Óli Fink (1972-73)

Hljómsveitin Óli Fink starfaði um tveggja ára skeið á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar og var skipuð ungum tónlistarmönnum sem síðar áttu sumir hverjir að verða áberandi í íslensku tónlistarlífi, og víðar reyndar.

Óli Fink var stofnuð í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði, líklegast um haustið 1972 en sveitin starfaði þann vetur í skólanum. Meðlimir sveitarinnar voru Kristján Kristjánsson (KK) gítarleikari, Þorleifur Guðjónsson bassaleikari (lék fyrst á gítar í sveitinni), Valgeir Skagfjörð hljómborðsleikari, Benedikt Benediktsson trommuleikari og Ísólfur Gylfi Pálmason sem gæti hafa sungið og leikið jafnvel á bassa.

Þannig skipuð starfaði sveitin allt þar til meðlimir hennar fluttu suður á heimaslóðir en sveitin starfaði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Þá tók Páll Rúnar Elíson við hlutverki Ísólfs Gylfa og söng í sveitinni, og lék sveitin eitthvað opinberlega á höfuðborgarsvæðinu. Sagan segir að hún hafi leikið m.a. í pásum hjá Hauki Morthens.

Sveitin komst í fréttirnar þegar það slys varð á æfingu hjá henni að Páll söngvari fékk rafstuð í sig og var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús, þá þurftu félagar hans að hlaupa niður á næstu hæð í æfingahúsnæðinu til að slá út rafmagnið. Honum varð ekki meint af.