Afmælisbörn 23. nóvember 2022

Alfreð Alfreðsson

Afmælisbörnin í dag eru átta talsins á skrá Glatkistunnar:

Erlingur Björnsson (Kristján Erlingur Rafn Björnsson) gítarleikari Hljóma er sjötíu og átta ára gamall á þessum degi. Erlingur varð ungur ein táknmynda bítilæðisins á Íslandi þótt hann væri ekki þeirra mest áberandi. Hann var gítarleikari Hljóma og Thor‘s hammer en hafði áður spilað með Skuggum og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík. Erlingur gerðist síðar umboðsmaður Trúbrota.

Svanhildur Jakobsdóttir söng- og dagskrárgerðarkona er áttatíu og tveggja ára gömul í dag, hún söng lengst af með hljómsveit eiginmanns síns, Sextett Ólafs Gauks, en einnig áður með öðrum sveitum. Svanhildur söng inn á fjölmargar plötur sextettsins á sínum tíma og gaf einnig út nokkrar sólóplötur sjálf.

Kjartan Hákonarson trompetleikari á stórafmæli en hann er fertugur í dag, hann hefur leikið í fjölmörgum hljómsveitum eins og Jagúar og Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar en líklega eru fáar plötur í seinni tíð sem innihalda trompetleik sem hann hefur ekki leikið inn á.

Jóhann G. Jóhannsson (Jói G.) leikari og tónlistarmaður er fimmtíu og eins árs gamall í dag. Hann hefur komið víða við á tónlistarsviðinu og fyrir utan að hafa tekið þátt í fjölmörgum sýningum og plötum tengdum leikhúsinu má einnig nefna að hann var söngvari Tríós Jóns Leifssonar sem fór hamförum á Gauki á Stöng forðum og gaf m.a. út plötu. Flestir þekkja hann þó úr tvíeykinu Birtu og Bárði úr Stundinni okkar.

Þá á Mike Pollock (Michael Dean Óðinn Pollock) sextíu og níu ára afmæli í dag. Hann er auðvitað kunnastur fyrir framlag sitt með Utangarðsmönnum um og upp úr 1980 en var síðar í sveitum eins og Mögulegt óverdós, The Highland Punktry Rangers, Raflost, Viking Hillbilly Apocalypse Revenue, Bodies, Das Kapital, De Vunderfoolz, The Dirty Dan project, Frökkunum, Móral og Fræbbblunum. Þá hefur Mike gefið út nokkrar sólóplötur og leikið á plötum fjölmargra annarra listamanna.

Guðrún A. Kristinsdóttir

Guðrún A. Kristinsdóttir píanóleikari (1930) frá Akureyri hefði einnig átt afmæli þennan dag en hún lést 2012. Hún nam bæði hér heima og erlendis, var undirleikari fjölmargra kóra og einsöngvara og lék þ.a.l. inn á margar hljómplötur.

Trommuleikarinn Alfreð (Jóhann Matthías) Alfreðsson átti þennan afmælisdag en hann lést árið 2020. Alfreð (fæddur 1948) lék með ótal hljómsveitum hér fyrrum og hér má nefna sveitir eins og Fimm í fullu fjöri, Jazzmiðla, Musica Quadro, Gleðigjafa, Hljómsveit Hauks Morthens, Hljómsveit Finns Eydal og Sextett Ólafs Gauks svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Þá lék hann jafnframt inn á mikinn fjölda platna.

Og þá er hér að síðustu nefndur gítarleikarinn Gestur Guðnason en hann lést árið 2019. Gestur sem var fæddur 1949 og kom upphaflega frá Siglufirði lék með nokkrum þekktum hljómsveitum hér fyrrum svo sem Töturum og Eik og svo einnig nokkrum minna þekktum sveitum eins og Rosie, Steina blundi, Stormum, Head effect, Ecco, Orghestum, Hrím og Dýpt.

Vissir þú að Ásgeir Óskarsson trommuleikari var um tíma gítarleikari í hljómsveitinni Þrír á palli?