Stella Hauksdóttir (1953-2015)

Stella Hauksdóttir

Nafn Stellu Hauks en beintengt baráttu- og réttindamálum verkafólks, kvenna og samkynhneigðra og þó svo að hún sé kannski ekki þekkt á landsvísu fyrir tónlist sína er hún vel þekkt hjá fyrrnefndu fólki og að mörgu leyti stóð hún fyrir sömu hluti og Bubbi Morthens gerði lengi vel þótt hann yrði öllu þekktari.

Guðný Stella Hauksdóttir fæddist í Keflavík haustið 1953 en ólst upp á Eskifirði fram til tíu ára aldurs þegar fjölskyldan flutti til Vestmannaeyja, en nafn hennar er fyrst og fremst tengt Eyjunum. Hún lærði vinnukonugripin svokölluðu á gítar á unglingsaldri og var að mestu sjálflærð í þeim efnum.

Stella var eins og flestir í Vestmannaeyjum á þeim tíma snemma farin að vinna fiskvinnslustörf og fljótlega varð launabarátta fiskvinnslu- og verkafólks henni mikið hjartans mál og lét hún sig þau mikið varða, hún varð því virk í verkalýðsbaráttunni í Eyjum og var m.a. í stjórn verkakvennafélagsins Snótar lengi vel auk annarra starfa fyrir stéttabaráttuna, s.s. trúnaðarstarfa. Svo fór að hún hóf að koma fram á fundum með frumsamda tónlist og texta sem helguð voru þeim málefnum en hún hafði verið að semja texta og lög nánast frá því á unglingsárunum.

Stella varð brátt þekkt fyrir baráttu sína í Vestmannaeyjum og hún var ekki beinlínis vinsæl hjá vinnuveitendum sínum og öðrum slíkum því hún var bæði ófeimin og hávær þegar hún viðraði skoðanir sínar en fyrir vikið varð hún vinsæl meðal verka- og farandverkafólksins og lög hennar og textar urðu að baráttusöngvum ekki ólíkt því sem bræðurnir Bubbi og Tolli Morthens voru að gera um svipað leyti, seint á áttunda áratugnum. Orðspor hennar breiddist hratt út innan verkalýðshreyfingarinnar og hún hóf að koma fram með gítarinn á fundum og skemmtunum tengdum launabaráttunni um allt land, einnig kom hún fram í útvarpi og flutti þá frumsamið efni.

Vinnslustöðvarkonan Stella Hauks

Nokkru fyrir 1980 var Stella einnig farin að láta til sín taka á öðrum vettvangi en kvennabaráttan var þá einnig í fullum gangi og tók hún virkan þátt í Rauðsokkuhreyfingunni og var þannig einnig rammpólitísk, var m.a. í framboði til sveitastjórnarkosninga og kom heilmikið fram með tónlistaratriði á vinstri kantinum hjá alþýðubandalaginu og síðar kvennalistanum og einnig Fylkingunni en þá var hún töluvert farin að koma fram á höfuðborgarsvæðinu, þetta bættist við verkalýðsbaráttu hennar og var auðvitað nátengt þeirri baráttu að mörgu leyti. Og enn bættist við þegar hún kom út úr skápnum um líkt leyti og tileinkaði sig þá jafnframt baráttumálum samkynhneigðra sem þá voru á byrjunarstigi en hún kom að stofnun Samtakanna 78, hún hafði þó verið í sambúð og eignast einn son í Eyjum. Það er því ekki hægt að segja annað en að gustað hafi um Stellu á hinum ýmsu sviðum samfélagins. Þetta gerði hún bæði í ræðu og riti en textar hennar með tónlistinni voru líklega hennar sterkasta vopn og hún var dýrkuð og dáð af sínu fólki þrátt fyrir að segja mætti að hún hefði hvorki fegurstu söngröddina né taldist með færustu gítarleikurum – textarnir töluðu sínu máli.

Stella hafði flutt til Reykjavíkur og þar má e.t.v. segja að minna hafi farið fyrir henni þar sem samfélagið var mun stærra en í Vestmannaeyjum en hún stóð alltaf sína vakt í allri sinni baráttu sem án nokkurs vafa var farið að setja nokkuð mark á hana hvað álag snerti, hún kom nokkuð fram og var einnig farin að flytja tónlist sína sem trúbador á pöbbum og það var svo árið 1994 sem þrjú lög með henni komu út á kassettu sem bar yfirskriftina Úr hvarfi og var með hljómsveit eða listafólki sem kallaði sig Séra Ísleifur og englabörnin, á kassettunni flutti hún tónlist sína undir nafninu Stella Haux. Á höfuðborgarsvæðinu vann hún illa launuð verkamannastörf á milli þess sem hún var án atvinnu og bjó reyndar um eins árs skeið einnig í Kaupmannahöfn en árið 1996 þegar hún kom þaðan hélt hún í fyrsta sinn sjálfstæða tónleika þar sem hún flutti frumsamda tónlist á Veitingastaðnum 22.

Stella með gítarinn

Það var svo árið 1999 sem löngu tímabær plata kom út með Stellu og tónlist hennar, tildrög þess voru þau að sonur hennar gaf henni hljóðverstíma en einnig gáfu nokkrir vinir hennar úr tónlistargeiranum vinnu sína svo platan yrði að veruleika. Platan bar einfaldlega nafnið Stella og hafði að geyma tólf lög frá ýmsum tímum, það elsta frá 1978 en nokkur þeirra höfðu verið samin í Danmörku. Fjölmargir þekktir tónlistarmenn tóku þátt í að skapa verkið og hér má nefna Stuðmanninn Tómas M. Tómasson og Andreu Gylfadóttur sem voru fremst í flokki en einnig má nefna Georg Bjarnason, Jakob Frímann Magnússon, Hilmar Örn Hilmarsson, Eðvarð Lárusson og Magnús R. Einarsson svo nokkur nöfn séu nefnd, miklu fleiri komu þó við sögu. Platan fékk prýðilega dóma í Morgunblaðinu en útgáfutónleikar voru haldnir á Grand rokk.

Næstu árin hélt Stella áfram að koma fram sem trúbador og upp úr miðjum fyrsta áratug nýrrar aldar fluttist hún aftur á „heimaslóðir“ til Vestamannaeyja þar sem hún átti eftir að búa það sem eftir var, hún hélt samt sem áður áfram að koma fram stöku sinnum á höfuðborgarsvæðinu en brátt varð það fastur liður að halda tónleika í Eyjum á haustin, þar var hún með aðstoðarmenn með sér og stundum urðu þetta veglegir tónleikar fyrir fullum sal af fólki enda höfðu lög hennar ekki gleymst meðal þeirra sem höfðu starfað í Vinnslustöðinni í Eyjum á sínum tíma með henni.

Þegar sextugs afmælið nálgaðist 2013 var stefnt á útgáfu tveggja platna með lögum Stellu þar sem önnur átti að innihalda eldri lög frá ferli hennar en hin með nýlegum lögum sem hún hafði samið á allra síðustu árum, eftir að hún flutti aftur til Vestmannaeyja. Þegar til kom leit aðeins ein plata dagsins ljós, hún kom út haustið 2013 og bar nafnið Trúður í felum – sem líklega vísaði til Stellu sjálfrar. Á plötunni var fjöldi þekkts tónlistarfólks sem lagði henni lið en lögin voru eins og á fyrri plötunni frá ýmsum tímum, þau lituðust fyrst og fremst af þeim baráttumálum sem Stellu voru hugleikin en hún hafði ekkert mýkst þrátt fyrir árin sextíu.

Stella Hauksdóttir

En enginn veit sín örlög, Stella hafði verið ekki verið heilsuhraust um skeið og reyndar einnig ekkert farið alltof vel með sig og svo fór rúmlega ári eftir útgáfu plötunnar og tónleikahaldi tengt því að hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Vestmannaeyjum um miðjan janúar 2015, sextíu og eins árs gömul. Hennar var minnst með þeim hætti að á Hinsegin dögum um sumarið var dagskrá helguð henni í Iðnó og um haustið var tónleikadagskrá með lögum hennar flutt í Vestmannaeyjum.

Eftir Stellu liggja tvær plötur með lögum hennar en auk þess þrjú lög á kassettu séra Ísleifs og englabarnanna (þau lög komu þó líklega einnig út á fyrri plötunni hennar), þá munu nokkrir vinir Stellu hafa unnið lög eftir hana og fært henni á fimmtugs afmæli hennar en litlar sem engar upplýsingar er að finna um þá óopinberu útgáfu.

Efni á plötum