Gunnar S. Hervarsson (1974-)

Gunnar Sturla á sínum yngri árum

Gunnar Sturla Hervarsson kennari á Akranesi (f. 1974) hefur verið virkur í menningarlífinu á Skaganum, bæði í leiklistinni og tónlistinni í bænum um árabil.

Gunnar var á menntaskólaárum þegar fyrst kvað að honum en hann var þá í Fjölbrautaskóla Akraness og var afar virkur í félagslífi skólans, tók þátt í leiklistinni innan hans og tónlistinni þar sem hann kom t.d. fram sem trúbador og keppti í söngkeppnum.

Á þeim tíma var hann einnig í hljómsveitum þar sem hann ýmis söng eða lék á gítar en samdi einnig tónlist, meðal sveita hans má nefna Frávik, Pegasus (sem keppti í Músíktilraunum) og Abbababb en síðast talda sveitin sendi einmitt frá sér plötu 1999 sem vakti nokkra athygli, þar samdi Gunnar hluta efnisins. Þá hefur hann í seinni tíð starfað í sveitum eins og Ókí dókí og Hvísl og komið margoft fram á tónleikum þar sem hann hefur flutt eigið efni einn á sviði. Þess má geta að hann samdi öll lög og texta á plötu Jónu Pöllu, Pictures & drawings, sem út kom 2003.

En Gunnar hefur sem kennari við Grundaskóla á Akranesi einnig komið að félagslífi nemenda, samið, sett upp og leikstýrt leikritum og söngleikjum margoft og þá samið tónlist við þau jafnframt, sú tónlist hefur verið gefin út á plötum í einhverjum tilfellum s.s. Nornaveiðar og Hunangsflugur og villikettir. Hann hefur jafnframt verið virkur í leikhúslífinu á Skaganum í gegnum leikfélagið á staðnum.

Gunnar hefur sent frá sér eitt lag í eigin nafni, það var á safnplötunni Músíkblanda 1: Rymur, sem kom út árið 1996.

Efni á plötum