Stórsveit Ríkisútvarpsins (1985-88)

Stórsveit Ríkisútvarpsins

Gerð var tilraun með að starfrækja stóra hljómsveit innan Ríkisútvarpsins á níunda áratug síðustu aldar, mörgum áratugum eftir að Útvarpshljómsveitin svokallaða starfaði. Tilraunin þótti takast afar vel en sveitin, sem hlaut upphaflega nafnið Léttsveit Ríkisútvarpsins, var þó lögð niður eftir fárra ára starf vegna fjárskorts en um það leyti hafði RÚV hafið þátttöku Íslands í Eurovision söngvakeppninni og því dugði fjármagnið skammt og var hljómsveitinni fórnað.

Það var Ólafur Þórðarson (oftast kenndur við Ríó tríó) sem hafði frumkvæði og hugmyndina að stofnun hljómsveitarinnar og var titlaður framkvæmdastjóri hennar, sveitin bar sem fyrr segir nafnið Léttsveit Ríkisútvarpsins til að byrja með og starfaði undir því nafni fyrstu tvö árin en þá var nafni hennar breytt í Stórsveit Ríkisútvarpsins vorið 1987 og var þá líklega eitthvað fjölgað í henni. Fyrst um sinn var sveitin fjórtán manna en hún var að líkindum orðin hátt í tuttugu manna þegar yfir lauk.

Sveitin kom fyrst fram á 17. júní hátíðarhöldunum sumarið 1985 og spilaði opinberlega í nokkur skipti það ár, það var svo sumarið 1986 sem hún hélt sína fyrstu opinberu tónleika en það var á Hótel Borg  og voru þeir tónleikar sendir út í beinni útsendingu en sveitin kom oft fram í dagskrá útvarpsins á þessum árum, og reyndar einnig í sjónvarpinu því hún kom t.d. fram sem skemmtiatriði í úrslitaþætti undankeppni Eurovision vorið 1987.

Stórsveit Ríkisútvarpsins 1988

Stórsveitin hafði hljóðritað tíu íslensk lög fyrsta árið sem hún starfaði og svo var öðrum tíu lögum bætt í sarpinn árið eftir en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort frekari upptökur voru gerðar. Að minnsta kosti þrjú þessara laga hafa komið út á plötum, tvö á safnplötunni Syngið þið fuglar, sem helguð var tónlist Ólafs Gauks Þórhallssonar og eitt lag á plötunni Undurfagra ævintýr með lögum Oddgeirs Kristjánssonar.

Það var Vilhjálmur Guðjónsson sem stjórnaði sveitinni að minnsta kosti fyrst um sinn en síðar komu fleiri stórnendur að henni, þar af nokkrir erlendir s.s. Mikael Råberg og Michael Hove. Margir af þekktustu tónlistarmönnum landsins skipuðu sveitina og þeirra á meðal má nefna Stefán S. Stefánsson saxófónleikara, Björn Thoroddsen gítarleikara, Steingrím Óla Sigurðsson trommuleikara, Þóri Baldursson hljómborðsleikara og Þorleif Gíslason saxófónleikara svo fáeinir séu hér nefndir.

Stórsveit Reykjavíkur var lögð niður 1988 vegna fjárskorts sem fyrr segir en svo virðist sem einhver vísir að sveitinni hafi verið starfandi 1994 og svo aftur 2013. Engar frekari upplýsingar er þó að finna um það.