Vignir Bergmann (1950-)

Vignir Bergmann

Tónlistarmaðurinn Vignir Bergmann (Sigurður Vignir Bergmann Magnússon) var einn af þeim tónlistarmönnum sem Keflavík ól af sér á sjöunda og áttunda áratugnum en hann starfaði með nokkrum af þekktustu hljómsveitum Suðurnesjanna.

Vignir er fæddur 1950 og var strax á unglingsaldri kominn í hljómsveitir, hann spilaði t.a.m. með Echo sem fleiri keflvískir tónlistarmenn stigu sín fyrstu spor í, en síðan komu sveitir eins og Júdas, Trúbrot og Roof tops áður en hann tók sér nokkurra ára pásu frá ballspilamennsku.

Vignir kom stundum á þessum tíma fram einn síns liðs með gítarinn og var jafnan talinn með bestu gítarleikurum áratugarins en féll óneitanlega nokkuð í skugga kollega eins og Gunnars Þórðarsonar og Björgvins Gíslasonar.

Hann lék á plötum hljómsveita sinna en einnig á plötu Megasar þegar hann leitaði liðsinnis Júdasar á plötum sínum, Millilendingu og lítilli plötu með laginu Spáðu í mig. Á áttunda áratugnum lék Vignir ennfremur inn á plötur fjölmargra listamanna s.s. Árna Johnsen, Guðmundar Hauks, Bjarka Tryggva, Gylfa Ægissonar, Magnúsar Kjartanssonar og Ruthar Reginalds, og síðar á plötum Bjartmars Hannessonar, Rúnars Júlíussonar, Mumma Hermanns og fleiri.

Vignir samdi á þessum tíma einnig fjölmörg lög og texta sem mörg hver hafa komið á plötum en sjálfur vann hann að sólóplötu árið 1976 sem var allt að því fullunnin en sjálfur var hann ekki sáttur við útkomuna og því kom platan aldrei út. Meðal laga eftir Vigni má nefna Á áfangastað sem lenti í þriðja sæti Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 1981 en um fimm hundruð lög voru send inn í keppnina. Lagið flutti Pálmi Gunnarsson sem einnig söng sigurlagið, Af litlum neista.

Vignir um 1970

Vignir hóf aftur að spila með hljómsveitum sem flestar voru á ballmarkaðnum en þarna má nefna sveitir eins og Geimstein, Astral, Dansbandið og Önnu Vilhjálms, Grand, Króm, Smalana og Bandalagið, og hefur hann spilað allt fram á þennan dag. Hann hefur einnig komið fram einn eða sem undirleikari t.d. með Karlakór Keflavíkur o.fl. og hefur alltaf verið þannig virkur í tónlistarlífinu á Suðurnesjunum, einkum í Garðinum þar sem hann hefur búið um árabil og kennt við grunnskólann en hann er menntaður kennari. Þá hefur hann tekið þátt í Ljósanætur-ævintýrinu með spilamennsku og átt þar lög í Ljósalagakeppninni.

Árið 2007 sendi Vignir svo frá sér plötu ásamt Bjartmari Hannessyni en hún hlaut titilinn Sögur af Suðurnesjum og hlaut ágætar viðtökur, m.a. mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Á plötunni voru fimmtán lög eftir Vigni við texta Bjartmars en Vignir söng megnið af lögunum og var áberandi í hljóðfæraleiknum. Eins og titill plötunnar gefur til kynna er um að ræða litlar sögur úr heimabyggð og eru lög meðal annars helguð systkinunum Elly og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum frá Merkinesi og Engilbert Jensen.

Efni á plötum