Karlakór Ísafjarðar (1922-87)

Karlakór Ísafjarðar 1934a

Karlakór Ísafjarðar 1934

Löng hefð er fyrir karlakórastarfi á Vestfjörðum og hefur Ísafjörður verið þar fremstur í flokki en þar má segja að hafi nokkuð samfleytt starfað karlakór allt frá 1922 er Karlakór Ísafjarðar var stofnaður. Það er líka athyglisvert að tveir máttarstólpar í ísfirsku tónlistarlífi, þeir Jónas Tómasson og Ragnar H. Ragnar stjórnuðu kórnum í samtals í hartnær fjörutíu ár.

Jónas Tómasson og Sigurgeir Sigurðsson síðar biskup, voru meðal hvatamanna að stofnun Karlakórs Ísafjarðar vorið 1922 en Jónas hafði veturinn á undan æft hluta hópsins án þess þó að formlega hefði verið stofnað til hans fyrr en að vetri loknum. Stofnfélagar kórsins voru um þrjátíu talsins og Jónas varð fyrsti stjórnandi hans.

Sem vonlegt er söng kórinn einkum á heimaslóðum á þessum tímum enda samgöngur erfiðar og stopular á þessum tímum, kórinn kom þó við sögu á Alþingishátíðinni 1930 þegar hann var hluti þess sem kallað var Landskórið en það voru sex karlakórar (flestir af höfuðborgarsvæðinu), sem sungu við hátíðina. Þessi hundrað og fimmtíu karla kór sendi frá sér eina tveggja laga plötu en hugsanlega var einnig tekinn upp söngur með Karlakór Ísafjarðar sérstaklega, sá söngur var þó líkast til aldrei gefinn út frá þessari fyrstu upptökuhrinu í sögu íslenskrar tónlistar. Kórinn gekk í Samband íslenskra karlakóra um þetta leyti en það hafði verið stofnað í tilefni af Alþingishátíðinni.

Svo virðist sem starfsemin hafi verið stopul á fyrstu árum kórsins, litlar heimildir er að finna um kórinn í fjölmiðlum á árunum 1925-30 og um 1930 voru aðeins um tuttugu manns í honum en e.t.v. hefur alþingishátíðarverkefnið verið mönnum hvati til afreka því eitthvað fjölgaði í kórnum á næstu árum, hann taldi t.d. um þrjátíu og fimm manns þegar hann kom að söngsýningu um Skugga-Svein 1935.

Jónas hætti með Karlakór Ísafjarðar vorið 1941 en hann hafði þá stýrt honum frá upphafi eða raunverulega í tuttugu ár, sé veturinn 1921-22 tekinn með.

Högni Gunnarsson varð næsti stjórnandi kórsins og stýrði honum næstu sjö árin eða til 1948 þegar Ragnar H. Ragnar (þá nýtekinn við starfi skólastjóra nýstofnaðs tónlistarskóla á Ísafirði) tók við starfinu. Ragnar má líkt og Jónas Tómasson telja til framármanna í vestfirsku/ísfirsku tónlistarlífi og hann hélt kórnum á floti næstu tvo áratugina líkt og Jónas hafði gert áður.

Það sem fyrst og fremst einkenndi starf kórsins á starfstíma Ragnars var samstarfið við Sunnukórinn, blönduðum kór sem Ragnar stjórnaði einnig (en Jónas hafði einmitt komið að stofnun hans á sínum tíma (1934) og stjórnað honum á undan Ragnari). Kórarnir tveir héldu sameiginlega tónleika í heimabyggð en síðar fjarri henni, en þá var strandferðaskipið Esjan leigt og haldið í tónleikaför um norðan- og vestanvert landið.

Kórarnir tveir fluttu einnig saman tónverkið Strengleika eftir Jónas Tómasson árið 1966, í tilefni af 85 ára afmælis hans og aldarafmælis Ísafjarðarbæjar sem kaupstaðar, en hámarki samstarfsins var þó náð 1968 þegar kórarnir tveir gáfu út plötuna Í faðmi fjalla blárra. Á plötunni sungu kórarnir tveir ýmist í sitt hvoru lagi eða saman við undirleik Ragnars.

Platan hafði komið út í tilefni af sjötíu ára afmælis Ragnars kórstjórnanda og við þau tímamót settist hann í helgan stein. Má segja að starfsemi Karlakórs Ísafjarðar hafi lognast út af í nokkur ár frá og með 1968 og lá reyndar niðri til haustsins 1980 þegar nokkrir fyrrverandi félagar úr kórnum leituðu til Kjartans Sigurjónssonar organista en hann hafði áður stjórnað Sunnukórnum einn vetur.

Kjartan tók nú við stjórninni en þremur árum síðar hófst samstarf við Karlakórinn Ægi í Bolungarvík, sem í raun markaði upphafið að endalokum Karlakórs Ísafjarðar því nýr kór var stofnaður upp úr kórunum tveimur auk Karlakórs Þingeyrar, sá hlaut nafnið Karlakórinn Ernir og miðast upphafsár hans við 1983. Kórarnir þrír voru hver um sig fáskipaðir en saman töldu Ernir um fjóra tugi meðlima og var því mun betri kostur en kórarnir sem sjálfstæðar einingar.

Karlakór Ísafjarðar starfaði þó eitthvað áfram einnig sem sjálfstæð eining undir stjórn Kjartans, líklega allt til 1987.

Efni á plötum