
Ingólfur Sigurðsson
Fimm tónlistarmenn koma að þessu sinni við sögu afmælisbarna dagsins:
Ingólfur Sigurðsson trommuleikari er fimmtíu og þriggja ára í dag. Hann er maður margra hljómsveita og starfar iðulega í mörgum í senn. Fyrsta sveit Ingólfs var líkast til hljómsveitin Chorus en síðan hafa þær komið í röðum og eftirfarandi runa er aðeins sýnishorn; Blátt áfram, Rauðir fletir, Orgill, SSSól, Hunang, Greifarnir, Konsert, Lalli og ljósastauragengið, Spútnik, Pláhnetan og síðast en ekki síst Reiðmenn vindanna.
Vignir Bergmann tónlistarmaður frá Keflavík er sjötíu og þriggja ára gamall á þessum degi, hann var kunnastur hér á árum áður fyrir að vera gítarleikari Júdasar. Vignir var þó einnig í öðrum þekktum sveitum á sínum tíma og þar má nefna Geimstein, Roof tops og Trúbrot um það leyti sem sú sveit var að leggja upp laupana, hann hefur ennfremur leikið inn á plötur ýmissa listamanna s.s. Gylfa Ægissonar, Rúnars Júlíussonar og Megasar.
Ásþór Loki Rúnarsson söngvari og gítarleikari þeirrar merkilegu sveitar, Meistarar dauðans á einnig afmæli í dag en hann er tuttugu og fjögurra ára gamall í dag. Meistarar dauðans vöktu mikla athygli fyrir samnefnda plötu sína sem kom út árið 2015, og ekki síður fyrir ungan aldur hljómsveitarmeðlima.
Ísólfur Gylfi Pálmason stjórnmálamaður frá Hvolsvelli er sextíu og níu ára gamall í dag. Ísólfur starfaði hér á árum áður sem söngvari og bassaleikari fjölda hljómsveita víða um land og má þar nefna sveitir eins og Lúkas, Óla Fink, Súrheysturninn sem hrundi, Sveinstaðasextettinn, Hljómsveit Gissurar Geirs, Sahara, Skólahljómsveit Héraðsskólans á Núpi, Þingmannabandið og Hvelli.
Þorsteinn (Gestur) Eiríksson trommuleikari (1927-2004) átti einnig þennan afmælisdag en hann lék með ýmsum hljómsveitum á árum áður. Þorsteinn sem venjulega var kallaður Steini Krúpa (hafði ámóta trommustíl og Gene Krupa), lék til að mynda með hljómsveitum Braga Hlíðberg, Árna Ísleifssonar, Jan Morávek, Jónatans Ólafssonar, Jónasar Dagbjartssonar og mörgum fleirum en hann rak einnig eigin sveit um tíma, Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar. Hann lék í aldarlok með slagverkstríóinu Slagbítum.
Vissir þú að Sverrir Guðjónsson söngvari er einnig trommuleikari?