Ólafur Þórðarson (1949-2011)

Ólafur Þórðarson

Tónlistarmaðurinn Ólafur Þórðarson er flestum kunnur, hann var meðlimur Ríó tríósins, Kuran Swing og South River band og gaf auk þess út tvær sólóplötur, hann var í forsvari fyrir þjóðlagaunnendur hérlendis sem og djassáhugamenn, starfrækti umboðsskrifstofu og kom að ýmsum hliðum íslensks tónlistarlífs.

Ólafur (Tryggvi) Þórðarson fæddist 1949 á Akureyri en fluttist síðan í Kópavoginn sem þá var að slíta barnsskónum. Hann hóf tónlistariðkun sína í þjóðlagatríóinu Rokkurum haustið 1964 sem síðar varð að Kviðagilskvartettnum vorið eftir, og fáeinum mánuðum síðar varð Ríó tríó til að hluta til upp úr Kviðagilskvartettnum.

Segja má að Ólafi og félögum hafi á vissan hátt verið fleygt út í djúpu laugina en þeir urðu fljótlega nokkuð vinsælir og reyndar landsþekktir þegar Ríó tríó kom fram í Ríkissjónvarpinu vorið 1967 en það var þá nýstofnað. Fyrsta plata Ríósins kom út ári síðar og eitt leiddi af öðru, hver platan á fætur annari kom út og tríóið varð feikivinsælt.

Ólafur kom víða við í tónlistinni á þessum árum, hann hafð ætlað að mennta sig í myndlist og byrjaði í Myndlista- og handíðaskólanum en endaði á að ljúka tónmenntakennaraprófi og fór að kenna tónlist, bæði við grunnskóla en einnig við tónlistarskóla og varð hann skólastjóri Orgelsskólans um tíma. Hann hóf að stjórna útvarpsþætti með tónlist fyrir börn og var það fyrsta reynsla hans af þáttastjórnun í útvarpi en hann átti síðar eftir að starfa töluvert í útvarpi.

Ólafur kom ennfremur örlítið að plötuútgáfu þegar hann gaf út plötuna Upphafið með hljómsveitinni Þokkabót árið 1974 ásamt þeim Rúnari Júlíussyni og Gunnari Þórðarsyni undir nafninu ORG, ekki varð um frekari samvinnu að ræða þeirra á milli í útgáfumálum en Rúnar og Gunnar stofnuðu í kjölfarið plötuútgáfuna Hljóma. Ólafur fór hins vegar í samstarf með Steinari Berg Ísleifssyni og fleirum og stofnaði hljómplötuútgáfuna Steina, síðar keypti Steinar þá hina út úr fyrirtækinu.

Ríó tríó

Samstarfið við Þokkabót hafði verið nokkuð náið, Ólafur hafði útsett með sveitinni og leikið inn á plötuna auk þess að vera einn útgefenda, hann aðstoðaði einnig við gerð næstu plötu sveitarinnar sem kom út 1976 og þeir Þokkabótarmenn endurguldu Ólafi greiðann með því að aðstoða hann við gerð sólóplötu sem hann var með í bígerð. Á sama tíma voru þeir Ríó tríó félagar að byrja aftur eftir nokkurt hlé (sveitin hafði þá í raun hætt) en Ólafur ákvað að taka ekki þátt í plötugerð með þeim að þessu sinni þar eð hann var upptekinn við gerð eigin plötu. Sú plata Ríósins (Verst af öllu…) varð sú eina sem Ólafur tók ekki þátt í.

Upptökurnar á plötu Ólafs fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði, flest laganna voru eftir hann sjálfan en flestir textanna eftir Halldór Gunnarsson í Þokkabót. Platan kom út um sumarið 1977 og fékk titilinn Í morgunsárið, hún fékk ekki mikla athygli og er hluti skýringarinnar e.t.v. að finna í því að hún kom út að sumarlagi en flestar plötur komu út í jólaplötuflóðinu. Titillagið naut nokkurra vinsælda en heyrist þó lítt í dag. Í morgunsárið hlaut varla nema þokkalega dóma, í Tímanum, Dagblaðinu og Poppbók Jens Guðmundssonar.

Ólafur fylgdi plötunni reyndar lítið eftir þar sem hann var nú kynntur til sögunnar sem einn af Lummum, söngflokki sem Gunnar Þórðarson setti saman í því skyni að flytja gamla slagara í nýjum búningi. Plata með Lummunum kom út um jólin 1977 og sló samstundis í gegn, Ólafur varð því óvænt aftur í sviðsljósinu þrátt fyrir að vera ekki í Ríó tríó og þrátt fyrir hálfgert flopp með sólóplötuna.

Ólafur að störfum í Hljóðrita

Þrátt fyrir að Lummurnar nytu óumdeilanlegra vinsælda var Gunnar Þórðarson víða gagnrýndur fyrir það sem kallað var fjöldaframleiðslu eða iðnaðarframleiðslu á endurunninni tónlist, hvort það var ástæðan eða eitthvað annað kom upp einhvers konar ágreiningur milli Ólafs og Gunnars og svo fór að Ólafur yfirgaf hópinn og var ekki með á annarri plötu sem Lummurnar sendu frá sér. Hann hafði þó ærið nóg að gera því hann gekk aftur til liðs við Ríóið og ágreiningurinn við Gunnar risti ekki dýpra en svo að þeir unnu saman að fjölmörgum verkefnum á næstu árum.

Samhliða tónlistarkennslunni starfaði Ólafur mikið innan hljóðveranna og hann stýrði upptökum á fjölmörgum plötum, þeirra á meðal eru hér nefndar plötur með Þokkabót og Hljómsveit Ingimars Eydal, en einnig lék hann inn á fjölda platna og söng einnig, s.s. á plötu bræðranna Gísla og Arnþórs Helgasona, Í bróðerni og plötunni Íslensk alþýðulög sem út kom 1982. Hann kom einnig við sögu sem hljóðfæraleikari á plötum Steinku Bjarna, Smaladrengjanna, Olgu Guðrúnar Árnadóttur, Farmalls, Sigrúnar Harðardóttur og Þormars Ingimarssonar, svo fáein dæmi séu nefnd.

Árið 1982 sendi Ólafur frá sér aðra sólóplötu, hún hlaut nafnið Spilakassinn og kom út á vegum Hljóðrita. Sú plata náði aldrei neinu flugi í vinsældum og fékk reyndar fremur slaka dóma í fjölmiðlum. Hann samdi sjálfur flest lögin en textana samdi Þorsteinn Eggertsson.

Ólafur starfaði ennfremur áfram sem dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu, og þegar Rás 2 kom til skjalanna haustið 1983 færðist hann yfir á nýju stöðina, hann átti síðar eftir að annast þáttagerð á Aðalstöðinni og víðar.

Ólafur 1982

Ríó tríóið fór í nokkurra ára pásu en birtist aftur á sjónarsviðinu haustið 1984 er þeir voru með eigin söngskemmtun á veitingahúsinu Broadway við miklar vinsældir og í kjölfarið urðu þeir aufúsugestir á hvers konar skemmtunum s.s. árshátíðum og þorrablótum innan lands og utan. Reyndar starfaði Ólafur einnig með hljómsveit um 1990 sem fékk nafnið Hitaveitan en það var eins konar hliðarverkefni. Um svipað leyti (1989) var hann fulltrúi Íslands á erlendri safnplötu, NATO 1949-1989: 40 years of peace / 40 Années de Paix..

Og Ólafur var alltaf með fjölmörg verkefni í einu, frá 1989 og til ársins 2003 starfaði hann með hljómsveitinni Kuran Swing sem Szymon Kuran var í forsvari fyrir, og aldamótaárið 2000 stofnaði hann ásamt nokkrum ættingjum sem tengdir voru ættaróðalinu Syðri-Á í Ólafsfirði, hljómsveitina South River band, en báðar sveitirnar áttu eftir að gefa út plötur á næstu árum.

Ólafur var alltaf áhugamaður um þjóðlagatónlist en hann hafði einnig áhuga á djassi og varð hann einn af stofnendum Léttsveitar Ríkisútvarpsins 1985 (síðar Stórsveit Ríkisútvarpsins) sem var nokkuð áberandi um tíma, hann kom einnig að tónlistarhátíðum eins og Þjóðlagahátíð Reykjavíkur, RÚREK djasshátíðinni, Blúshátíð á Ólafsfirði og Djasshátíð Reykjavíkur.

Árið 1997 stofnaði Ólafur umboðsskrifstofu fyrir listamenn, Þúsund þjalir, og starfrækti til dauðadags en fjölmargir kunnir listamenn voru þar á hans vegum.

Ólafur lést haustið 2011 en hann hafði þá legið í dái eftir líkamsárás sem hann varð fyrir árið á undan. Hann var aðeins sextíu og tveggja ára gamall er hann lést.

Lög Ólafs með Ríó tríóinu, Lummunum o.s.frv. hafa oftsinnis ratað á safnplötur og skipta þau sjálfsagt hundruðum, sömuleiðis lög þar sem hann var í hlutverki upptökustjóra, útsetjara eða flytjenda af einhverju öðru tagi.

Efni á plötum

Sjá einnig Ríó tríó