Jenni Jóns (1906-82)

Jenni Jónsson

Jenni Jónsson

Margir muna eftir Jenna Jóns en hann var einn helsti laga- og textahöfundur landsins hér áður, auk þess að starfrækja Hljómatríóið lengi vel.

Jenni Kristinn Jónsson (f. 1906) fæddist í Ólafsvík en bjó á Patreksfirði framan af og tengdi sig alltaf við staðinn. Tónlistaráhuginn kom snemma hjá Jenna og hann eignaðist sína fyrstu harmonikku aðeins átta ára gamall og var farinn að leika á hana reglulega fyrr en varði. Sextán ára var hann farinn að leika á böllum fyrir vestan og norðan, einn með nikkuna.

Þegar Jenni fluttist suður til Reykjavíkur í stríðsbyrjun (1939) urðu þáttaskil í lífi hans, hann hóf að semja lög og texta auk þess sem hann stofnsetti hljómsveit sína, Hljómatríóið árið 1945. Með honum í tríóinu voru Jóhann Eymundsson og Ágúst Pétursson en Jenni hafði einnig leikið stundum á böllum með Ágústi einum, og einnig Gretti Björnssyni.

Þess má geta að í Hljómatríóinu lék Jenni á trommur en það varð aðal hljóðfæri hans upp frá því. Hljómatríóið lék undir hjá Alfreð Clausen á plötu frá 1954 en á þeirri plötu er einmitt að finna lag eftir Jenna.

Jenni Jónsson1

Jenni Jóns með harmonikkuna

 

En Jenni varð fyrst og fremst þekktur laga- og textahöfundur og tók þátt í fjölda dans- og dægurlagakeppnum sem haldnar voru á vegum S.K.T. og Ríkisútvarpsins. Hann vann til fjölda verðlauna fyrir þau lög og meðal þekktra laga hans má nefna lög eins og Hreyfilsvalsinn, Ömmubæn, Flókalundur, Vökudraumar, Brúnaljósin brúnu (sigraði sönglagakeppni S.K.T. 1954) og Lipurtá (sem sigraði danslagakeppni Ríkisútvarpsins 1966), öll lögin hafa komið út á plötum í einni eða fleiri útgáfum og mörg þeirra hafa ennfremur margsinnis verið endurútgefin á safnplötum síðan.

1978 gáfu SG-hljómplötur út plötuna Elly Vilhjálms og Einar Júlíusson syngja lög Jenna Jóns í útsetningu Þóris Baldurssonar, og naut hún töluverðra vinsælda. Þá hafði Jenni verið heilsuveill til margra ára, hætti að vinna 1969 vegna heilsubrests en hann hafði lengi verið verslunarmaður og -stjóri hjá KRON. Jenni lést síðan í byrjun árs 1982 sjötíu og fimm ára gamall.

Efni á plötum