Sturla Már Jónsson (1947-)

Sturla Már Jónsson

Sturla Már Jónsson var einn af þeim fjölmörgu ungu tónlistarmönnum sem lagði tónlistina að nokkru leyti fyrir sig á yngri árum en sneri síðan baki við henni og að allt öðrum viðfangsefnum.

Sturla Már er fæddur árið 1947 og var aðeins tólf ára gamall þegar hann kom fram og söng dægurlög á miðnæturskemmtun í Austurbæjarbíóið ásamt fleiri ungmennum vorið 1959, og um svipað leyti hóf hann að læra á gítar. Á næstum árum benti fátt til annars en að hann yrði áberandi á tónlistarsviðinu en upp úr 1960 hófu nokkrar gítar- og bítlasveitir að spretta fram á sjónarsviðið þar sem hann kom við sögu sem gítarleikari. Hann var t.a.m. einn af stofnendum Pónik, lék einnig með Skuggum og síðan Sóló sem var reyndar töluvert áberandi á sjöunda áratugnum. Sú sveit kom svo aftur saman fyrir nokkrum árum og sendi þá frá sér plötu. Í kringum 1970 tók Sturla Már jafnframt þátt í þeirri þjóðlagavakningu sem þá var í gangi og kom fram eitthvað einn síns liðs með gítarinn að vopni.

Um svipað leyti hvarf Sturla Már að mestu af sjónarsviðinu sem tónlistarmaður en hann fór þá erlendis til náms í innanhúss arkitektúr og varð síðar þekktur sem slíkur, tónlistin vék því og hefur Sturla Már því lítt sinnt tónlistargyðjunni eftir það fyrir utan fyrrgreint kombakk hjá Sóló, og reyndar mun hann hafa leikið lítillega með Stuðbandinu – líklega upp undir 1990.