Ég er snigill

Ég er snigill
(Lag og texti Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Ég er snigill og sniglast áfram,
sniðugur er ég og klár
en ég hef enga fætur,
já hugsaðu þér
það hentar mér vel
því aldrei ég er
fúllyndur og fótsár.

En stundum verð ég alveg ær
og hugsa: ef ég hefði bara tær
þá gæti ég hlaupið
og gott yrði það,
mér gengi svo vel
að komast af stað
þótt tærnar væru bara tvær.

En snigill er bara snigill
þó snjall sé hann bæði og fús,
hann verður að burðast á bakinu
með sitt brothætta, litla hús.

Augu mín á stilkum standa
og ég stari allt um kring.
Ég fer niður brekku
og fer upp á hól
þar sem fíflarnir brosa
við skínandi sól.
Og ég horfi alveg heilan hring.

En snigill er bara snigill…

Ég er snigill og sniglast áfram
en snertu mig ekki, ó nei!
Ef húsið mitt brotnar
ég hef engan stað
enga hlíf eða skjól
þegar ógn steðjar að
og víst er þá ég vesæll dey.

Því snigill er bara snigill…

[af plötunni Anna Pálína og Aðalsteinn Ásberg – Berrössuð á tánum]