Pjetur og Úlfarnir (1977-)

Pjetur og úlfarnir (vantar einn)

Þrír fjórðu Pjeturs og Úlfanna

Hljómsveitin Pjetur og Úlfarnir var upphaflega eins konar menntaskólaflipp, gaf síðan út stórsmellinn Stjána saxafón og hefur starfað með hléum síðan.

Pjetur og Úlfarnir var stofnuð í Menntaskólanum við Hamrahlíð í kjölfar kennaraverkfalls 1977 og lék framan af eingöngu á samkomum innan skólans. Á einu slíku balli sem haldið var í félagsheimilinu Festi í Grindavík kom staðarhaldarinn þar að máli við þá félaga og bauð þeim að gera plötu. Það var því fyrir hálfgerða tilviljun að fjögurra laga sjö tomman (sem þó var 33 sn.) „Plataðir Hó! Eddi, halló, það er síminn“ kom út haustið 1978.

Á plötunni var að finna fjögur lög eftir meðlimi sveitarinnar en þeir voru Eggert Pálsson trommuleikari, Kjartan Ólafsson söngvari og bassaleikari, Kristján Sigurmundsson gítarleikari og Pétur Jónasson gítarleikari. Allir höfðu þeir heilmikinn bakgrunn í tónlistarnámi. Eitt laganna fjögurra, Stjáni saxafónn sló heldur betur í gegn og var stórsmellur þess tíma, var spilaður í óskalagaþáttum útvarpsins út í gegn og naut mikilla vinsælda.

Pjetur og úlfarnir 1982a

Pjetur og Úlfarnir 1982

Pjetur og Úlfarnir fylgdu plötunni ekki eftir svo heitið geti, ástæðan var sú að Pétur gítarleikari fór til náms eftir stúdentsprófið til Mexíkó þar sem hann nam gítarleik. Segja má að sveitin hafi síðan starfað með hléum allt til þessa dags, á þessum árum komu þeir félagar einkum saman á sumrin. Platan fékk ágætar viðtökur, góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í Þjóðviljanum.

Þótt ekki færi mikið fyrir Pjetri og Úlfunum næstu misserin sá hljómsveitin um tónlistina í sjónvarpsmyndinni Lítil þúfa sem frumsýnd var 1980 en meðlimir hennar voru þó í öðrum tónlistartengdum verkefnum á þessum árum. Haraldur Baldursson mun hafa verið viðloðandi sveitina eitthvað á þeim tíma.

1982 birtist sveitin skyndilega aftur með aðra fjögurra laga plötu en þá höfðu þeir tekið Pjeturs-nafnið í burtu og gengu nú undir nafninu Úlvarnir (Úlfarnir). Sveitin var þá eins skipuð og á fyrri plötunni en tónlistin var nokkuð rokkaðri en áður. Platan var tekin upp í Grettisgati af Valgeiri Guðjónssyni.

Dómarnir voru svipaðir og áður, platan fékk ágæta dóma í Vikunni og þokkalega í DV, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum.

Pjetur og úlfarnir í lit

Pjetur og Úlfarnir

Sem fyrr lagðist sveitin í dvala þótt ekki hætti hún alveg störfum. Þeir félagar hafa komið saman reglulega og leikið við ýmis tækifæri, jafnvel opinberlega og 2008 sendu þeir frá sér geislaplötuna Pjetur & Úlfarnir 1978-1982 en hún hafði að geyma lögin átta sem komið höfðu út áður á vínylplötunum, og höfðu verið ófáanleg með öllu um árabil. Útgáfan vakti ekki mikla athygli en ein plötugagnrýni birtist þó, þannig fékk platan þokkalega dóma í Fréttablaðinu.

Þótt fæstir þekki nafnið Pjetur og Úlfarnir muna þó margir eftir laginu um Stjána saxafón en aðrir tónlistarmenn hafa einnig spreytt sig á þeirri lagasmíð, Sixties gaf lagið út á plötu og Skítamórall og fleiri sveitir voru með lagið á prógrammi sínu, lagið má aukinheldur heyra (sjá) í Fóstbræðraskets í flutningi Sigurjóns Kjartanssonar.

Meðlimir Pjeturs og Úlfanna hafa víða gert garðinn frægan í tónlistarlegum skilningi, þar má til að mynda nefna Kjartan sem tónskáld og Pétur gítarleikara, sem báðir hafa sent frá sér sólóplötur.

Efni á plötum