
Sunshine / Sólskin
Hljómsveit sem ýmist var kölluð Sunshine eða Sólskin starfaði um nokkurra mánaða skeið árið 1974, og lék þá töluvert á dansleikjum. Sveitin náði á sínum stutta starfstíma að senda frá sér tvö lög á safnplötu.
Sunshine/Sólskin var stofnuð vorið 1974 og voru meðlimir hennar Herbert Guðmundsson söngvari, Ólafur Kolbeins Júlíusson trommuleikari, Hannes Jón Hannesson gítarleikari, Thomas Lansdown gítarleikari og Ágúst Birgisson bassaleikari. Sveitin hóf fljótlega að leika á öldurhúsum höfuðborgasvæðisins eins og Röðli, Þórscafe og Tjarnarbúð en einnig eitthvað í nágrannabyggðalögum Reykjavíkur. Það vakti athygli að sveitin bauð upp á nokkuð hátt hlutfall frumsaminna laga á lagaprógrammi sínu, það mæltist vel fyrir og svo fór að sveitinni bauðst að vera með tvö lög á safnplötunni Hrif sem kom út fyrir jólin á vegum ÁÁ records en eigandi þess útgáfufyrirtækis var Ámundi Ámundason umboðsmaður sveitarinnar.
Um svipað leyti og safnplatan kom út hafði Sunshine hins vegar lagt upp laupana eftir nokkurra mánaða samstarf.