Katrín Viðar (1895-1989)

Katrín Viðar2

Katrín Viðar

Katrín Viðar var heilmikill tónlistarfrumkvöðull á fyrri hluta síðustu aldar, annaðist píanókennslu og rak hljóðfæraverslun svo dæmi séu tekin.

Katrín (fædd Katrín Einarsdóttir Norðmann) fæddist 1895 í Reykjavík en mjög fljótlega fluttist fjölskylda hennar norður til Akureyrar þar sem hún bjó til 1908 þegar faðir hennar lést en þá fluttist hún aftur suður til Reykjavíkur.

Eftir nám í Verzlunarskóla Íslands fór hún til Berlínar til píanónáms sem var afar sjaldgæft af kvenmanni hérlendis, og þegar heim kom hóf hún að kenna á píanó og gerði það reyndar mjög lengi. Talað hefur verið um að hún hafi haft allt að fjörutíu nemendur samtímis og er ljóst að hún kenndi mörg hundruð Reykvíkingum á píanó í gegnum tíðina og má með sanni kalla hana frumkvöðul í píanókennslu hérlendis. Hún annaðist ennfremur oft undirleik á píanó þegar tónleikar voru haldnir í Reykjavík.

Katrín giftist Einari Viðar (syni Indriða Einarssonar og barnabarns Péturs Guðjohnsen organista og kórstjóra) og tók upp ættarnafn hans, þau Einar eignuðust dæturnar Jórunni, síðar tónskáld, og Drífu síðar myndlistakonu. Einar lést en Katrín giftist síðar Jóni Sigurðssyni skólastjóra Laugarnesskóla og voru þau hjónin náttúruunnendur og framarlega í menningarstarfsemi borgarinnar. Þau hjónin gáfu Reykjavíkurborg t.d. 200 plöntutegundir í tilefni af 175 ára afmælis borgarinnar en þær plöntur voru notaðar til að byggja upp Grasagarð Reykjavíkur. Þess má til gamans geta að rós er nefnd eftir Katrínu (Rosa pimpinellifolia „Katrín Viðar“) vegna þessa. Katrín var einnig mikil áhugamanneskja um skíða- og skautaíþróttir og var formaður Skautafélags Reykjavíkur um árabil.

En hugur Katrínar snerist fyrst og síðast að tónlistinni, hún stofnaði eigin hljóðfæraverslun við Lækjargötu árið 1925, Hljóðfæraverslun Katrínar Viðar en þar seldi hún einnig hljómplötur og nótur. Katrín starfrækti verslunina til haustsins 1938 er hún seldi Sigríði Helgadóttur hana, en sú síðarnefnda átti eftir að standa í alls kyns rekstri í verslun sinni s.s. plötuútgáfu. Hún var þó fyrst og fremst píanóleikari í fremstu röð sem fyrr segir.

Katrín Viðar lést árið 1989, þá háöldruð.