Kaffibrúsakarlarnir (1972-74 / 2002-)

Kaffibrúsakarlarnir1

Kaffibrúsakarlarnir í upphafi

Gríntvíeykið Kaffibrúsakarlarnir voru og eru ekki tónlistarmenn en þar sem plötur komu út með þeim eru þeir til umfjöllunar hér.

Upphafið að þeim félögum má rekja til þess að Jónas R. Jónsson sem þá annaðist þáttagerð í Ríkissjónvarpinu kom að máli við Gísla Rúnar Jónsson sumarið 1972 með það í huga að hann myndi koma með skemmtiatriði við annan mann sem innslag í sjónvarpsþætti sem ráðgert var að sýna um haustið. Í fyrstu unnu þeir Gísli Rúnar og Randver Þorláksson efnið en þegar þeim síðarnefnda var boðið leikhúshlutverk um það leyti kom Júlíus Brjánsson inn í dæmið.

Þátturinn, sem hlaut nafnið Birtingur, var síðan sýndur í sjónvarpinu og hlaut engar sérstakar viðtökur áhorfenda heima í stofu en þegar annar þáttur var gerður síðar um haustið voru þeir félagarnir nýttir aftur og slógu strax í gegn með bröndurum sínum sem þóttu þá nýstárlegur og frumlegur útúrsnúningur, í formi tveggja verkamanna sem drukku kaffi og spjölluðu saman í kaffitíma sínum.

Upp frá því fóru að berast beiðnir um að þeir félagar, sem þá enn höfðu ekki fengið neitt nafn, myndu taka að sér að skemmta á árshátíðum og hvers kyns annars konar skemmtunum um land allt. Það hafði aldrei staðið til en þar sem áhuginn var til staðar af hálfu almennings settu þeir upp taxta sem þekktustu skemmtikraftar landsins hefðu varla sett upp, það breytti engu um eftirspurnina og í kjölfarið hófst eins og hálfs árs tímabil þar sem þeir fóru um með grínið sitt, og komu aukinheldur margsinnis fram í útvarpi undir þáttanafninu Hæfilegur skammtur, Þórhallur „Laddi“ Sigurðsson var eitthvað viðloðandi þann þátt einnig.

Kaffibrúsakarlarnir2

Júlíus og Gísli Rúnar

Nafnið „Kaffibrúsakarlarnir“ kom utan úr bæ og smám saman festist það við þá Gísla Rúnar og Júlíus, og þegar Svavar Gests hjá SG-hljómplötum kom að máli við þá til að undirbúa útgáfu plötu með þeim, þótti eðlilegt að nota nafnið.

Platan kom út 1973 og innihélt grín flutt fyrir fullum sal af fólki, sem greinilega skemmti sér konunglega. Platan þótti þokkaleg að mati gagnrýnanda Morgunblaðsins en hún hlaut slakari dóma í Vísi.

Kaffibrúsakarlarnir störfuðu eitthvað fram á árið 1974 en ákváðu þá að þar skyldi staðar numið og hættu þeir að skemmta enda höfðu þeir tvítugir strákarnir, plön um leiklistarferil með áherslu á drama en ekki grín. Hins vegar gleymdust Kaffibrúsakarlarnir ekki svo auðveldlega og brandararnir lifðu meðal þjóðarinnar í mörg ár eftir að þeir hættu.

Ekkert lífsmark var með þeim félögum, jafnvel þótt platan væri endurútgefin á geislaplötur 1992. En það var síðan árið 2002 að þeir Kaffibrúsakarlar birtust skyndilega með sýningu í farteskinu en þá áttu þeir þrjátíu ára starfsafmæli. Sú sýning gekk ágætlega um tíma og var tekin upp með útgáfu í huga. Skífan gaf plötuna út sem hlaut titilinn Kaffibrúsakarlarnir snúa aftur. Um tíma stóð jafnvel til að gera kvikmynd um þá félaga og var undirbúningsvinna s.s. handritsgerð langt á veg komin en sú hugmynd varð aldrei að veruleika.

Kaffibrúsakarlarnir hættu þó aldrei aftur og hafa reglulega komið saman og skemmt á mannamótum síðan 2002.

Plöturnar tvær voru endurútgefnar saman 2011 undir nafninu Tveir einfaldir og eitthvað af efninu hefur ratað á ýmis konar safnplötur í gegnum tíðina.

Efni á plötum