Díana Magnúsdóttir (1943-)

Díana Magnúsdóttir 2

Díana Magnúsdóttir

Díana (Bjarney) Magnúsdóttir söngkona (f. 1943) þótti ein allra efnilegasta dægurlagasöngkona okkar í kringum 1960 þegar henni skaut fram á sjónarsviðið en hún hvarf þaðan jafn snögglega fáeinum árum síðar.

Díana sem var upphaflega úr Hveragerði hafði ung byrjað að syngja, hún söng til dæmis í Kór Hlíðardalsskóla í Ölfusi og var á sextánda ári þegar hún fór að koma fram á höfuðborgarsvæðinu sem söngkona árið 1959, fyrst með Hljómsveit Skapta Ólafssonar en síðan sveitum eins og City sextett, Fimm í fullu fjöri, Diskó sextett, Hljómsveit Árna Elfar, J.J. kvintett og KK sextett en með síðast töldu sveitinni var söngur hennar varðveittur á segulbandi og kom eitt lag með henni á plötu sem gefin var út KK sextettnum til heiðurs 1984 og hafði að geyma lög frá gullaldarárum sextettsins en platan hét einmitt Gullárin. Díana hafði tekið við söngnum af Ellyju Vilhjálms og var síðasta söngkona sextettsins.

Þegar KK sextettinn hætti um áramótin 1961-62 hætti Díana að syngja dægurlög opinberlega að mestu, hún fluttist til útlanda þar sem hún bjó víða með hléum allt til ársins 1992 þegar hún kom heim til Íslands, þá eftir sautján ár í Danmörku.

Díana starfaði sem sjúkraliði eftir að hún kom heim og þótt hún hafi lagt dægurlagasöng á hilluna hefur hún sungið klassískan söng t.a.m. með Söngsveitinni Fílharmóníu.