
Reynir Jónasson
Reynir Jónasson er þekktastur fyrir leikni sína á harmonikkuna enda hefur hann gefið út þrjár sólóplötur með harmonikkuleik, hann á þó mun fjölbreytilegri tónlistarferil að baki sem organisti og margt fleira.
Reynir (f. 1932) er fæddur og uppalinn á Helgastöðum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu, og eins og víða á heimilum voru til hljóðfæri á æskuheimili hans sem urðu til að kveikja áhuga hans á tónlist. Ekki stóð þó til í upphafi hjá Reyni að gerast atvinnumaður í greininni og eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1953 hóf hann nám bæði í guðfræði og dýralækningum (í Noregi) áður tónlistin tók við.
Á Akureyri hafði Reynir leikið með Hljómsveit Ingimars Eydal sama ár og hann varð stúdent en það var í raun fyrsta útgáfa þeirra margfrægu sveitar, um tíma var Reynir hljómsveitarstjóri hennar. Einnig hafði hann eitthvað leikið á böllum í heimabyggð sinni, en þá tíðkaðist að bera heilu böllin uppi með harmonikkunni einni saman.
Þegar Reynir kom heim eftir vetursetu í Noregi (vorið 1957) gekk hann til liðs við Hljómsveit Svavars Gests þar sem hann lék á harmonikku og saxófón, en einnig var hann í Rómeó kvartettnum um svipað leyti sem og Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar.
Með Svavari lék hann til 1960, en samhliða því hóf hann nám í orgelleik í Hafnarfirði hjá Páli Kr. Pálssyni. Þar með var grunnurinn að framtíð Reynis lagður en organistastarfið átti eftir að verða hans aðalstarf, til dæmis mun hann hafa leikið á orgel Hafnarfjarðarkirkju við ýmsar kirkjulegar athafnir á þessum tíma. Reynir fór aukinheldur til Kaupmannahafnar veturinn 1961-62 til að mennta sig frekar í orgelfræðunum. Hann varð þó ekki fullnuma í orgelfræðunum fyrr en 1983 þegar hann lauk burtfararprófi.
Reynir gekk aftur til liðs við Hljómsveit Svavars Gests haustið 1962, hann hafði verið um tíma í Tríói Trausta Thorberg einnig, en þegar honum bauðst að gerast organisti og kórstjórnandi á heimaslóðum á Húsavík haustið 1963 fluttist hann ásamt eiginkonu sinni norður. Ekki var hann eingöngu ráðinn organisti og stjórnandi kirkjukórs Húsavíkurkirkju heldur einnig skólastjóri og tónlistarkennari við tiltölulega nýstofnaðan tónlistarskóla í bænum.
Þau hjónin ílentust á Húsavík og bjuggu þar til 1971, Reynir stýrði einnig Lúðrasveit Húsavíkur til 1969, lék sem undirleikari með fleiri kórum nyrðra og starfaði með einhverjum danshljómsveitum, hann var til að mynda eitt sumar með hljómsveitinni Víbrum þar sem hann lék á bassa, sem sýnir fjölhæfni hans sem tónlistarmanns. Reynir er ennfremur liðtækur söngvari og munnhörpuleikari.

Reynir Jónasson 1963
Þegar Ragnar Bjarnason hafði samband við Reyni 1971 til að fá hann til liðs við hljómsveit sína, fluttu þau hjónin aftur suður. Hann lék með hljómsveit Ragnars í tvö ár, meðal annars á héraðsmótum víðs vegar um land, en að öðru leyti átti hann mestmegnis eftir að starfa á höfuðborgarsvæðinu sem organisti, kórstjórnandi og tónmenntakennari.
1972 lék Reynir inn á sína fyrstu harmonikkuplötu en Svavar Gests undir merkjum SG-hljómplatna gaf hana út undir titlinum Reynir Jónasson leikur 30 vinsælustu lög síðustu ára. Um var að ræða syrpur sem settar voru saman með ákveðna dansa í huga og var Heiðar Ástvaldsson danskennari með fingurna í þeim efnum. Ólafur Gaukur Þórhallsson útsetti og stjórnaði upptökum sem Pétur Steingrímsson annaðist. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.
Árið 1973 hóf Reynir störf við Neskirkju sem organisti og stjórnandi kórs kirkjunnar og átti hann eftir að starfa á þeim vettvangi til sjötugs þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir haustið 2002. Hann sinnti fleiri störfum, stjórnaði Lögreglukórnum um tíma, Karlakór BSR og Kór Álftamýrarskóla, auk þess sem hann starfaði sem tónmenntakennari við sama skóla um árabil. Hann var ennfremur undirleikari Litla kórs, kórs eldri borgara við Neskirkju.
Önnur plata Reynis kom út 1974 og aftur var keyrt með sama upplegg, syrpur með þrjátíu lögum. Ólafur Gaukur stjórnaði hljómsveit sem lék með Reyni, ásamt því að útsetja efnið en platan var gefin út af SG-hljómplötum eins og sú fyrri. Engir dómar birtust um plötuna en hún ber titilinn Reynir Jónasson leikur aftur 30 vinsæl lög.
Þrettán ár liðu áður en þriðja sólóplata Reynis kom út en það var 1987. Hún hét Leikið tveim skjöldum og var gefin út af RR, en ekki er ljóst fyrir hvað það stendur. Sigurður Rúnar Jónsson tók plötuna upp í Stúdíó Stemmu haustið 1987 og kom platan út fyrir jólin. Á fyrri hliðinni er að finna íslensk lög en sú síðari hefur að geyma erlend lög. Leikið tveim skjöldum hlaut ágæta dóma í Tímanum.
Reynir hefur alla tíð fengist við hljóðfæraleik við ýmis tækifæri, ýmist einn eða með öðrum. Hann hefur til að mynda leikið dinnertónlist á Hótel Borg, Naustinu og fleiri veitingastöðum, leikið í brúðkaupum, jarðarförum og öðrum tónlistartengdum samkomum og einnig með hljómsveitum eins og Hljómsveit Hauks Morthens á skemmtistaðnum Broadway 1983 og með hljómsveit sem Bubbi Morthens starfrækti um 1990 í tengslum við útgáfu á tveimur plötum. Hann starfrækti ennfremur eigin djasskvartett um aldamótin, þá um sjötugt, og lék með hljómsveitunum Furstunum. Og 2007 urðu merk tímamót hjá Reyni þegar hann hélt í fyrsta skipti sjálfstæða harmonikkutónleika í tilefni af sjötíu og fimm ára afmæli sínu. Þá var Reynir enn í fullu fjöri, lék stundum við messur í Neskirkju, á jólaböllum og ýmsum öðrum samkomum.

Reynir með nikkuna 1985
Reynir hefur einnig starfað við dagskrárgerð í útvarpi en hann annaðist harmonikkuþætti í Ríkisútvarpinu um árabil, bæði á sjöunda áratugnum og einnig á þeim tíunda. Hann hefur ennfremur komið að félags- og réttindamálum tónlistarmanna.
Sem fyrr segir lét Reynir af störfum sínum við Neskirkju um sjötugt, hann var þó hvergi nærri hættur að spila og lék á kveðjutónleikum í Neskirkju sem til stóð að gefa út. Aldrei varð þó af þeirri útgáfu en öllum á óvart birtist plata árið 2006 með Reyni og Szymon Kuran, sem hafði að geyma upptökur frá gamla pósthúsinu við Brúnaveg þar sem þeir höfðu leikið saman ári fyrr á nokkrum tónleikum en Szymon lést árið 2005. Upptökurnar, sem voru á fjórum plötum undir titlinum Gamla pósthúsið: Reykjavík 2005, fengu góða dóma í Morgunblaðinu.
Annars er hljóðfæraleik Reynis að finna á tugum platna allt frá árinu 1954 er hann lék á saxófón á plötu Soffíu Karlsdóttur en þar var að finna lagið Það er draumur að vera með dáta, einnig á tveggja laga plötu SAS tríósins (1959) sem hafði að geyma lagið um Jóa Jóns. Í kjölfarið komu út tvær plötur með Erling Ágústssyni þar sem Reynir kom við sögu, og þannig hefur þetta gengið æ síðan, minnst þó er hann starfaði á Húsavík.
Meðal þeirra sem notið hafa liðsinnis Reynis eru Bubbi Morthens, SSSól, Geirmundur Valtýsson, Megas, Aðalsteinn Ásberg & Anna Pálína og Ríkarður Örn Pálsson, sem sýnir vel þann fjölbreytileika og fjölhæfni sem Reynir hefur yfir að ráða. Að lokum má geta að lög með Reyni hafa einnig ratað á safnplötur.