Þokkabót (1972-79)

Þokkabót 1974

Hljómsveitin Þokkabót lék vandað þjóðlagaskotið popp og var afkastamikil sveit á útgáfusviðinu en minna fór fyrir henni á tónleikum enda starfaði sveitin aðallega í kringum plötuútgáfuna. Sveitin fékk iðulega mjög góða dóma fyrir plötur sínar en flestar þeirra seldust þó ekki ýkja vel.

Upphaf sveitarinnar má rekja austur til Seyðisfjarðar en Gylfi Gunnarsson gítarleikari, Ingólfur Steinsson gítarleikari og Magnús Ragnar Einarsson bassaleikari höfðu gutlað þar með ýmsum sveitum eins og Hljómsveit Magnúsar Einarssonar og nágrennis. Þegar Hvergerðingurinn Halldór Gunnarsson munnhörpu- og slagverksleikari kom austur varð Þokkabót til og átti upphaflega að verða dæmigert sveitaballa- og árshátíðarband með ýmsa möguleika til raddsetninga því þeir félagar sungu allir.

Þokkabótar-liðar fóru suður til Reykjavíkur um haustið 1972 til að starfa á höfuðborgarsvæðinu og settu sig í samband við Ámunda Ámundason og umboðskrifstofu hans en komust þá að því að um tuttugu og fimm slík bönd væru í umferð og ákváðu því að einskorða sveitina við þjóðlagatónlist. Sveitin hafði nokkuð að gera við að leika á skemmtunum, einkum tengdum vinstri hreyfingunni og hafði sett saman prógram með lögum úr ýmsum áttum. Ólafur Þórðarson úr Ríó tríó heyrði í sveitinni í eitthvert skiptið og setti sig í samband við hana og bauð þeim að gefa út plötu undir merkjum ORG, sem var útgáfufélag hans, Rúnars Júlíussonar og Gunnar Þórðarsonar sem til stóð að stofna (útgáfan fékk síðar nafnið Hljómar en Ólafur kom þar hvergi nærri). Þokkabót sló til og tók upp tólf lög í hljóðveri Hjartar Blöndal veturinn 1973-74 en þau lög voru að mestu byggð á prógrammi því sem þeir fluttu á tónleikum, mestmegnis erlent efni við íslenska texta – suma nokkuð til vinstri og hárbeitta eftir því, Ólafur og Gunnar hjálpuðu ennfremur við útsetningar á plötunni sem þótti við hæfi að fengi titilinn Upphafið, enda markaði platan bæði upphaf sveitarinnar og plötuútgáfunnar.

Sveitin eins og hún birtist á bakhlið Upphafsins

Þegar fyrsta upplag plötunnar (fimm hundruð eintök) kom til landsins um vorið 1974 kom babb í bátinn vegna lagsins Sveinbjörn Egilsson sem var á plötunni, fjölmiðlar sögðu frá því síðar að ljóðið við lagið hefði ekki þótt viðeigandi á þjóðhátíðarárinu (1974) ekki síst vegna þess að ljóðskáldið Þórarinn Eldjárn var sonur forsetans, Kristjáns Eldjárn. Hið rétta var hins vegar að meðlimir Þokkabótar höfðu komist yfir ljóðið sem þá var óútgefið, og höfðu ekki fengið leyfi fyrir því. Þórarinn setti sig því á móti því að ljóðið kæmi út á plötunni á meðan það var óútgefið en það væri þó væntanlegt fljótlega á bók og þá væri því ekkert til fyrirstöðu. Sveitin vildi ekki bíða eftir því og því var ákveðið að upplagið yrði sett á salt og nýtt upplag pantað. Það var því úr að nýtt upplag kom til landsins án þessa tiltekna lags og platan var því ellefu laga í stað tólf.

Upphafið kom út um sumarið og hlaut góðar viðtökur. Platan lagðist vel í landann og lagið Litlir kassar naut fádæma vinsælda en það var íslenskun Þórarins Eldjárn á lagi Malvaniu Reynolds, Little boxes. Lög eins og Karl sat undir kletti og Nýríki Nonni heyrðust líka en margir þessara ádeilutexta þóttu sem fyrr segir bera nokkurn keim pólitískrar afstöðu þeirra félaga til vinstri. Platan seldist vel eða í um 5000 eintökum og seldist reyndar upp, hún fékk einnig mjög góða dóma í fjölmiðlum, þokkalega í Poppbók Jens Guðmundssonar og Vísi og mjög góða í Alþýðublaðinu. Svo virðist sem engin gagnrýni hafi birst í Morgunblaðinu.

Þokkabót fylgdi Upphafinu lítt eftir enda fór sveitin fljótlega í pásu eða til vetrardvalar þar sem meðlimir hennar voru um land allt um veturinn. Þeir komu þó saman í upphafi árs 1975 og spiluðu í sjónvarpsþætti, þar bar til tíðinda að Ríkissjónvarpið neitaði sveitinni um að flytja lagið Veislusöngur sem var á plötunni en í þeim texta var hæðst að Bandaríkjamönnum og fjölmargir þjóðarleiðtogar og aðrir nefndir í því samhengi, s.s. Mr [Bjarni] Benediktsson forsætisráðherra sem hafði látist í slysi 1970.

Þokkabót 1975

Það næsta sem heyrðist til sveitarinnar var að hún fór til Svíþjóðar í mars 1975 og lék á Alternativ music festival í Stokkhólmi ásamt fleiri íslenskum tónlistarmönnum en hátíðin var haldin til að halda þjóðlegri tónlist á lofti á sama tíma og Eurovision sönglaga keppninni var mótmælt harðlega, sænska sveitin Abba hafði sigrað keppnina árið á undan.

Um vorið hittust þeir félagar austur á Seyðisfirði og þar var hafinn undirbúningur að næstu plötu, ákveðið var að sú plata yrði að mestu höfð með frumsömdum lögum en textarnir kæmu áfram úr ýmsum áttum eins og á Upphafinu, reyndar átti Halldór nokkra texta á henni. Lagið um Sveinbjörn Egilsson fékk nú að vera á plötunni enda hafði ljóð Þórarins þá komið út og því ekkert því til fyrirstöðu, það var þó í nokkuð breyttri útgáfu en þeirri upphaflegu en Gunnar Þórðarson hafði komið við sögu þar og því hefði sú útgáfa verið stílbrot á plötunni. Þeir félagarnir voru áfram fjórir, Gylfi, Halldór, Ingólfur og Magnús en höfðu sér til fulltingis trommuleikarann Ragnar Eymundsson og Eggert Þorleifsson flautu- og klarinettuleikara (síðar leikara) en þeir höfðu báðir ættir að rekja austur. Platan var síðan tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði um sumarið undir stjórn Ólafs Þórðarsonar en Tony Cook var við takkana.

Þokkabót ásamt Tony Cook

Þá hafði verið ákveðið að Gylfi ætlaði að vera næsta vetur (1975-76) á Seyðisfirði þar sem hann gegndi stöðu skólastjóra tónlistarskólans þar í bæ, og myndi því ekki vera í sveitinni áfram þar sem hún yrði starfrækt á höfuðborgarsvæðinu. Gylfi tók þó þátt í upptökunum þarna um sumarið og samhliða upptökunum eystra störfuðu félagarnir saman í hljómsveitinni Einsdæmi sem gerði út á sveitaböllin og var nokkuð vinsæl í landsfjórðungnum.

Platan kom út um haustið og fékk nafnið Bætiflákar en útgefandinn að henni var Steinar Berg sem þarna var að stíga sín fyrstu skref í útgáfubransanum, enda ber platan útgáfunúmerið STLP 003. Bætiflákar var tvískipt plata, fyrri hliðin hafði að geyma hefðbundin lög sem voru laus við alla pólitík öfugt við fyrri plötuna en sá póll hafði verið tekinn í hæðina að fara aðra leið við gerð þessarar plötu. Textarnir voru þó aðalmálið sem fyrr og nokkuð var lagt í textablað sem fylgdi plötunni, þar gat fólk m.a. rýnt betur í textann Unaðsreitur sem var nokkuð blautlegur og var vísvitandi hafður illskiljanlegur og loðinn í upptökunni. Seinni hlið Bætifláka hafði að geyma tónverkið Sólarhringur sem var í fimm liðum og var eins konar óður til náttúrunnar. Platan þótti vera mun heilsteyptari en Upphafið þar sem megin uppistaðan var live-prógram sveitarinnar. Lögin Möwe-kvæði og Miðvikudagur nutu bæði nokkurra vinsælda og heyrast enn reglulega spiluð í útvarpi.

Bætiflákar fengu nokkuð jákvæða dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, Stúdentablaðinu, Morgunblaðinu og Dagblaðinu og mjög góða í Tímanum, Vísi og Þjóðviljanum, auk þokkalega í Vikunni. Þrátt fyrir þessa jákvæðu gagnrýni seldist platan aðeins miðlungis vel eða í um þrjú þúsund eintökum.

Um svipað leyti og platan kom út lék Þokkabót á stórum miðnæturtónleikum í Háskólabíói þar sem sveitin þótti vera fremur illa fyrirkölluð og urðu nokkur blaðaskrif í kjölfarið, m.a. skrifaði einn blaðamanna að sveitin væri hætt sem var þó ekki.

Magnús bassaleikari hætti í Þokkabót rétt fyrir áramótin og gekk til liðs við hljómsveitna Dögg sem var öllu meiri ballsveit en Þokkabót, hann fór síðar austur á Seyðisfjörð til að kenna við tónlistarskóla Gylfa. Sveitin var því bassaleikaralaus um tíma en heilmiklar mannabreytingar voru framundan í henni, Sigurjón Sighvatsson lék á bassa með sveitinni í tveimur lögum sem tekin voru upp í upphafi árs 1976 fyrir safnplötuna Í kreppu sem Steinar gaf út, sem og Eggert Þorleifsson sem hafði leikið inn á Bætifláka og gengið til liðs við sveitina um haustið en aðrir meðlimir Þokkabótar voru þá upphaflegu meðlimirnir Ingólfur Steinsson og Halldór Gunnarsson, Ragnar Eymundsson trommari hafði ekki staldrað lengi við. Leifur Hauksson gítarleikari (sem einnig hafði ættir að rekja austur á Seyðisfjörð) gekk einnig í sveitina um þetta leyti og Sigurjón var orðinn fastur meðlimur í sveitinni þegar hún lék á þjóðlagahátíð sem haldin var í febrúar, annars lék sveitin ekki oft á tónleikum fremur en áður.

Þokkabót

Um sumarið 1976 fóru þeir Þokkabótar-liðar að vinna að nýrri plötu en bókaforlagið Mál og menning hafði þá boðið þeim að gefa hana út (undir útgáfumerkinu Strengleikar) en það voru ekki fordæmi fyrir að bókaútgáfa kæmi að útgáfu plötu hérlendis ólíkt því sem síðar varð. Sú nýjung var ennfremur tekin upp við upptökurnar að sveitin fékk greidd laun frá útgáfunni á meðan þeim stóð en ekki var um fyrirframgreiðslu að ræða eða neitt slíkt.

Þokkabót fékk þá Karl J. Sighvatsson orgelleikara og Ragnar Sigurjónsson trommuleikara til liðs við sig í upptökurnar sem fóru fram í Hljóðrita með Jónas R. Jónsson sem upptökumann. Meðlimir sveitarinnar önnuðust sjálfir upptökustjórn og hljóðblöndun. Fjölmargir aðstoðarmenn komu að gerð plötunnar og bar þar hæst kvenraddir hljómsveitarinnar Diabolus in musica.

Í þetta skiptið var ákveðið að fara alla leið með vinstri boðskapinn og sömdu því þeir félagar öll lög og flesta texta sjálfir á plötunni sem fékk titilinn Fráfærur. Og eins og á Bætiflákum var önnur hliðin hugsuð sem ein heild, B-hliðin á plötunni (sem hafði að geyma hinar eiginlegu Fráfærur) var beinlínis tengd veru Bandaríkjahers á Miðnesheiði og án þess að textarnir hefðu einhvern beinan áróður gegn hernum fór ekkert á milli mála hver afstaða sveitarmanna var. Mál og menning hafði þarna engin bein áhrif en sagan segir að ýmsir innan félagsins hafi verið ósáttir við að sveitin tæki ekki meiri afstöðu gegn veru hersins. Hvort sem það var þess vegna eða vegna reynsluleysis útgáfunnar þá var plötunni varla nógu vel fylgt eftir markaðslega og hún seldist því fremur illa. Platan fékk þó frábæra dóma í Þjóðviljanum, Poppbók Jens Guðmundssonar og Stúdentablaðinu og mjög góða einnig í Vísi Tímanum og Morgunblaðinu.

Flestir voru einnig á því að umslag Fráfæra væri vel heppnað en það var Gylfi Gíslason sem hannaði það og teiknaði, framhlið þess hafði að geyma klippimynd sem gaf nokkra hugmynd um innihald plötunnar og textablað hennar var ennfremur ríkulega skreytt.

Lítið sem ekkert heyrðist frá Þokkabót í langan tíma eftir útgáfu Fráfæra, meðlimir sveitarinnar fóru hver í sína áttina og svo virtist sem sögu hennar væri lokið, Leifur og Eggert urðu partur af Hrekkjusvínum sem sendu frá sér plötuna Lög unga fólksins 1977, einhverjir meðlimir sveitarinnar spiluðu inn á sólóplötu Ólafs Þórðarsonar, Í morgunsárið og sinntu hinum og þessum tilfallandi verkefnum, hluti Þokkabótar var ennfremur viðloðandi hljómsveitina Stemmu sem þá starfaði fyrir austan.

Þokkabót 1976

Það var síðan sumarið 1978 sem Halldóri (sem þarna um tíma hafði starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi) og Ingólfi fannst biðin orðin nógu löng og vildu endurvekja Þokkabót, hinir meðlimir sveitarinnar voru þá önnum kafnir í verkefnum víðs vegar um land og líklega utan þess líka og voru því ekki tiltækir. Tvímenningarnir voru því einir eftir í sveitinni en fengu til liðs við sig flautu- og hljómborðsleikarann Lárus H. Grímsson sem þá lék með hljómsveitinni Eik.

Þokkabót var því tríó þegar ráðist var í gerð plötu sem fékk nafnið Í veruleik, stefnt var að því að Fálkinn kæmi henni út um haustið 1978 en þar sem upplag plötunnar barst seint til landsins var henni seinkað fram yfir áramót. Um þetta leyti önnuðust þeir félagar einnig tónlistina í leikritinu Pókók eftir Jökul Jakobsson, sem Leikfélag Þorlákshafnar setti á svið.

Efnið nýju plötunnar var að mestu samið af þeim Halldóri og Ingólfi, Halldór hafði samið fjölmarga texta fram að þessu en Ingólfur kom nú líka sterkur inn sem laga- og textahöfundur, hann átti ekki langt að sækja þá hæfileika enda bróðir Iðunnar og Kristínar Steinsdætra sem báðar hafa getið sér gott orð fyrir ljóð og texta. Þremenningarnir fengu aðstoðarmenn eins og Ásgeir Óskarsson á trommur og Harald Þorsteinsson á bassa en auk þess komu nokkrir aðrir við sögu við gerð plötunnar. Upptökur fóru fram í Hljóðrita eins og áður og stjórnaði Alan Lucas upptökum og annaðist þær að mestu, auk útsetninga. Robert Guillimetta hannaði umslagið.

Í veruleik kom út þegar hinu eiginlega plötuútgáfuflóði var lokið, hún fór því ekki hátt og fékk varla nema miðlungis góða dóma í bók Jens Guðmundssonar, Morgunblaðinu, Vísi og Tímanum en ágæta hins vegar í Lesbók Morgunblaðsins. Lagið Hver á rigninguna? heyrist stundum enn í dag spilað í útvarpi á blautum dögum. Textar plötunnar voru höfðu ekki að geyma þann ádeilubrodd sem fyrri plöturnar geymdu og það kann einnig að hafa sitt að segja um hversu litla athygli hún fékk.

Sveitin fylgdi Í veruleik þó eftir með tónleikum ásamt hljómsveitinni Eik, en þar var mestmegnis um að ræða tónleika í skólum og á skemmtistöðum svo plötunni var ekki fylgt eftir af neinni sérstakri ákefð.

Þokkabót í miðjuopnu Vikunnar

Og á þessum tímapunkti, vorið 1979, lauk sögu Þokkabótar raunverulega þótt hún ætti eftir að koma aftur saman í nokkur skipti. Fimm hundruð eintaka upplagið af plötunni Upphafið var gefið út vorið 1981 undir titlinum Þjófstart en Upphafið hafði þá verið ófáanleg um langan tíma. Nýtt umslag var hannað fyrir plötuna en hún bar útgáfunúmer ORG 001x, upphaflega útgáfan af laginu Sveinbjörn Egilsson rataði því loks á markað en það var Þorsteinn Eggertsson sem gaf plötuna út enda var þá ORG/Hljóma-útgáfan löngu hætt störfum.

Þokkabót kom saman sumarið 1986 og sendi frá sér þá eitt lag, Ingólfur Arnarson, sem fór á safnplötuna Skýjaborgir, sveitin spilaði þá í nokkur skipti eitthvað fram á haustið. Fjórum árum síðar lék sveitin í sjónvarpsþætti Hemma Gunn, og kom aftur saman 1994 og 1995 þegar Seyðisfjarðar kaupstaður hélt upp á aldar afmæli sitt. Það sama ár, 1995 kom út safnplatan Þokkabandsárin, tuttugu laga plata sem hafði að geyma eitt nýtt lag (Gamli bær (sem var óður til Seyðisfjarðar í tilefni af 100 ára afmælinu)) og Karl sat undir kletti í nýrri útgáfu, Spor gaf út. Sveitin hefur birst í nokkur skipti einnig á þessari öld en engar upplýsingar liggja fyrir um hverjir hafa skipað sveitina í þessum kombökkum.

Tónlist Þokkabótar var þjóðlagaskotin og lágstemmd og hafði því ekki að geyma nein sérstök vinsældaeinkenni enda var það líkast til aldrei tilgangurinn, sveitin var alltaf samkvæm sjálfri sér í því að gera tónlist sem þeir sjálfir vildu í stað þess að eltast við vinsældir, tónlistin þótti fremur vönduð og nokkuð í anda hljómsveita eins og Spilverk þjóðanna, Melchior og Diabolus in musica sem þeir áttu samtíð með að einhverju leyti. Textar Þokkabótar höfðu ennfremur innihald og voru oft bornir saman við rýra texta þeirra sveita sem hvað mest fór fyrir á áttunda áratugnum.

Lög með Þokkabót hafa komið út á nokkrum safnplötum í gegnum tíðina, einhverjar þeirra hafa nú þegar verið nefndar en einnig má hér telja upp Svona var 1974: 24 vinsæl lög frá árinu 1974 (2008), Aftur til fortíðar 70-80 (1990), Stjörnuplata 2 (1980), Með lögum skal land byggja (1985), Gullmolar (1997), 100 íslensk 70‘s lög (2009) og Steinn Steinarr: Aldarminning (2008).

Efni á plötum