Katrín

Katrín
Lag og texti Hörður Torfason

Katrín er einmana, vinnur í búð.
Hún gefur því hárnæmar gætur;
að vel sköpuð brjóst og flauelshúð
draga’ að karlmenn daga og nætur.
En henni finnst enginn strákur sætur.

Gráturinn sefar, nóttin er löng.
Það er betra en að loka allt inni
Hún semur sinn eigin baráttusöng
til að þjáningum hennar linni
og að kvenmaður henni sinni.

Dagarnir líða við fábrotið strit,
hún hefur þó eitthvað að gera.
Starfið setur í líf hennar lit.
Það er nóg um að vera.
En lítið má þó útaf bera.

Krakkarnir hika’ ekki’ að stríða’ henni á því
svo hún roðnar og hleypur í felur.
Hún neyðist svo oft til að taka sér frí
en í hjarta sér vonir hún elur.

Hún trúir að líf hennar batni einn dag,
það sé staðreynd sem hún ein skilji,
að tilveran breytist henni í hag
þó að umhverfið kostina hylji.
Þetta er takmark hennar og vilji.

[af plötunni Hörður Torfason – Tabú]