Afmælisbörn 1. september 2022

Ingimundur fiðla

Að þessu sinni eru afmælisbörnin sex talsins:

Ruth Reginalds söngkona er fimmtíu og sjö ára gömul í dag en hana þekkja auðvitað allir. Ruth var fyrst og fremst barnastjarna og gaf út á sínum tíma fjöldann allan af plötum á áttunda áratugnum, en hún söng einnig hlutverk Róberts bangsa á þremur plötum um svipað leyti. Enn í dag hljóma reglulega í útvarpi lög eins og Simmsalabimm, Tóm tjara, Furðuverk, Orð og Lína ballerína með henni. Ruth býr í Bandaríkjunum og syngur enn reglulega.

Gunnar Þór Jónsson gítarleikari á stórafmæli en hann er fimmtugur í dag. Gunnar lék á yngri árum með sveitum eins og Kórak en varð fyrst kunnur með hljómsveitinni Spur og lék síðar með sveitum eins og Bravó, Hollívúdd og Sóldögg. Síðustu árin hefur Gunnar leikið með Skítamóral.

Þá á Einar Hrafn Stefánsson trommuleikari (trommugimpið) einnig stórafmæli í dag en hann er þrítugur. Einar hefur trommað með ólíkum sveitum eins og Hatara, Vök og Kjurr en hann var reyndar söngvari og bassaleikari síðast töldu sveitarinnar. Flestir muna auðvitað eftir framlagi Einars og Hatara í Eurovision-keppninni.

Jenni Kristinn Jónsson eða Jenni Jóns lagahöfundur átti einnig afmæli á þessum degi. Hann fæddist 1906 í Ólafsvík en kenndi sig þó jafnan við Barðaströnd þar sem hann bjó lengi, hann lék á trommur í Hljómatríóinu en var fyrst og fremst þekktur fyrir lagasmíðar sínar sem margar eru kunnar enn í dag. Á meðal lag sem hann samdi eru Brúnaljósin brúnu, Ömmubæn, Hreyfilsvalsinn og Lipurtá. Jenni lést 1982.

Þá átti Ingimundur Sveinsson (iðulega nefndur Ingimundur fiðla) þennan afmælisdag en hann var alþýðulistamaður ættaður úr Skaftafellssýslu. Ingimundur (f. 1873) var þekktur flakkari, ferðaðist um, tók ljósmyndir og lék á fiðlu sína bæði frumsamin og lög eftir aðra, einnig líkti hann eftir ýmsum náttúruhljóðum s.s. fuglasöng með fiðlunni. Ingimundur lést 1926.

Að síðustu er hér nefnd Katrín Viðar (Einarsdóttir Norðmann) píanókennari og hljóðfæraverslunareigandi (1895-1989). Katrín nam píanóleik í Berlín sem þá var fátítt, og kenndi hér heima í ótal ár, þá stofnaði hún og starfrækti um árabil hljóðfæraverslun undir eigin nafni sem hún seldi síðar Sigríði Helgadóttur en sú átti eftir að reka verslunina enn lengur. Katrín var móðir Jórunnar Viðar tónskálds.

Vissir þú að Bragi Ólafsson rithöfundur og bassaleikari Purrks Pillnikk og Sverrir Stormsker mynduðu eitt sinn hljómsveitina Illmenni?