Afmælisbörn 24. mars 2023

Guðfinnur Karlsson

Á þessum degi eru fjögur tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Gylfi Kristinsson söngvari er sjötíu og eins árs en honum skýtur reglulega upp í hinum ýmsu hljómsveitum. Gylfi var til að mynda í upphaflegu útgáfunni af Stuðmönnum sem einnig hefur verið kölluð Frummenn, og gaf út plötu fyrir nokkrum árum. Hann var einnig í sveitum eins og Rifsberju, Hassansmjör (sem var einn forveri Spilverks þjóðanna) og Frugg og kom við sögu á plötu Jolla & Kóla, hann söng einnig á frægri Barbapapa plötu sem sést reglulega á nytjamörkuðum borgarinnar.

Þorvar Hafsteinsson söngvari og saxófónleikari hljómsveitarinnar Jonee Jonee sem margir muna eftir úr kvikmyndinni Rokk í Reykjavík er sextíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Hann starfaði á sínum tíma með fáeinum öðrum sveitum eins og Jisz og Hljómsveit Ellu Magg en hefur lítið fengist við tónlist hin síðari ár.

Annar meðlimur Jonee Jonee, trommuleikarinn Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndagerðarmaður er sextugur í dag og fagnar því stórafmæli.  Kórdrengirnir, Ný augu, Óþekkt ánægja, Rask, The Flavors, Sönghópurinn Emil og Anna Sigga, Kettlingar, Allir reiðir, Drengjakórinn, Góðkunningjar lögreglunnar og Panic eru meðal sveita sem Bergsteinn hefur leikið en með síðast töldu sveitinni (sem hann lék með ungur að árum) var hann gítarleikari.

Og svo er hér einnig nefndur söngvarinn Guðfinnur (Sölvi) Karlsson eða bara Finni úr Dr. Spock. Finni er fjörutíu og niu ára gamall á þessum degi og hefur auk áðurnefndrar Dr. Spock einnig starfað með sveitum eins og Tussul, Quicksand Jesus og Plató. Hann kom einnig að opnun Pönksafns Íslands.

Vissir þú að Tómas Steindórsson (Tommi Steindórs) var eitt sinn bassaleikari í hljómsveitinni Dirty punchline?