Kennaraskólakórinn (1948-72)

Kennaraskólakórinn

Kennarakólakórinn ásamt stjórnandanum Jóni Ásgeirssyni

Til margra ára var starfandi blandaður kór innan Kennaraskólans, starfsemi hans var langt frá því að vera samfleytt en um tíma var um að ræða býsna öflugan kór.

Hér er miðað við að upphaf kórsins megi rekja til haustsins 1948 en heimild er þó fyrir að Jónas Tómasson hafi stjórnað kór innan skólans veturinn 1909-10. Engar aðrar upplýsingar er að finna um kórinn frá þeim tíma eða til 1948.

Það var Guðmundur Matthíasson sem þá var stjórnandi kórsins og stýrði honum að minnsta kosti til 1950, kórinn var þá fámennur.

Engar upplýsingar er að finna um að Kennaraskólakórinn hafi verið starfræktu næstu árin en 1961 kemur hann aftur til sögunnar, aftur undir stjórn Guðmundar.

Enn verður hlé á starfsemi Kennaraskólakórsins en að öllum líkindum var hann endurreistur haustið 1965 undir stjórn Jóns Ásgeirssonar tónskálds. Það var það sem kalla mætti blómaskeið kórsins en hann var afar fjölmennur á því tímabili, frá áttatíu og allt upp í hundrað manns – líklega fjölmennasti kór landsins.

Vorið 1968 hélt kórinn sína fyrstu opinberu tónleika en fram að því hafði hann ýmist sungið á samkomum skólans eða með öðrum kórum. Mikill metnaður var lagður í sönginn og til stóð að setja upp óperuna Mikado eftir Gilbert & Sullivan, ekki liggur þó fyrir hvort óperan komst nokkurn tímann á svið í flutningi kórsins.

1971 kom út lítil sex laga plata með kórnum, gefin út af SG-hljómplötum. Á þeirri plötu var meðal annarra laga að finna Skólasöng Kennaraskólans eftir stjórnandann Jón Ásgeirsson við ljóð Freysteins Gunnarssonar en hann var fyrrverandi skólastjóri skólans.

Kennaraskólakórinn fór í söng- og fræðsluferð til Noregs vorið 1972, þar söng kórinn á nokkrum tónleikum en kom einnig fram í norska ríkissjónvarpinu í ferðinni. Nokkuð hafði fækkað í kórnum þegar hér var komið sögu en um þrjátíu manns voru þá í kórnum.

Upp úr Noregsferðinni virðist hafa fjarað undan starfsemi kórsins og er ekki að sjá að hann hafi starfað nema út það sama ár, 1972.

Efni á plötum