Iss! (1983)

iss

Iss!

Nýbylgjusveitin Iss! (einnig nefnd Izz!) starfaði í nokkra mánuði árið 1983 og var öflug á tónleikasviðinu þann tíma sem hún starfaði.

Meðlimir Iss! voru Einar Örn Benediktsson söngvari og trompetleikari, Kristinn H. Árnason gítarleikari, Þórólfur Eiríksson bassaleikari, Helgi Helgason trommuleikari og Torfi Hjálmarsson hljómborðsleikari. Bragi Ólafsson lék einnig með Iss! í lokin og skartaði sveitin þá tveimur bassaleikurum.

Iss! sem var stofnuð í byrjun árs 1983 lét fljótlega til sín taka á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu og lék á fjölda uppákoma þá mánuði sem hún var að störfum, m.a. var sveitin ein þeirra sveita sem hitaði upp fyrir hljómsveitirnar Fall og Classix Nouveaux þegar þær héldu sína hvora tónleikana á árinu. Upptökur með sveitinni frá síðarnefndu tónleikunum voru gefnar út á myndbandi í nokkrum tugum eintaka, af Gramminu.

Sveitin hætti störfum um haustið þegar Einar Örn fór utan til náms í Bretlandi.