
Garðar Olgeirsson
Fimm afmælisbörn koma við sögu í dag:
Garðar Olgeirsson harmonikkuleikarinn góðkunni er sjötíu og níu ára. Fjórar plötur hafa komið út með honum þar sem hann leikur listir sínar á nikkuna og er þekktast laga hans Meira fjör á samnefndri plötu frá 1978. Hann hefur einnig leikið á plötum í félagi við aðra harmonikkuleikara.
Bjarki Tryggva söngvari er sjötíu og sex ára gamall í dag. Bjarki er þekktastur fyrir að syngja lagið Í sól og sumaryl með hljómsveit Ingimars Eydal sem hann söng með um árabil en hann söng einnig með sveitum eins og Póló og Bjarki og Mexíkó. Bjarki hefur ennfremur gefið út sólóplötur.
Einnig á Tómas R. Einarsson bassaleikari (og sagnfræðingur) afmæli, reyndar stórafmæli en hann fagnar sjötugs afmæli í dag. Hann hefur vægast sagt komið víða við í tónlistarsköpun sinni, gefið út um tvo tugi sólóplatna og einnig nokkrar í samstarfi við aðra, starfað með hljómsveitum á borð við Diabolus in musica, Six pack latino, Tarzan, Tríó Óla Steph, Nýja kompaníinu, Ófétunum, Söxum, Saltfiskssveit Villa Valla, Memfísmafíunni, Sálarháska og ótal fleirum. Þá hefur hann leikið sem gestur á fjölmörgum plötum annarra listamanna og hljómsveita á borð við Bubba Morthens, Megas, Mugison, S.H. draumi og Coral.
Akureyringurinn og prentarinn Finnur Eydal átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést árið 1996. Finnur sem fæddist 1940 rak eigin hljómsveitir og var klarinettu- og saxófónleikur hans aukinheldur sterkt einkenni á hljómsveit bróður hans, Ingimars Eydal, þar sem hann lék í áraraðir. Hann lék einnig í hljómsveit Svavars Gests um tíma, auk Atlantic kvartettsins og lék á tugum hljómplatna. Finnur var giftur söngkonunni Helenu Eyjólfsdóttur en þau hjónin störfuðu iðulega saman í hljómsveitunum.
Alþýðutónskáldið Ingunn Bjarnadóttir hefði ennfremur átt þennan afmælisdag. Ingunn fæddist 1905, bjó lengst af í Hveragerði og var „uppgötvuð“ af síðari eiginmanni sínum komin á miðjan aldur en hann sá að mörg laga hennar ættu fullt erindi til almennings og kom þeim í hendurnar á dr. Hallgrími Helgasyni sem hafði milligöngu um útgáfu nótnaheftis með lögum eftir hana. Ingunn lést 1972 en þremur árum síðar kom út platan Amma raular í rökkrinu, sem hafði að geyma lög eftir hana en talið er að hún hafi samið um þrjú hundruð lög.
Vissir þú að Bjartmar Guðlaugsson ætlaði sér aldrei að syngja sjálfur á fyrstu plötu sinni?