Nýja kompaníið (1980-83)

nyja-kompaniid1

Nýja kompaníið

Djassbandið Nýja kompaníið vakti þó nokkra athygli á sínum tíma og þegar sveitin gaf út plötu varð hún fyrst sveita hérlendis til að gefa út plötu sem hafði að geyma frumsamda djasstónlist.

Nýja kompaníið var í rauninni stofnað sumarið 1980 í Kaupmannahöfn en þeir Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari og Sveinbjörn I. Baldvinsson gítarleikari sem voru í námi þar í borg stofnuðu sveitina, Sigurður Valgeirsson trommuleikari kom næstur inn en hann var einnig staddur í Danmörku á þeim tíma.

Þegar þeir þremenningarnir komu heim til Íslands síðsumars bættist saxófónleikarinn Sigurbjörn Einarsson í hópinn en staldraði stutt við, annar saxófónleikari Sigurður Flosason kom inn um svipað leyti en hann var þá aðeins sextán ára gamall, þá kom einnig Jóhann G. Jóhannsson píanóleikari í sveitina. Jóhanna V. Þórhallsdóttir söng með henni um skamman tíma en að öðru leyti var Nýja kompaníið instrumental sveit.

Sveitin spilaði lengst af sem kvintett og þannig skipuð lék sveitin víða, jafnt á djasskvöldum og -hátíðum sem í framhaldsskólum og félagsmiðstöðvum.

Platan Kvölda tekur með Nýja kompaníinu kom út á vegum Fálkans haustið 1982 en hún hafði verið tekin upp veturinn á undan, á henni var að finna frumsamda djasstónlist sem fyrr segir en auk þess hafði hún að geyma djassskotin þjóðlög. Platan hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda, hún fékk þokkalega dóma í tímaritinu Samúel, DV og Morgunblaðinu og ágæta í Tímanum og öðrum dómi sem birtist í Morgunblaðinu.

Nýja kompaníið starfaði ekki lengi eftir að platan kom út, hún var hætt störfum í lok vetrar 1983.

Efni á plötum