Námsfúsa Fjóla (1972-75)

namsfusa-fjola

Námsfúsa Fjóla

Litlar heimildir er að finna um hljómsveitina Námsfúsu Fjólu en sveitin starfaði líklega um þriggja ára skeið á áttunda áratug liðinnar aldar.

Það voru Ólafur Júlíusson Kolbeins trommuleikari (Eik, Deildarbungubræður o.fl.) og Ágúst Birgisson bassaleikari (Steinblóm o.fl.) sem munu hafa stofnað sveitina 1972 en Erlendur Hermannsson (Nelli) söngvari og Ragnar Sigurðsson gítarleikari (Tívolí, Paradís o.fl.) bættust síðan í hópinn.

Þannig skipuð gæti sveitin hafa keppt í hljómsveitakeppni í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1972. Þar hafnaði sveitin í öðru sæti á eftir hljómsveitinni Skóhljóð.

Haustið 1973 voru í sveitinni þeir Ólafur og Ágúst en í stað Erlends var þá kominn Guðjón Guðmundsson söngvari (síðar íþróttafréttamaður) og Hjalti Gunnlaugsson gítarleikari en sá síðarnefndi var þá nýgenginn í sveitina, líklega í Ragnars stað.

Heimildir eru fáar um Námsfúsu Fjólu sem fyrr segir og einhverjar þeirra segja að sveitin hafi verið stofnuð mun fyrr. Hún var líklega enn starfandi 1975 og gætu meðlimir hennar þá hafa verið auk Guðjóns söngvara og Hjalta gítarleikara, þeir Guðjón Þ. Guðjónsson bassaleikari, Sigurður Long saxófónleikari og Kristinn B. Kristinsson [trommuleikari?].