undir nafninu X-ist, sem var hljómsveit náskyld Stálfélaginu.

Stálfélagið var yfirleitt skipað þeim fjórum sem nefndir eru hér á undan en árið 1994 starfaði gítarleikari Þorsteinn Marel Júlíusson með þeim, einnig er mögulegt að söngkonan Jóna De Grooth hafi komið fram í einhver skipti með sveitinni en einhverjir meðlimir Stálfélagsins léku með söngkonunni í hljómsveitinni Tin.

Stálfélagið starfaði til ársins 1998 en hætti þá endanlega störfum.