Afmælisbörn 22. nóvember 2022

Ásgeir Jónsson

Afmælisbörn dagsins eru fjögur að þessu sinni:

Hörður Áskelsson kórstjórnandi og organisti er sextíu og níu ára gamall í dag. Hörður var stofnandi Mótettukórs Hallgrímskirkju og Schola Cantorum sem hafa gefið út fjölda platna, hann var ennfremur organisti Hallgrímskirkju í áratugi og hefur leikið á og gefið út plötur einn og í samstarfi við aðra, auk þess að hafa leikið á plötum annarra listamanna. Þá hefur hann hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín í tónlistinni, s.s. fálkaorðuna, verið borgarlistamaður og margt fleira.

Þá er trymbillinn Páll Böðvar Valgeirsson sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Páll var trommuleikari í nokkrum sveitum á sínum yngri árum en þekktust þeirra var án nokkurs vafa Sextett Ólafs Gauks sem hann lék með í þrjú á blómaskeiði þeirrar sveitar, þá hann lék hann einnig með sveitum eins og Tempó, Fífí og Fófó og Los Banditos

Ásgeir Jónsson söngvari og gítarleikari sem þekktastur var fyrir að vera söngvari Bara-flokksins frá Akureyri átti einnig þennan afmælisdag en hann lést fyrr á þessu ári. Ásgeir, sem var fæddur á þessum degi árið 1962 starfaði lengi við plötuupptökur og hljóðblöndun og lék einnig á gítar á nokkrum plötum auk þess að syngja. Meðal annarra hljómsveita sem Ásgeir starfaði með má nefna Góðkunningja lögreglunnar og Síhanouk.

Guðrún Ágústsdóttir (f. 1897) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en þessi sópransöngkona var með fyrstu óperusöngkonum okkar Íslendinga, hún tók þátt í fyrstu óratoríunni sem sett var á svið á Íslandi og söng í tilraunaútsendingum útvarps fyrir 1930. Hún lést árið 1983.

Vissir þú að Haukur Morthens flaug vestur til Los Angeles sumarið 1980 til að syngja á Íslendingahátíð og hafði meðferðis frá Íslandi mörg hundruð pylsur fyrir hátíðargesti