Kaskó [2] (1986-91)

Kaskó[2]

Dúettinn Kaskó

Dansstaðadúettinn Kaskó var kunnur á sínum tíma en Kaskó starfaði mestmegnis á Skálafelli á Hótel Esju, oft fjögur kvöld vikunnar að minnsta kosti.

Dúóið kom fyrst fram 1986 og voru meðlimir þess Guðlaugur Sigurðsson hljómborðsleikari úr Vestmannaeyjum sem leikið hafði m.a. með Logum og Sín, og Helgi Sigurjónsson gítarleikari og söngvari.

Þeir félagar komu oft fram með gestasöngvara, Anna Vilhjálms, Hallbjörn Hjartarson og Þurý Bára [?] voru meðal þeirra en frægust skein sól Kaskó líklega þegar söngkonan Sheyla Bonnick söng með þeim í einhver skipti á Skálafelli en sú hafði gert garðinn frægan með Boney M.

Framan af léku þeir félagar mest á Hótel Esju en síðar einnig á öðrum dansstöðum borgarinnar eins og Danshúsinu í Glæsibæ, og um tíma reyndu þeir fyrir sér á annars konar dansleikjum, til að mynda á Íslendingahátíð í Los Angeles, á litla sviðinu á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga og víðar.

Kaskó starfaði allt til 1991 og urðu líklega einhverjar mannabreytingar á síðustu metrunum, Helgi hætti haustið 1990 og Axel Einarsson kom eitthvað við sögu en ekki liggur fyrir hvort sveitin starfaði þá jafnvel sem tríó um tíma, ekki er heldur ljóst hver fyllti skarð Helga.