Sigurgeir Jónsson [2] (1932-2015)

Sigurgeir Jónsson

Sigurgeir Jónsson organisti og kórstjórnandi í Öræfum kom töluvert að tónlistarlífinu í sveit sinni fyrir austan en hann var mestalla tíð bóndi og einnig útibússtjóri Kaupfélags Austur-Skaftfellinga, sem sinnti tónlistinni í hjáverkum.

Sigurgeir var fæddur og uppalinn á Fagurhólsmýri í Öræfum, hann fór til náms við Bændaskólann á Hvanneyri og varð þar búfræðingur en þar starfaði hann að líkindum með fyrstu hljómsveit sinni sem bar nafnið Brak og brestir, með henni lék hann á harmonikku en hann hafði numið tónlistarfræðin af sjálfum sér – lék á flest hljóðfæri reyndar. Sigurgeir hafði að öllum líkindum byrjað að leika ýmist einn eða með öðrum á dansleikjum í heimasveit sinni Öræfum, áður en hann fór á Hvanneyri og það gerði hann einnig eftir að námi lauk og langt fram eftir aldri s.s. á jólaskemmtunum, þorrablótum og annars konar samkomum í sveitinni.

Þegar fjölmargir vinnuflokkar hófu að brúa árnar á söndunum fyrir austan eftir miðjan sjöunda áratuginn fjölgaði nokkuð í sveitinni og um leið jókst krafan um að dansleikir væru haldnir þar reglulega, því stofnaði Sigurgeir í félagi við nokkra sveitunga sína hljómsveit sem bar nafnið Eygló og starfaði í nokkur ár – að minnsta kosti fram yfir þjóðhátíðarárið (1974) þegar hringvegurinn var opnaður og brúarflokkarnir höfðu lokið verki sínu. Sú sveit lék mikið í félagsheimilinu í Hofi í Öræfum en einnig vestar, t.a.m. á Kirkjubæjarklaustri eftir að hringvegurinn opnaði.

Sigurgeir var jafnframt söngmaður og var einn af stofnendum karlakórsins Jökuls á Höfn í Hornafirði 1972 og söng með honum um árabil, og um tíma einnig í kvartett sem settur var á fót innan kórsins. Hann söng aukinheldur í kvartett í heimabyggð sinni, var einn stofnenda kirkjukórs Hofskirkju og árið 1992 tók hann við starfi organista í kirkjunni og gegndi því starfi í ríflega tvo áratugi, líklega stjórnaði hann þá einnig kirkjukórnum. Og Sigurgeir kom að fleiri tónlistartengdum verkefnum, hann var einn af þeim sem stofnuðu Harmonikufélag Hornafjarðar og var hann þar virkur í starfi. Sigurgeir var því í raun alla ævi mjög virkur í samfélaginu fyrir austan, bæði sem verslunarstjóri útibús Austur-Skaftfellinga á Fagurhólsmýri (sem hann gegndi frá því um 1980) og svo í almennu félagslífi Öræfinga fyrir utan tónlistina s.s. með ungmennafélaginu, leikfélaginu o.fl.

Sigurgeir Jónsson lést haustið 2015 áttatíu og þriggja ára að aldri.