
Sigurgeir Jónsson
Sigurgeir Jónsson var í byrjun 20. aldarinnar einn af hornsteinum tónlistarlífs á Akureyri og áður reyndar einnig í Suður-Þingeyjarsýslu en hann kenndi tónlist og stjórnaði kórum auk þess sem hann var organisti um áratuga skeið í Akureyrarkirkju.
Sigurgeir var Suður-Þingeyingur, hann fæddist haustið 1866 á Stóruvöllum í Bárðardal þar sem hann ólst upp og var þar reyndar bóndi um tíu ára skeið. Það þótti snemma ljóst að hann hafði tónlistina í sér, mikið var sungið á æskuheimilinu og hann mun hafa lært sjálfur á fiðlu og orgel (harmoníum) áður en hann fór suður til Reykjavíkur veturinn 1891-92 þar sem hann nam píanóleik hjá Önnu Petersen. Þá var hann lunkinn með verkfæri, smíðaði sjálfur orgel á sínum yngri árum og átti síðar eftir að vinna nokkuð við hljóðfæraviðgerðir og -stillingar.
Sigurgeir stjórnaði söngflokki í Bárðardalnum um tíma en litlar upplýsingar er að finna um þann kór, hvort hann var karlakór eða blandaður, eða hvenær hann starfaði. Hins vegar eru öllu meiri upplýsingar um 45 manna blandaðan kór úr hreppunum í kring, bæði úr S-Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu sem settur var saman til að syngja á aldamótahátíð sem haldin var að Ljósavatni sumarið 1901, en þeim kór stjórnaði Sigurgeir með sóma. Sá söngflokkur söng fjórraddað en slíkur söngur var þá nýtilkominn. Á þessum árum mun hann jafnframt hafa stjórnað söngstarfi innan ungmennafélagsins í sveitinni.
Árið 1904 brá Sigurgeir búi og flutti með fjölskyldu sína inn á Akureyri og þar átti hann eftir að búa og starfa við góðan orðstír. Fljótlega var hann þar farinn að stjórna blönduðum kór sem gekk undir nafninu Söngfélagið Tíbrá en sá kór starfaði um tveggja ára skeið undir stjórn Sigurgeirs sem einnig stofnaði hann. Hann átti í framhaldinu eftir að verða áberandi í akureysku tónlistarlífi, hann kenndi söng við barna- og gagnfræðaskóla Akureyrar og var með einkakennslu á hljóðfæri (píanó og orgel að minnsta kosti) og síðar einnig við Tónlistarskóla Akureyrar þegar hann var stofnaður um miðjan fimmta áratuinn. Sigurgeir var alla tíð virkur í góðtemplarastarfinu bæði í heimasveit sinni og síðar á Akureyri og þar stýrði hann kór um langt árabil sem gekk líklega undir nafninu Söngfélag I.O.G.T. á Akureyri, þá mun hann hafa stjórnað karlakór innan stúkunnar en ekki er ljóst hvort það var sami kórinn og fyrrnefnt söngfélag. Þar fyrir utan var hann eitthvað viðloðandi söngstarf hjá skátunum á Akureyri, stjórnaði þar skátakór.

Sigurgeir við harmonium orgel
Sigurgeir spilaði sjálfur töluvert á hljóðfæri, hann var t.a.m. oft undirleikari á píanó hjá einsöngvurum þegar tónleikar voru haldnir á Akureyri, og spilaði svo á fiðlu í fyrstu hljómsveitinni sem starfrækt var í bænum – níu manna hljómsveit sem gekk undir nafninu Hljómsveit Akureyrar. Sigurgeir lék jafnframt bæði á harmóníum og harmonikku á hvers kyns skemmtunum í bænum, allt frá jólatrésskemmtunum yngstu borgaranna og til þess að leika fyrir sjúklinga og eldra fólk á stofnunum. Hann hafði frá árinu 1911 verið organisti við Akureyrarkirkju og stjórnaði þar einnig kirkjukór þegar hann kom til sögunnar en organistastarfinu gegndi hann um þrjátíu ára skeið eða þar til hann var 75 ára gamall, þá voru ekki mörg ár síðan hann hafði hætt að kenna söng en kórstjórnun hafði hann með höndum að minnsta kosti til 1948, þá 82 ára gamall.
Sigurgeir Jónsson varð langlífur maður, hann lést á sjúkrahúsinu á Akureyri rétt tæplega 88 ára gamall haustið 1954 eftir nokkurra vikna dvöl þar en þá hafði hann verið með fulla orku nánast fram á síðasta dag, hafði t.d. spilað nánast daglega fyrir sjúklingana á sjúkrahúsinu vikurnar á undan. Þá hafði hann alla tíð verið líkamlega hraustur þrátt fyrir að eitt sinn dottið úr stillansa við störf sín og lærbrotnað illa auk annarra meiðsla en hann var lærður múrari sem mun hafa verið aðal starf hans um tíma þó svo að tónlistin væri alltaf fyrirferðamest.
Í tíð Sigurgeirs voru menn ekki endilega heiðraðir fyrir störf sín en Tónlistarfélag Akureyrar gerði hann að heiðursfélaga fyrir störf sín í þágu tónlistarinnar á Akureyri og varð hann þar með fyrstur allra til að hljóta þann heiður og það ekki að ástæðulausu, t.d. mun hann hafa kennt á milli 650 og 700 manns í starfi sínu sem söng- og tónlistarkennari sem þætti all gott jafnvel í dag.